Á vef Fjallabyggðar segir að í síðustu viku hafi Sjávarútvegsskólinn verið haldinn í Fjallabyggð fyrir yngsta árgang nemenda í vinnuskólanum. Alls mættu 15 krakkar á námskeiðið frá Vinnuskóla Fjallabyggðar. Kennarar voru þau, María Dís Ólafsdóttir og Magnús Víðisson.
Á meðan á Sjávarútvegsskólanum stóð héldu krakkarnir laununum sínum í vinnuskólanum.
Vikan byrjaði á mjög fræðandi og skemmtilegri heimsókn í Fiskmarkaðinn á Siglufirði. Aðsetur Sjávarútvegsskólans á Siglufirði, þar sem hann var fyrri part námskeiðsins, var á Síldarminjasafninu. Það lífgaði mikið uppá að vera í svo sögulegu umhverfi. Hilmar frá Genís kom til okkar og kynnti starfsemina fyrir krökkunum.
Skynmat var framkvæmt á tveimur þorskum sem fengnir voru hjá Fiskmarkaðnum. Þorskarnir höfðu báðir verið geymdir á ís í 6 daga og gekk bara vel að meta aldurinn hjá krökkunum.
Framkvæmd voru rodac stimplunar próf og tekin PCA loftsýni. Þau sýndu bakteríu vöxt eftir 2 daga og ekki var lyktin góð.
Seinni part vikunnar hafði skólinn aðsetur í Ólafsfirði. Þar var Sjávarútvegsspilið spilað (sem kennarar Sjávarútvegsskólans bjuggu til), og fleiri fyrirlestrar voru fluttir. Vikan endaði svo á heimsókn í Vélfag ehf þar sem tekið var vel á móti okkur og á pizzu veislu á Höllinni ásamt útskrift.
Samstarfs- og styrktaraðilar í Fjallabyggð voru: Genís hf, Fiskmarkaður Siglufjarðar ehf, Norlandia ehf, Vélfag ehf, Fjallabyggð og Síldarminjasafnið.