Lögreglunni á Norðurlandi eystra voru að berast upplýsingar um mjög slæmt veður á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, þar er sandstormur og ofsarok.

Malbik er að flettast af veginum vestan við Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði. Ökumenn hafa leitað vars með bíla sína á skjólsælli stöðum.

Lögreglumenn fóru um svæðið fyrir skammri stundu og óskuðu þess að vegfarendur yrðu upplýstir um þessar aðstæður.

Vegagerðin hefur einnig sett inn viðvörun um að ófært er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum vegna veðurs og eru vegfarendur beðnir að vera ekki þar á ferð.