Nú þegar samkomutakmarkanir vegna Covid-19 eru strangar er mikilvægt að allir standi saman og hjálpist að.
Skipta þarf nemendum í hólf þar sem nemendur 1. til 4. bekkjar eru mest 50 í hólfi en nemendur 5. til 10. bekkjar mega mest vera 25 í hverju hólfi, sem víða skapar mikil vandamál.
Í samtali við Trölla í morgun sagði Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar að síðastliðið vor voru unglingarnir nánast alveg í fjarnámi, og leit út fyrir að svo yrði einnig nú.
Róbert Guðfinnsson athafnamaður á Siglufirði sendi Erlu skólastjóra bréf þar sem hann bauð skólanum afnot af húsum Sigló hótels, sem jafnan eru kölluð “Rauða og Bláa húsið” og hafa verið einskonar tákn Siglufjarðar undanfarin ár.
“Þá fórum við að hugsa út fyrir boxið” segir Erla, og niðurstaðan er sú að unglingastigið þarf ekki að vera í fjarnámi núna, heldur er 10. bekkur á efri hæð Rauða hússins, í leðursófum við arineld, 9. bekkur er á neðri hæðinni þar sem fer vel um þau og 8. bekkur hefur góða aðstöðu í Bláa húsinu. “Það besta er að nú þurfum við ekki að skipta árgöngunum” segir Erla.
Forsvarsmenn Sigló hótels sýndu mikinn áhuga á að taka á móti krökkunum og vilja gera vel við hópinn svo þau geti stundað námið og látið fara vel um sig. “Virkilega skemmtilegt og spennandi” segir Erla skólastjóri.
Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir hótelstjóri Sigló hótels sagði í samtali við Trölla í morgun að það væri ánægjulegt að geta hjálpað og þetta væri þeirra framlag til samfélagsins á þessum erfiðu tímum þar sem allir þurfa að hjálpast að. “Gott að geta nýtt sali hótelsins á þennan hátt” segir Kristbjörg, sem lánar skólanum húsnæðið endurgjaldslaust.
Sjá einnig frétt á stjornarradid.is um takmörkun á skólastarfi sem tók gildi 3. nóvember.
Myndir í frétt/Erla Gunnlaugsdóttir