Safnast þegar saman kemur…

Í þessum pistli birtist ykkur lesendum heilmikil samantekt í tveimur hlutum, um hvar sé hægt að finna Siglfirskar sögur og heimildir um horfna tíð og pistlahöfundur vill einnig með þessum skrifum opna umræðu um þörfina á einhverskonar sameiginlegri ábyrgð varðandi varðveislu stafrænna gagna sem gætu auðveldað framtíðar aðgang almennings að Siglóheimildum í máli og myndum.

Hér er ekki verið að mæla með eða á móti einu eða neinu, eða gera úlvalda úr mýflugu, heldur meira verið að spá í hvernig hægt sé að halda utan um það gríðarlega magn sem nú þegar er til af Siglósögum og þá sérstaklega á veraldarvefnum stóra.

Á netinu er Siglósöguefni dreift um víðan völl og sums staðar er hætta á að eldra efni, sem í dag er orðið stafrænar fornminjar, verði ekki lengur aðgengilegt almenningi.

Vefsafn.is

Það er þó nokkur huggun í harmi að vita að á Landsbókasafn.is er að finna “backup kópíur” af meira eða minna öllu vefbirtu íslensku efni. Þar er líka einskonar kirkjugarður fyrir horfnar heimasíður, en leit þar af horfnu efni er þó enn takmörkuð við að maður verður að vita gamla nafnið á léninu. Ekki er hægt í dag að leita að einstökum greinum eða efnisinnihaldi, líkt og hægt er með ýtarlegri leit á t.d. tímarit.is, en gert er ráð fyrir að svo sé hægt í framtíðinni.

Hér er t.d. hægt að skoða 145 augnablikskópíur af horfnu Siglfirsku heimasíðunni Siglfirðingur.is (f. 2010 – d. 2020) sem Séra Sigurður Ægisson hélt úti og komum margir góðir pennar honum til aðstoðar við skrif á allskyns Siglfirskum greinum og sögum.

Það er svolítið merkileg tilfinning að smella á einhverja dagsetningar-kópíu og sjá látna heimasíðu rísa upp frá sínum netdauða. Hún lifnar við og maður flettir og skoðar gamlar fréttir, greinar og annan fróðleik sem þarna var að finna á sínum tíma. Það var líka gaman að sjá augnabliks kópíur af útliti og þróun á gömlu sigló.is heimasíðunni allt frá desember 1998, en þá var allt þar birt á ensku.

Pistlahöfundur mælir með því að allir sem halda úti eigin heimasíðum eða bloggsíðum, kynni sér ýmsa skilmála og spurningar sem bent er á varðandi starfsemi vefsafns íslands. Sjá meira hér: Algengar spurningar

Þar eru svör við spurningum eins og t.d:
Hvernig sé ég hvort vefsafnari Landsbókasafns safnar mínu efni?
Hvernig get ég hleypt vefsafnara Landsbókasafns að mínu efni?

“Á endanum verðum við öll sögur” (Margret Atwood)

Þessi sönnu orð eru lánuð frá heimasíðu bókasafns Fjallabyggðar.

Það sem er samt mest ánægjulegt í þessu öllu saman, er að áhuginn er mikill og margir taka þátt í skrifum og heimildasöfnun og flestir eru sammála um Siglfirskar sögur eru oft á tíðum bæði sérstakar og öðruvísi en aðrar Íslenskar smábæjarsögur.

Þegar við kíkjum til baka, bara síðustu 10 ár eða svo, þá sjáum við að margir hafa verið að átta sig meira og meira á sérstöðu Siglufjarðar í sjálfri menningar og atvinnusögu Íslands. Fá bæjarfélög eiga sér álíka stóra umbiltingarsögu sem telst þess verð að gerð séð t.d. sjónvarpsþátta röð í fimm hlutum um sögu bæjarins. Stórskáldið Hallgrímur Helgason finnur heldur engan annan fjörð en Siglufjörð,  þar sem hægt er að skrifa yfir hundrað kíló af áhrifaríkum orðum í hans byggðarskáldsögu um Segulfjörðinn fræga.


