Ef gluggað er í gamlar skræður og heimildir skoðaðar um sjóræningja á Íslandi, kemur Tyrkjaránið strax upp í hugann, en aðrar sambærilegar sagnir af ránum virðast hverfa meira eða minna í skuggann af þeim ógnvænlega atburði.
Því fer þó fjarri að það hafi verið eina strandhöggið eða ólánsverkið sem sjóræningjar frömdu hérlendis.
Slíkir atburðir áttu sér meira að segja stað mun nær okkur og víðar en flest okkar höfum haldið. Sagnir eru um að enskir sjóræningjar hafi tekið sér bólfestu á einhverjum stöðum á Íslandi um og upp úr 1413, en nokkru síðar á enn fleiri stöðum.
Þeir munu ekki hafa látið sér nægja að veiða fisk þó að þeir hafi vissulega gert talsvert af því, því þeir voru mjög ötulir ránsmenn víða á Atlandshafinu og þar á meðal á Íslandi.
Sjóræningjar voru víða á landinu.
Englendingar fengu heimild Danakonungs til fiskveiða og verslunar við Ísland á árunum 1484-1490 og árið 1484 hófst flotavernd Englendinga á Íslandsmiðum.
Danakóngur lék þó tveimur skjöldum því hann var þarna tilbúinn til að semja við Englendinga þar sem hann taldi sig hagnast á því, en Englendingar lofuðu að versla ekki hér á landi.
Íslendingar vildu hins vegar fyrir alla muni halda í verslunina við Englendinga. Samkeppnin skapaði lægra verð fyrir innfluttan varning og hærra verð fyrir útflutninginn. Þetta kom berlega í ljós eftir að Englendingar fóru héðan því þá breyttust hlutföllin Íslendingum í óhag.
Mikið var gert að því að prjóna sokka og vettlinga til að selja Englendingum, en Danir reyndu að banna alla slíka verslun. Þeim tókst þó engan vegin að framfylgja því banni nema að litlu leyti.
Enskir sjóræningjar komu svo til Íslands á 17. öld og herjuðu þá helst á verslunarskip og fiskiskútur, en þau skip voru ekki íslensk þar sem íslendingar áttu engin kaupskip á þeim tíma.
Það kom fyrir að þeir rændu skipverjum á stórum seglskipum víða um höf sem þeir gátu haft not af, en þeir höfðu lítið með íslenska kotbændur að gera sem kunnu ekkert til verka á sjó.
Þó herjuðu þeir á ýmsa staði hérlendis og tvær árásir eru líklega þekktastar. Sú fyrri var framin á Patreksfirði árið 1579 en sú seinni í Vestmannaeyjum árið 1614.
Í ráninu í Vestmannaeyjum var það helsti ásetningur sjóræningjanna að ræna erlend skip sem lágu þar í höfninni. En jafnframt lögðu þeir undir sig Heimaey í heilar tvær vikur, rændu og rupluðu í kirkjum, verslunum og heimilum og eyðilögðu það sem þeir gátu ekki haft með sér. Þeir ógnuðu fólki með vopnum og nauðguðu konum.
Á Patreksfirði 35 árum áður virtist helsta markmið sjóræningjanna hafa verið mannrán, en þeir rændu þar auðmanninum Eggerti Hannessyni og buðu hann síðan lausan gegn lausnargjaldi.
Eggert var í haldi sjóræningjanna vikum saman, og var pyntaður og barinn þar til ræningjunum barst sönnun fyrir greiðslu. Á meðan þeir biðu, skemmtu þeir sér við að ræna kirkjur og eyðileggja, nauðga konum og pynta menn með eldi.
Við komumst líklega ekki hjá því að minnast fáeinum orðum á Tyrkjaránið sem kallað var svo þó að líklega hafi engir Tyrkir komið þar við sögu, en Íslendingar kölluðu í þá daga einfaldlega alla múslima frá arabaríkjunum Tyrki.
Ránið átti sér stað sumarið 1627 þegar sjóræningjar frá norðvestur Afríku rændu fólki í Grindavík, á austfjörðum og í Vestmannaeyjum, og seldu í þrældóm í Barbaríinu sem svo var kallað.
