Frábærir tónleikar hjá Karlakór Fjallabyggðar í fullsetinni Siglufjarðarkirkju nú um helgina ásamt Sölku kvennakór frá Dalvík og var sannkallaður jólaandi sem réði ríkjum á tónleikum kóranna.

Meðleikari var Hörður Ingi Kristjánsson og stjórnendur voru Edda Björk Jónsdóttir og Mathias Spoerry.

Á tónleikunum voru flutt jólalög úr ýmsum áttum, meðal annars klassísk lög á borð við Hátíð í bæ og Hin fyrstu jól, en einnig voru á efnisskránni jólalög að hætti Baggalútsmanna eins og lögin Jólalalag og Stúfur. Að lokum sungu kórarnir nokkur lög saman og enduðu tónleikarnir á laginu Nóttin var sú ágæt ein þar sem tónleikagestir tóku einnig undir. Það var nokkuð mögnuð stund að heyra um 250 manns syngja saman þetta fallega íslenska jólalag svo undir tók í kirkjunni.

“Við erum í skýjunum eftir vel heppnaða tónleika í Siglufjarðarkirkju í gærkvöldi ásamt Sölku kvennakór frá Dalvík. Við sendum kærar þakkir til allra sem komu og nutu stundarinnar með okkur”

Sagði Edda kórstjóri.

Karlakór Fjallabyggðar þakkar íbúum Fjallabyggðar, nærsveitungum og öðrum sem sóttu jólatónleikana fyrir komuna og óskum öllum gleðilegrar aðventu og jóla.

Myndir/aðsendar