Við ættum kannski að sameinast um að stofna hreinlega stafrænt Siglfirskt byggðarsögusafn í líkingu við t.d. Sarpur.is, sem er gott dæmi um stafræna samvinnu varðandi að gera sögulega muni aðgengilega almenningi gegnum netið. Spurningin er bara hver eða hverjir ættu að taka ábyrgð á slíku Siglfirsku vefefnasafni og hvar væri best að vista það og tryggja þar aðgang framtíðar kynslóða á sögulegu efni um horfin hversdagsleika sem for-feður og -mæður þeirra lifðu í.

Stóra spurningin er: Viljum við ráða einhverju um þetta sjálf ?

Það er vert að minna á, að það er mikil umræða og jafnvel málaferli víða um heim varðandi t.d. höfundarrétt, gagnasöfnun netrisa, eignarhald á gögnum og hvernig allskyns upplýsingar eru notaðar í ágóðaskyni.

Bóka og héraðskalasafn Fjallabyggðar.is

Á bóka og skjalasafninu er söguhjartað úr bænum geymt og þar er röð og regla á öllu. Stafrænt aðgengi að lesefni er að aukast meira og meira, enda eru bækur ekki lengur eingöngu til í prentuðu formati og vonandi eigum við eftir að sjá söguefni úr héraðsskjalasafninu góða, ef tími og fjármagn verður lagt í að skanna inn og birta allt sem þar er geymt. Svoleiðis vinna er með eindæmum tímafrek handa- og forritunarvinna.

Við Siglfirðingar höfum í alla tíð átt mikið af góðum pennum og sögu og þjóðlaga skráningarfólki og það sem mér hefur ætíð fundist einkenna nær allar okkar sögur er:

“Brauðstrit og barátta og hversdagsleikur venjulegs og óvenjulegs fólks og líf þeirra í máli og myndum, í harðri hálfveglausri náttúru, allt frá Úlfsdölum til Hvanndala.”

Núverandi prestur bæjarins heldur uppi gamalli hefð sem næstum krefst þess að sá sem býr á prestsetrinu Hvanneyri sitji uppi langar dimmar vetrarnætur og skrifi bækur í hjáverkum.

Á bókasafninu er til sérstök Siglósöguhilla og styttir það bæjarbúum og öðum sporin að skemmtilegu og fjöllbreytu Siglósöguefni. Þarna er að finna úrval af byggðarsögu fræðibókum, skáldsögum, ljóðabókum og ljósmyndasögubókum svo eitthvað sé nefnt.

Í nýlegu samtali við safnstjórnendan Hrönn Hafþórsdóttur, kom fram að á bókasafninu séu til um 120 – 150 bækur, sem á einn og annan hátt fjalla um lífið á Sigló. Þetta hlýtur að teljast nokkuð merkilegt fyrir lítið bæjarfélag á norðurhjara veraldar.

Pistlahöfundur getur ekki annað en dáðst að þeim sögufjársjóði sem við Siglfirðingar eigum og nýjasta viðbótin í Siglósöguhillunni er einstakt dæmi um hvað fólki finnst gaman að lesa um aldeilis venjulegan horfin Siglfirskan hversdagsleika í máli og myndum.

En það er sögur og þættir um “Fólkið á Eyrinni” sem Örlygur okkar Kristfinns gaf út um síðustu jól.
Um næstu jól hefur pistlahöfundur grun um að minnst tvær bækur um síld og Siglósögur bætist við í söguhilluna okkar.

Dásamlegar Eyrarsögur Örlygs

Vert er að minna á að vegleg Siglósögubóka og skjalasöfn eru einnig til á t.d.:
Ljóðasetur Íslands, Þjóðlagasetur sr.Bjarna Þorsteinssonar  og á Síldarminjasafni Íslands.

Fjallabyggð.is

Við skulum byrja á að kíkja á einhverskonar viðleitni hjá bæjarfélaginu við að taka þátt í söguvarðvörslu Siglufjarðar.