Ræningjahóparnir voru tveir og var annar frá Algeirsborg, en hinn frá Sale í Marokkó.
Um 50 manns voru drepnir og tæplega 400 var rænt í það heila, en rúmum áratug síðar hafði náðst að safna fé til að kaupa hluta bandingjanna til baka og urðu það um það bil 50 einstaklingar sem komust aftur heim.
Sögur fóru þó af því að marga langaði alls ekkert aftur til Íslands í hokrið og örbirgðina.
Frægasti einstaklingurinn í þeim hópi var eflaust Tyrkja-Gudda sem svo giftist Hallgrími Péturssyni sálmaskáldi. Það þótti svo afar sérstakt að einn sjóræningjanna í Vestmannaeyjum hét því undarlega nafni James Gentleman.
Nánar má lesa um Tyrkjaránið á slóðinni: https://is.wikipedia.org/wiki/Tyrkjar%C3%A1ni%C3%B0
Í upphafi 19. aldar, fengu Íslendingar heimsókn frá ósviknum breskum herramannssjóræningja. Sá hét Thomas Gilpin og var með konunglegt leyfisbréf til sjórána í Napóleonsstríðunum. Hann var hingað kominn ásamt 25 manna áhöfn í leit að einhverjum verðmætum í eigu danska kóngsins sem hann gæti sölsað undir sig með góðri samvisku, enda voru Danmörk og England sitt hvoru megin í átökunum.
Gilpinsránið hlýtur að teljast ein sérkennilegasta árás sjóræningja fyrr og síðar, því svo virðist sem hvorki hinir ensku sjóræningjar né hin íslensku fórnarlömb, hafi getað ákveðið sig hvort þetta væri ránsleiðangur eða kurteisleg heimsókn.
Koma skipsins í júlí 1808 olli bæði forvitni og áhyggjum í landi, en einhverjir fóru þó út í skipið til að athuga hverjir væru þar á ferð.
Þeirra á meðal var Jón Jónsson, aðjúnkt við Bessastaðaskóla. Hann þáði matarboð hjá kapteininum og hélt uppi samræðum við hann á frönsku. Þegar hann ætlaði aftur í land var honum tilkynnt á afar kurteislegan hátt, að hann hefði því miður verið tekinn í gíslingu.
Upphófst síðan heldur misheppnuð leit hinna kurteisu sjóræningja að opinberu fé sem þeir gætu lagt hald sitt á, og enn þá misheppnaðri vörn íslenskra embættismanna. Stundum létu skipverjar þó vígalega, og á Álftanesi réðust tveir þeirra að tveimur ungum stúlkum með illt í huga.
Þeir voru samt ekki kaldrifjaðri en svo að þeir lögðu á flótta þegar kona um sjötugt Jórunn að nafni, nálgaðist þá heldur brúnaþung og óárennileg, með hníf á lofti og ungbarn á öðrum handleggnum, og kom stúlkunum þannig til bjargar. Einnig lögðu aðrir tveir sjóliðar af sama skipi leið sína til Viðeyjar í skjóli nætur, en þar bjó hinn aldurhnigni Ólafur Stephensen fyrrum stiftamtmaður og rændu þeir hann bæði gleraugum og vasaúri. Ólafur varð skiljanlega ósáttur við framferði þeirra og klagaði þá til Gilpin skipstjóra sem hafði heimsótt hann fyrr um daginn, en vel hafði þá farið á með þeim.
Oft og víða urðu átök hér á landi á milli Englendinga og Dana, svo sem í Vestmannaeyjum.
Leiða má að því líkum að þeir Englendingar sem stunduðu sjómennsku og verslun á Íslandi hafi ekki allir verið miklir friðsemdarmenn og einnig vanir átökum. Þrátt fyrir það var ekki mikið um árekstra á milli Englendinga og Íslendinga.
Sá atburður varð þó árið 1605 að í brýnu sló á milli þriggja enskra manna og Íslendings. Fór svo að Íslendingurinn varð einum Englendinganna að bana. Tilræðið dæmdist vera nauðvörn en Englendingarnir höfðu áreitt Íslendinginn í heilan dag svo að upp úr sauð á endanum, en þessi atburður átti sér stað á Hellissandi.
