Fimmtán manna hópur nemenda og kennara við Menntaskólann á Tröllaskaga eru nýkomin heim frá Brussel þar sem þau tóku þátt í námskeiði í sirkus listum. Þetta var liður í miðannarviku og því formlegt nám í skólanum þó óvenjulegt sé.
Krakkarnir voru mjög virk og áhugasöm og hópurinn hristist mjög vel saman. Þau lýstu í sameiningu upplifun sinni af vikunni með þessum orðum:
Allir í hópnum eru sammála því að þetta sé búin að vera skemmtileg upplifun, margt sem við höfum lært og fengið að upplifa menninguna hérna og hvernig það er að vera í sirkusskóla. Við höfum þurft að redda okkur með líkamstjáningu til að hafa samskipti við aðra nemendur sem kunna ekki ensku. Það sem við erum búin að læra síðustu daga er meðal annars að juggla, læra betur á jafnvægið, loftfimleika, acro samstarf, líkamstjáning og tekið þátt í allskonar nýjum leikjum. Við þurftum að koma inn í skólann með opinn huga þar sem þetta er allt öðruvísi en við erum vön að gera. Sjónarsviðið hjá mörgum hefur stækkað töluvert og hefur það opnað hugann hjá mörgum að prófa nýja hluti og taka þátt.
Það er því ljóst að þessi hópur hefur sannarlega fengið að takast á við nýja hluti þessa síðustu viku og safna dýrmætri reynslu í sarpinn. Námskeiðið var styrkt af Erasmus+ eins og svo mörg erlend verkefni í MTR.
Sjá fleiri myndir: HÉR