Þegar þú sem gestur á heimasíðu Fjallabyggðar velur að kíkja á það sem er undir Mannlíf / Um Siglufjörð birtist margt og mikið áhugavert og sögulegt efni um byggðarsöguna. En svo lendir maður í furðulegum ógöngum þegar kemur að undir síðunni: Velkomin á Skíðasaga Siglufjarðar. Þessi fyrirsögn vekur mikla eftirvæntingu lesandans með skemmtilegum stuttum texta og vísað er í 8 hlekki varðandi uppdeilingu skíðasögunnar.

Vandamálið er að allar þessar áhugaverðu undirsíður eru tómar…
Það birtist ekki stakt orð á þessum 8 síðum.

Skíðasaga Siglufjarðar: 19. öldin

Skíðasaga Siglufjarðar: 1900-1920

Skíðasaga Siglufjarðar: 1920-1930

Skíðasaga Siglufjarðar: 1930-1950

Skíðin og síldin

Skíðafélögin tvö – klofningur og sameining

Gottskálksættin á Siglufirði

Frammistaða Siglfirðinga á Íslandsmótum frá upphafi

Það vanalega er varðandi heimasíðustjórnun, er að ef ákveðnir hlutar síðunnar eru ekki tilbúnir til birtingar fyrir almenning, þá eru þær ekki sýnilegar. Hér er heldur ekkert sagt um að þessi hluti sé í vinnslu.

Eini textinn sem er sýnilegur vekur þó upp ýmsar spurningar:

“Líta má á Siglufjörð sem stórveldi í skíðasögu Íslands. Á Siglufirði var mönnum mikið í mun að skíðasaga staðarins yrði skráð hið snarasta. Litið var þannig á að um björgunarstarf væri að ræða, þar sem elsta kynslóð skíðakappanna á skammt eftir ólifað og margir eru þegar látnir. Því var hafist handa við söfnun munnlegra heimilda um skíðasögu kaupstaðarins. Rannsókn þessi er byggð á viðtölum sem tekin voru sumarið 2008.”

Í febrúar 2022 birti ég grein sem heitir: SKÍÐASTÖKK, HORFIN VETRARÍÞRÓTT. 35 myndir og vitna þar í heimildir sem greinilega voru þá til staðar á þessari síðu með orðunum:
“Heimildin er lánuð frá heimasíðunni “Skíðasaga Fjallabyggðar” en þar er hægt að lesa margt og mikið um skíðasögu Siglfirðinga og Ólafsfirðinga. Samt virðist mér eins og að þessi heimasíða hafi aldrei verið fullkláruð, en hún byggir á efni úr M.A. ritgerð: Rósu Margrétar Húnadóttur. Þar er að finna mikið af skemmtilegum viðtölum við sögufræga skíða kónga og drottningar fyrri tíma.”

Er þessi Siglfirska Skíðasögusíða enn í smíðum meira en 2 árum seinna? Eða snýst þetta um mistök við uppfærslu eða eitthvað slíkt.

Einnig má lesa úr þeim fáum orðum sem læsileg eru um Skíðasögu Siglufjarðar, að bæjarfélagið vilji axla ábyrgð varðandi söguvarðvörslu fjarðarins. En af hverju einmitt Skíðasagan varð fyrir valinu og ekki t.d. líka knattspyrnusaga Siglufjarðar hefur greinarhöfundur enga vitneskju um, hvað þá hvaða pólitískur andi og vilji blés í bæjarráði á sínum tíma. Undirritaður veit þó að áhugafólk um KÁESS söguna er þegar byrjað að safna heimildum og setja saman þá merkilegu sögu. Hér undir má sjá grein með mörgum myndum sem gefur gott yfirlit um hvað sú bæjarsaga inniheldur margar merkilegar undirsögur um vallarvandamál o.fl.

KÁ-ESS! ALDUR OG FYRRI STÖRF. 40 MYNDIR OG SKOPTEIKNINGAR

Það er nokkuð ljóst, bara af þessu stutta innliti á opinbera heimasíðu Fjallabyggðar, að það virðist vanta bæði metnað og stefnumörkun varðandi stafræna miðlun til bæjarbúa og gagnavörslu í Fjallabyggð. Svona hlutir eiga ekki að vera háðir pólitískum tískum og duttlungum.

Til að bæta gráu ofan á svart, þá verður maður hissa, þegar bæjarfélagið bendir á “Áhugaverðar síður” að þá er einungis þetta talið áhugavert!

