Lögð fram bókun 74. fundar markaðs- og menningarnefndar á 692. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar, þar sem athygli bæjarráðs er vakin á því að samkomulag um 17. júní hátíðarhöld sem gert var við Menningar- og fræðslunefnd slökkviliðsins í Ólafsfirði árið 2018 er útrunnið en heimild er til framlengingar.
Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra fræðslu,- frístunda- og menningarmála að kanna vilja Menningar- og fræðslunefndar slökkviliðsins í Ólafsfirði til framlengingar á samkomulagi frá 2018 um eitt ár í samræmi við ákvæði samkomulagsins þar um.
Trölli.is hafði samband við Elías Pétursson bæjarstjóra Fjallabyggðar og spurði hann hvort stefnt væri að 17. júní hátíðarhöldum í Ólafsfirði í ár. Hann svaraði því til.
“Það er stefnt að því að hafa hátíðarhöld á 17. júní en ekki er vitað með umfang hátíðarhalda. Eins og staðan er núna þá lítur út fyrir að hátíðarhöld séu möguleg en eins og þú veist þá skipast veður fljótt þannig að ekki er hægt að lofa neinu á þessari stundu. Um er að ræða útihátíðarhöld sem gerir það að verkum að auðvelt á að vera að stilla umfang í takt við farsóttarástand, sem við náttúrulega vonum að verði okkur hagfelldara um miðjan júní en það hefur verið undanfarnar vikur og mánuði”.
17. júní í Ólafsfirði
Mynd/Guðný Ágústsdóttir