Einnig kom stundum til átaka og jafnvel manndrápa milli Íslendinga og Englendinga þegar enskir fiskimenn rændu búfénaði til að verða sér úti um nýmeti.
Englendingar komu sér upp búðum á ýmsum stöðum hér á landi, en aðalbækistöðvar þeirra virðast hafa verið í Beruvík, yst á Snæfellsnesi.
Samskipti og verslun við Englendinga.
Ýmissa grasa kennir í farmskrám enskra skipa sem hingað sigldu. Þar er til dæmis að finna kornvöru svo sem bygg og mjöl, skeifur og Ásmundarjárn sem þótti betra en íslenska járnið, potta, katla og kirnur auk drykkjarvarnings svo sem bjórs og víns. Einnig pipar, salt og sykur, klæðisstranga og blúndur, en einnig tilbúinn fatnað svo sem skó, yfirhafnir og hatta.
Útflutningsvörurnar voru mun fábreyttari, eða næstum eingöngu skreið. Englendingar höfðu lítinn áhuga á vaðmáli en eitthvað var flutt út af fálkum og brennisteini.
Árið 1447 lét danski konungurinn hertaka ensk skip sem sigldu um Eyrarsund, því Englendingar stunduðu kaupskap víða við Eystrasalt. Við þessu áttu Englendingar fá svör.
Árið eftir veitti konungur þó Englendingum verslunarleyfi á Íslandi gegn greiðslu tolls sem nefndist sekkjagjald. Nokkuð var um að Englendingar brytu gegn þessu samkomulagi og fór svo árið 1466 að konungur afturkallaði öll verslunarleyfi Englendinga á Íslandi og fól hirðstjóra sínum, Birni Þorleifssyni hinum ríka á Skarði á Skarðsströnd, að framfylgja þessu banni.
Björn gerði sem fyrir hann var lagt en svo fór að Englendingar drápu hann og nokkra af hans mönnum á Rifi 1467.
Víg Björns varð til þess að styrjöld braust út milli Englendinga og Danakonungs sem nú hafði í fullu tré við Englendinga því hann naut atfylgis Hansakaupmanna. Lauk stríðinu þannig að Englendingar urðu að lofa að versla ekki á Íslandi án leyfis.
Enskir sjómenn höfðu um árabil stundað veiðar við Ísland og öðlast þar mikla reynslu og færni í siglingum. Þeir voru þekktir sem sjóræningjaþjóð, en sumir þeirra stunduðu þó aðeins veiðar og viðskipti hér á landi.
Þeir stunduðu einnig kaupsiglingar til meginlandsins og við Miðjarðarhaf. Margir þrautreyndir sjómenn sem siglt höfðu hingað til lands voru í enska flotanum árið 1588 þegar hann sigraði þann spænska í mikilli sjóorrustu í Ermarsundi. Þessir sjómenn gátu þannig verið fiskimenn við Ísland, hermenn enska kóngsins í styrjöldum, en sjóræningjar vítt og breitt um Atlandshafið þegar ekkert annað bauðst.
Sjóræningjar á Siglufirði.
Ýmislegt bendir til þess að enskir sjóræningjar hafi komið sér upp bækistöð á Siglufirði á einhverju tímabili snemma á 15. öld, því hinir ensku fiskimenn sem áður höfðu gert út á íslandsmið, munu fljótlega hafa áttað sig á landfræðilegum kostum fjarðarins.
Á Siglufirði eru tvö örnefni sem benda til dvalar Englendinga, sem eru Englindingahóll og Englindingabúðir.
Á því svæði þar sem líklegast er að þessir staðir hvað verið sem örnefnin eiga við, mótaði lengi fyrir allmiklum mjög gömlum rústaleifum. Nú eru örnefnin flestum gleymd og komnar götur og hús þar sem bæði hóll og rústir voru sýnilegar áður fyrr.