Það er sem sagt EKKI áhugavert, að benda á að í bæjarfélaginu er til t.d. útvarpsstöð sem á sér skemmtilega FM Trölli sögu og tvær bæjarfréttasíður. Trölli.is og Héðinsfjörður.is og ekki má gleyma að bæjarblaðið Hellan er til líka, þó vissulega ekki mér vitanlega aðgengileg á netinu.

Hver er það sem ákveður hvað er vert að benda almennum borgurum á þegar þeir heimsækja opinbera heimasíðu Fjallabyggðar?

Bæði ríki og bæjarfélög verða að taka sig á og vera í góðri samvinnu við og styðja við bakið á þeim örfáu frjálsu fjölmiðlum sem eftir eru í landinu. Styðja þarf vel við bakið á því fólki sem er að reyna að halda uppi fréttum og frásögnum úr sínu byggðarlagi.

Því það hefur sýnt sig aftur og aftur að óáráðanlegur “fréttaflutningur,” ádeila, áróður og fals fréttir á samfélagsmiðlum, er lýðræðislega stórhættulegt fyrirbæri.

N4.is er sárt saknað…

Sú hörmungarsaga sem liggur á bak við að N4 neyddist til að kveðja, er klassískt dæmi um að það búa greinilega “Tvær þjóðir í einu landi” á Íslandi. Ein á suðvesturhorninu sem ræður miklu og hin á landsbyggðinni sem ræður mest litlu. Enn sem betur fer er enþá til netinngangur að bæði þáttum og blöðum á N4.is, en það sára er að okkur birtast ekki lengur nýar fréttir eða þættir um okkar fólk og þeirra líf í landsbyggðarlandshluta Íslands.

Starfsfólkið kveður með eftirfarandi orðum:
N4 hefur framleitt íslenskt efni undanfarin 15 ár. Fólkið í landinu hefur verið í brennidepli í allri framleiðslu efnis.
N4 hefur varðveitt sögu þjóðarinnar. Þessum kafla í sögu fjölmiðla á Íslandi er lokið að sinni. Rekstur fjölmiðils eins og N4 hefur byggt á óeigingjörnu starfi starfsfólks í sífellt erfiðara rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi. Fyrir það á starfsfólkið mikið hrós skilið. Stjórn fyrirtækisins harmar þessa niðurstöðu, ekki síst í ljósi þess að N4 hefur verið eini fjölmiðillinn sem framleitt hefur íslenskt sjónvarpsefni utan höfuðborgarsvæðisins.

Trölli.is… er með lesendur og hlustendur frá öllum heimsins hornum.

Allt frá stofnun trölla.is, sem verður að teljast sá vefmiðill sem tók við af gamla góða bæjarmiðlinum sigló.is, byrjar sá miðill sem var þá þegar útvarpsstöð, að safna að sér pennum sem vildu birta söguefni o.fl.

Í dag er hægt að finna 283 tímalausar fræðandi greinar, smásögur og ljósmyndasyrpusögur eftir hina ýmsu höfunda og sá nýjasti er Bakkaguttinn Albert Einarsson sem sendir okkur stuttar og skemmtilegar söguminningar um æskuárin útí Bakka o.fl.

Pistlahöfundur er fullur af þakklæti og aðdáun af elju þeirra tröllahjóna að halda úti þessum frábæra miðli og hafa ber í huga að allt er þetta gert í óeigingjarni sjálfboðavinnu og einlægum áhuga á að halda áfram Siglfirskri frásagnarhefð í tæknivæddu nútímalegu formi.

Við skulum fara varlega með að klaga nú ekki of mikið þegar t.d. vefmyndavélar bila, sem krefst viðgerða með ærnum tilkostnaði fyrir eigendur trölli.is. Allt sem þarna birtist, kemur til okkar allar aldeilis ókeypis.

Það er nokkuð ljóst að áhugi almennings á Siglfirskum sögum er mikill, ef marka má fléttingar á t.d. bara mínum eiginn greinum og Siglósögum á trölli.is. En í nýlegri Exelskjala samantekt sem ég neyddist til að gera, vegna þess að ég hafði ekki lengur minni í hausnum til að halda utan um mitt eigið skrifaða efni á trölli.is, brá mér verulega þegar ég reiknaði saman tölur á mínum greinum, smá- og myndasyrpusögum frá stofnun trölla.is í apríl 2018.

