Stefnt er að því að setja á laggirnar átta starfsstöðvar á landsvísu sem munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins. Horft er til samlegðaráhrifa við svæðisskipt verkefni ríkis og sveitarfélaga s.s. skólaþjónustu, farsæld barna og æskulýðsstarfi.

Markmiðið er að efla íþróttahéruð með því að koma á fót sameiginlegum starfsstöðvum sem hafa það hlutverk að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og starfsstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni. Það mun styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og þannig jafna tækifæri barna óháð aðstæðum og búsetu sem og að efla þjónustu á viðkomandi svæði. Breytingin nær til tæplega 500 íþrótta- og ungmennafélaga um allt land.

„Með stofnun starfsstöðva um allt land til að styðja við starfsemi íþróttahéraða og félaga er stigið risastórt skref til að efla íþróttastarf í landinu. Með þessum breytingum mun íþróttahreyfingin vera í mun betri færum til að sinna sínum mikilvægu verkefnum sem sífellt fjölgar og verða viðameiri,” segir Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ.

Full samstaða er meðal sambandsaðila ÍSÍ, UMFÍ og stjórnvalda sem eru sammála og samstíga um stofnun starfsstöðva en tillögur þess efnis voru samþykktar á þingi ÍSÍ í vor og á þingi UMFÍ nú í október. Slík samstaða markar tímamót innan íþróttahreyfingarinnar. Starfsstöðvarnar verða fjármagnaðar að hluta til með á annað hundrað m.kr. árlegu fjárframlagi frá íþrótta- og ungmennafélagshreyfingunni.

„Það er trú mín að með aukinni samvinnu og betra skipulagi takist okkur að virkja enn frekar kraftinn sem býr í hreyfingunni. Með stofnun starfsstöðva verðum við öflugri sem kraftmikil heild og betur í stakk búin til að takast á við verkefni til framtíðar. Hreyfingin og stjórnvöld ganga nú í takt, tilbúin til að vinna saman, nýta tækifærin og ná árangri þannig að allir geti verið með á sínum forsendum um land allt. Þegar upp er staðið erum við sterkust – saman,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður Ungmennafélags Íslands.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði viljayfirlýsingu þess efnis með forseta Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og formanni Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) í dag.

Mennta- og barnamálaráðherra lýsir yfir vilja til þess að styðja við verkefnið með 200 m.kr. árlegu framlagi til ÍSÍ og UMFÍ til næstu tveggja ára, til að byrja með. Framlaginu er ætlað að styðja við þessa uppbyggingu um allt land og meðal annars koma á fót hvatasjóði. Hlutverk hvatasjóðsins er að stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í íþróttum, með áherslu á börn með fötlun og börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

„Það er mikið fagnaðarefni að sjá einróma samstöðu hjá íþróttahreyfingunni og stjórnvöldum um hið nýja skipulag. Við viljum með þessu samþætta þjónustu og skapa jöfn tækifæri til íþróttaiðkunar, hvort sem þú ert ungur eða aldraður, innfæddur eða innflytjandi, með eða án fötlunar, jafnt á landsbyggðinni sem og á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að hér sé um að ræða eina stærstu breytingu á skipulagi íþróttastarfs á Íslandi síðustu árutugi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Mennta- og barnamálaráðuneytið, ÍSÍ og UMFÍ munu samkvæmt viljayfirlýsingunni undirrita samning í lok árs um skiptingu og rekstur svæða. Mælikvarðar verða skilgreindir samhliða því til að mæla framgang og samfélagslegan ávinning verkefnisins. Stefnt er að því að samningurinn taki gildi 1. janúar 2024.

Öflugt íþróttastarf er lykilþáttur í að stuðla að farsæld barna. Áherslur eru að mörgu leyti þær sömu og í nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Íþróttir leiða til farsældar og er markmiðið að bæta og samþætta þjónustuna á landsvísu með jöfn tækifæri og samnýtingu svæða að leiðarljósi.

Mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við íþróttahreyfinguna vinnur einnig að því að efla afreksíþróttastarf á Íslandi og munu starfsstöðvarnar vera mikilvægur samstarfsaðili í því verkefni. Þau mál verða til umræðu á ráðstefnunni Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi þann 20. nóvember n.k.

Forsíðumynd/ Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ við undirritun viljayfirlýsingar
Mynd/aðsend