Verkefnið “Barnamenning – safn sem kennsluvettvangur” er samstarfsverkefni Síldarminjasafns Íslands og Grunnskóla Fjallabyggðar og hófst nú í byrjun skólaárs.
Markmið verkefnisins er að kynna fjölbreyttan starfsvettvang safnsins fyrir börnum og unglingum á tveimur eldri stigum grunnskóla og gefa þeim færi á að sjá og skynja safnið frá öðru sjónarhorni en almennir safngestir.
Nemendur, sem eru annars vegar í 5. bekk og hins vegar á unglingastigi, koma til með að sækja námskeið á safninu alla mánudaga og fá að spreyta sig á ólíkum verkefnum og hljóta innsýn í fjölbreytt starf safnsins og kynningu fimm grunnstoðum safnastarfs: rannsóknum, söfnun, skráningu, varðveislu og miðlun.
Nemendur sinna rannsóknarverkefnum þar sem ólíkar námsgreinar verða lagðar til grundvallar samhliða safnkosti Síldarminjasafnsins. Þau leita frumlegra leiða til miðlunar, t.d. með útvarpsþætti, stuttmynd, ljósmyndasýningu, sögusýningu eða viðburði.
Afrakstri vetrarvinnunnar miðla nemendur á svokölluðum yfirtökudegi. Nemendur taka yfir safnið í einn dag og ganga í fjölbreytt störf; afgreiðslu, leiðsagnir um sýningar safnsins, vinnu í geymslum, vinnu við ljósmyndakost, forskráningu gripa o.s.frv.
Verkefnið er liður í því að efla gott samstarf Síldarminjasafnsins við íbúa í heimabyggð og taka virkan þátt í menntun og tómstundum grunnskólabarna. Verkefnið hlaut styrk frá Safnasjóði og Samfélags- og menningarsjóði Siglufjarðar.