153 greinar = 214.847 fléttingar og 53.551 deillningar. Þetta eru alveg ótrúlegar tölur.

Oft á tíðum sé ég að gamlar greinar fara aftur og aftur í lesningu, þá sérstaklega kringum hátíðisdaga þegar Siglfirðingar og velunnarar fjarðarins hittast og segja hvor öðrum sögur og notast þá við sögur og ljósmyndir sem til eru í greinasafni trölli.is, sem er vel uppsett fréttasíða og auðvelt er að finna efnið með einfaldri leit og fléttingum.

Hér hefur pistlahöfundur engar verulegar áhyggur af nánustu stafrænu framtíð, því hér er til staðar mikill tæknikunnátta og reynsla á bæði FM Trölli og trölli.is. Starfsemin stendur í rauninni í miklum blóma, fréttir og myndir berast inn frá hinum og þessum, greinapennum fjölgar og útvarps þáttastjórnendur er margir og stafrænir möguleikar og ný tækni gerir það að verkum að trölla-fólkið getur búið og starfað hver sem er í heiminum.

 En þessar stóru flettinga och deilingartölur vekja spurningar sem enginn getur í rauninni svarað:

Hversu margir eru Siglfirðingar í rauninni?

Í Siglufirði búa rétt rúmlega 1.300 mans.

Siglfirðingar, fyrr og nú – Sögur og myndir.

Facebookgrúppan okkar góða, er einna helst það sem kannski mest sameinar okkur öll í Siglfirskum sögum og ljósmyndum með sína 4.400 meðlimi í dag. Þetta er með eindæmum skemmtileg og oft mjög svo fræðandi Siglósögu grúppa. Hér deilir fólk Siglfirskum myndum og sögum og oft myndast langir spjallþræðir með minningum almennings um hin ýmsu málefni. Hér hefur safnast saman mikil sögufjársjóður og undirritaður hefur oft á tíðum fengið góðar viðbætur og leiðréttingar í eigin sögur og þar kemur kostur netbirtinga að góðum notum.
Því það er svo auðvelt að setja strax inn viðbætur, til aðskilnaðar frá ómældum kostnaði og fyrirhöfn við leiðréttingar á prentuðum orðum.

Bylgja Hafþórsdóttir skapaði upprunalega þessa Facebook grúppu og hún átti örugglega ekki von á því að eftir bara nokkur ár, að svo margir vildu gerast fylgjendur síðunnar. Hér göngum við að því vísu að það verði þannig um alla framtíð að það fylgi því enginn kostnaður að stofna og halda úti svona sögugrúppum og að aðgangur að efninu sé ætíð ókeypis. Við skulum minnast þess að notendareglur hafa margsinnis breyst á Facebook sem nú heitir Meta og hafa ber í huga að við eigendaskipti á Twitter sem breyttist í X urðu stóra breytingar.

Á Reddit.com sem verður að teljast stærsta áhugamannasögu heimasíða heimsins, skapaðist nýlega hreinlega stríðsástand á milli rekstraraðila og notenda sem telja sig eigendur af því efni sem þeir hafa skapað og safnað saman í áratugi.

Í Siglfirðingar, fyrr og nú – Sögur og myndir. hafa oft birts merkilegar ljósmyndir úr dánarbúum o.fl. sem vert væri að safna og halda til haga í samvinnu við núverandi eigendur ljósmyndana, kannski hefur eitthvað borist Síldarminjasafninu nú þegar sem gjöf. Spurningin er bara hver getur tekið þetta hlutverk að sér og skulum líka hafa í huga að ofannefnt Vefsafn.is hefur mér vitanlega engan aðgang að Facebook sögugrúppum Íslands.

Annar hluti, sem er álíka löng samantekt, mun birtast ykkur hér á trölli.is næsta laugardag.

Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Myndin er lánuð og stílfærð frá opnu myndasafni Microsoft Word.

Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir í greinartexta.