Málverkasýning til heiðurs Siglfirðingnum Arnari Herbertssyni var opnuð í gær, föstudag, í Söluturninum við Aðalgötu. Sýningin verður opin daglega fram eftir ágústmánuði.

Arnar segir frá því sem býr að baki einstæðri myndlist sinni:
„Ég gerði mér grein fyrir að bókstaflega allt getur haft táknmerkingu. […] Það sem heillar mig sérstaklega við tákn er að með þeim er hægt að búa sér til einkaveröld sem þó getur verið aðgengileg. Um leið eru táknin tímalaus, tilheyra bæði núinu og eilífðinni. Það má kannski segja að með því að nota tákn sé maður að skapa sér útgönguleið út úr veröld tímans. […] Þótt ég noti tákn úr kristindómi er ég ekki að segja neitt um kristindóminn.“

Myndirnar á sýningunni vann Arnar á árunum 1989 til 2008 – margar hverjar eru undir augljósum áhrifum frá Kristinni trú. Einnig er heimspekingurinn Friedrich Nietzsche áhrifavaldur í verkum hans.


Mynd aðsend/Frá sýningu Arnars í Söluturninum 2018