Englindingahóll hefur líklega verið neðan og rétt sunnan við kirkjuna. Aðrar heimildir segja norðan við kirkjuna og sunnan við torfbæina Læk og Lækjarkot, en það þykir heldur ótrúverðugra. Frekar að hann hafi verið sunnan við kirkjuna og Englindingabúðir ennþá sunnar, jafnvel nálægt Búðarhóli.
Örnefnið Búðarhóll býður líka upp á að þar hafi einhvern tíma verið til staðar einhvers konar búðir eða bækistöð. Þarna á svæðinu voru áður en byggð tók að myndast að einhverju marki á eyrinni og þar fyrir ofan, sýnileg merki um mjög gamlar húsarústir og hefur eitt húsanna að verið nokkuð stórt og því hugsanlega einhvers konar skemma.
Enskir duggarar voru taldir miklir ribbaldar á fimmtándu og sextándu öldinni og litu einfaldlega á sjórán sem eðlilegan atvinnuveg. Það eru talsverðar heimildir til um að þeir hafi farið ránshendi um byggðir norðurlands, mikið um Eyjafjörð og Skagafjörð. Til er þó frásögn um bardaga Englendinga við Skagfirðinga þar sem hinir síðarnefndu eru sagðir hafa náð að drepa nær 80 enska ræningja sem þeir dysjuðu síðan við Mannskaðahól á Höfðaströnd eða skammt þar frá.
Sagan segir að í miðjum heyönnum árið 1431 hafi enskir víkingar ráðist að bænum Hóli á Höfðaströnd, sem í framhaldinu var þess vegna nefndur Mannskaðahóll. Þar drápu þeir húsmóðurina, sem lá á sæng, og nýfæddan son hennar í vöggu.
Allir verkfærir menn voru kallaðir til og ráðist var að ræningjunum þar sem þeir höfðust við í laut milli bæjanna Vatns og Hóls. Ræningjarnir guldu afhroð en nokkrir komust í kirkjuna á Höfða og báðu sér griða sem þeir fengu ekki, og voru leiddir einn af öðrum út úr kirkjunni og höggnir þar sem heitir Melhorn sem er rétt handan Höfðaár.
Reyndar eru líkindi til að eitthvað hafi sagan skolast til síðan, enda á þetta að hafa átt sér stað árið 1431, því ekki hafa fundist neinar dysjar við sjálfan Mannskaðahól eða í svokölluðum Ræningjahólum þar skammt frá enn sem komið er. Sagan segir líka að fáeinir hafi komist undan og fengið grið hjá Hólabiskupi sem var af enskum ættum.
Vorið 1952 fékk Kristján Eldjárn þáverandi þjóðminjavörður símhringingu frá hreppstjóranum á Hofsósi, Guðmundi Jónssyni, sem sagði honum frá beinafundi við Höfðaá á Höfðaströnd, og var þar sannarlega um mannabein var að ræða.
Þjóðminjavörður taldi ekki um að villast, að hér væru fundin bein Englendinganna sem féllu í bardaga við Íslendinga árið 1431.
Athugun á beinafundinum sýndi að um var að ræða fimm menn að minnsta kosti, sem dysjaðir höfðu verið á Melhorninu og nánari rannsókn leiddi í ljós að tveir mannanna hafi verið hálshöggnir og tveir hlotið áverka í bardaga.
Beinafundurinn árið 1952 var reyndar ekki sá fyrsti á þessum slóðum, því árið 1873 fundu tvær vinnukonurnar á Höfða einnig bein á Melhorni. Þarna má vel álíta sem svo að þar hafi farið sjóræningjarnir sem höfðu sínar bækistöðvar á Siglufirði.
Þessir ribbaldar fóru víðar, því sagnir eru um að þeir hafi gereytt Ólafsfirði og brennt kirkjurnar í Hrísey, á Húsavík, í Grímsey og rænt bæði fólki og fénaði, en ekkert gert af sér á Siglufirði.
Sagt er að tófan bíti aldrei nærri greninu og má því vel vera að sama lögmál gildi um sjóræningjana. Þess vegna verður að telja veruleg líkindi á að þarna hafi þeir haft bækistöðvar sínar, því betra og öruggara lægi er vart að finna á öllu norðurlandi.
Aðrir kostir eru svo þeir að þangað varð vart komist með góðu móti öðru vísi en sjóleiðina, því eins og við vitum er staðurinn girtur háum fjöllum nema til norðurs. Valdsmenn Danakonungs og sendiboðar Hólabiskups hafa vísast ekki haft mikinn áhuga á að leggja í einhverja glæfraferð yfir fjöllin og voru einnig eflaust vanbúnir til átaka við enska ofstopamenn.
Reyndar er talið að eins konar ógnarjafnvægi hafi ríkt milli sjóræningjanna og Hólabiskups sem yrði ekki rofið meðan þeir ensku létu eignir biskupsstólsins í friði. Þá eru líkindi til þess að þeir ensku hafi viljað halda frið við heimamenn, þar sem þeir voru duglegir fiskimenn og hafa e.t.v. séð Englendingum fyrir nýmeti og skreið í vöruskiptum.
Um það leyti sem Englendingar eru á Siglufirði, fara margar smájarðir í hreppnum í eyði og hafa komið fram kenningar um að vinnuhjú kotbænda hafi talið sig betur komin í þjónustu enskra, en hjá kotbændunum sem lítil sem engin laun gátu greitt, með þeim afleiðingum að hinir síðast nefndu hafa þá gefist upp á hokrinu og kannski einnig gengið þeim ensku á hönd. Hver veit?
Þegar málið er skoðað frá annarri hlið, má sjá að Þetta er ótrúlega líkt þeirri þróun sem varð við upphaf síldarævintýrisins, þegar vinnuhjú tóku sig upp úr sveitum landsins til að fara í síldina á hinum hraðvaxandi kaupstað á Tröllaskaganum.
Um svipað leyti er útlit fyrir að einar tólf smáhjáleigur og þurrabúðir hafi staðið þétt saman við sjávarkambinn á Siglunesi.
Ljóst er að þar hefur verið róið til fiskjar af miklum móð um árabil, en því svo skyndilega hætt. Þarna gæti einnig hafa verið gert út á Englendinginn meðan hann hafði viðdvöl í firðinum, en grundvellinum síðan kippt undan verstöðinni þegar þeir hurfu á braut.
Svolitlar vangaveltur um Búðarhól.
Skammt sunnan Englendingabúða er svolítil hæð sem nefnist Búðarhóll eins og áður er nefnt hér að ofan. En það er svo sem ekkert heldur með öllu útilokað að Englendingabúðir og Búðarhóll séu einn og sami staðurinn, en í það minnsta virðast þarna upphaflega hafa verið einhvers konar búðir kaupmanna eða duggara.
Búðarhóll gæti því alveg hafa tengst þeim ensku og dvöl þeirra í firðinum, en burtséð frá því á staðurinn sér nokkuð merkilega sögu.
Þaðan er víðsýnt og hefur verið gott að fylgjast með skipaferðum um fjörðinn. Talið er nokkuð víst að þar hafi eitt sinn staðið fornbýli eða hjábýli Hafnar, sem mjög líklega hefur heitið Búð, enda styðja það fjölmörg örnefni í nágrenninu.
Bessi Þorleifsson byggði timburhús á hólnum 1866 og nefndi það Búðarhól eftir hólnum sem það stóð á og hóf þar veitingarekstur. Það er skráð fyrsta tómthúsbýlið sem byggt var í landi Hafnar, en fjölgun tómthúsbýla eru í raun upphaf þéttbýlismyndunar á Siglufirði líkt og annars staðar sem það tók að myndast.
Síðar varð þetta hús fyrsti barnaskóli á Siglufirði, en hann var stofnsettur árið 1883 og fyrsti skólastjórinn var Helgi Guðmundsson, þáverandi héraðslæknir.
Leó R. Ólason tók saman.
Heimildir: Frá Hvanndölum til Úlfsdala/Sigurjón Sigtryggsson, snokur.is, Þ. Ragnar Jónasson, Wikipedia, Sjórán og siglingar/Helgi Þorláksson, Vísindavefurinn/Björn Þorsteinsson, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir/RÚV, Hjörtur Hjartarson, Skarðsárannáll, mbl.is/Axel Þorsteinsson, Skagfirðingabók,