Hið skæða afbrigði fuglaflensu, sem geisað hefur í Evrópu síðan haustið 2021, heldur áfram að breiðast út. Það hefur valdið dauða fjölda villtra fugla og miklu tjóni í alifuglarækt víða um heim. Matvælastofnun vill vekja athygli á að enn er hæsta viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu í gildi hér á landi og sérstakar reglur um sóttvarnir í gildi. Alifuglaeigendur eru minntir á að gæta ítrustu sóttvarna og tilkynna um grunsamleg veikindi eða aukningu í dauða alifugla án tafar til Matvælastofnunar. Almenningur er beðinn um að halda áfram að tilkynna um dauða og veika villta fugla til stofnunarinnar. Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin hefur vakið athygli á mögulegri aðlögun veirunnar að spendýrum og fólki og hvetur öll aðildarríki sín til að viðhalda auknu eftirliti með villtum fuglum og alifuglum og hertum sóttvörnum til að draga úr útbreiðslu.
Staða og viðbúnaður á Íslandi
Hér á landi hefur fuglaflensan greinst í fjölda villtra fugla og leikið sumar tegundir mjög grátt. Alifuglar hafa sloppið fram til þessa að undanskildum nokkrum heimilishænum á einum stað. Miðað við hversu mikið virðist vera um fuglaflensu í villtu fuglunum er álitið að smithætta fyrir alifugla sé töluverð. Góðum sóttvörnum á stóru alifuglabúunum er án efa að þakka að smitið hafi ekki borist inn á þau.
Í mars í fyrra voru fyrirskipaðar sérstakar varnaraðgerðir. Þær eru enn í gildi og öllum sem halda alifugla er skylt að fylgja þeim. Þær fela m.a. í sér eftirfarandi atriði:
- Fuglahús og umhverfi þeirra
- Fuglar skulu hafðir inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum.
- Tryggja skal góðan aðskilnað milli alifugla og villtra fugla.
- Hús og gerði skulu fuglaheld.
- Tryggja skal að ekkert í umhverfi fuglahúsanna laði að villta fugla.
- Setja skal hatta á allar lóðréttar loftræstitúður á fuglahúsum, nema þar sem um er að ræða útblástur vélrænnar loftræstingar.
- Setja skal fuglanet fyrir allar loftræstitúður, op og glugga á fuglahúsum.
- Umgengni og umhirða
- Öllum óviðkomandi skal bannaður aðgangur að fuglahúsum.
- Allir sem sinna fuglunum skulu nota hlífðarfatnað (galla og stígvél), sem eingöngu er notaður þar, og skulu þeir einnig þvo og sótthreinsa hendur fyrir og eftir umhirðu fuglanna.
- Fóður og drykkjarvatn
- Fóður og drykkjarvatn fuglanna má ekki vera aðgengilegt villtum fuglum.
- Drykkjarvatnsból skulu vel frágengin þannig að ekki berist í þau yfirborðsvatn og fugladrit.
- Flutningar
- Sýningarhald og aðrar samkomur með fugla er bannað.
- Ekki skal flytja fugla milli staða nema vitað sé að heilsufar fugla á báðum stöðum sé gott.
- Skrá skal alla flutninga á fuglum, hvenær flutningarnir fóru fram og hvert og hvaðan þeir voru fluttir. Skráin skal vera aðgengileg Matvælastofnun ef hún óskar eftir henni.
- Úrgangur
- Farga skal öllum úrgangi úr fuglahúsum þannig að ekki stafi smithætta af honum fyrir alifugla og aðra fugla í haldi.
Matvælastofnun vill jafnframt minna almenning á að tilkynna um dauða og veika villta fugla, nema ef augljóst er að þeir hafi drepist af öðrum orsökum en veikindum. Tilkynningarnar eru mjög mikilvægar þótt ekki séu alltaf tekin sýni, því þær gefa vísbendingar um hversu mikið er um sýkingar og hversu útbreiddar þær eru. Best er að tilkynna með því að setja inn ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar, skrá þar tegund og fjölda fugla, og lýsa staðsetningu þeirra sem nákvæmast, helst með hnitum. Upplýsingar um sýni sem tekin hafa verið og niðurstöður rannsókna á þeim má sjá á mælaborði MAST um niðurstöður sýna úr villtum fuglum.
Staðan í heiminum
Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin (WOAH) hefur nýlega vakið athygli á að það afbrigði fuglaflensuveirunnar sem mest ber á um þessar mundir (H1N5) geti mögulega farið að aðlagast betur spendýrum og fólki. Um þetta er jafnframt rætt í nýjustu stöðuskýrslu Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) um fuglaflensu þar sem segir m.a. að í þeim fuglaflensuveirum sem greinst hafa í húsdýrum og villtum spendýrum sjáist erfðafræðileg merki um aðlögun að þessum dýrum. Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin bendir líka á að í sumum dýrum, t.d. minkum, geti fleiri afbrigði af inflúensuveirum blandast og ný afbrigði þróast, sem mögulega geta verið hættulegri fyrir önnur dýr og fólk. WOAH hvetur því aðildarríki sín til að halda áfram auknu eftirliti með fuglaflensu, viðhafa strangar sóttvarnir á alifuglabúum, setja reglur um flutninga á móttækilegum dýrum og afurðum þeirra, vernda fólk sem er í snertingu við alifugla eða veik dýr, fylgjast með öllum móttækilegum dýrum og rannsaka óvenjulega aukningu í dauða villtra dýra, tilkynna um greiningar á fuglaflensu til stofnunarinnar og deila upplýsingum um raðgreiningar á erfðaefni inflúensuveira.
Fræðslufundur
Í síðasta mánuði hafði Matvælastofnun frumkvæði að því að halda fræðslufund um fuglaflensu. Boð á fundinn fengu sérfræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, Matvælastofnun og á öllum náttúrustofum landsins. Á fundinum héldu erindi Vilhjálmur Svansson dýralæknir og veirufræðingur á Keldum, Gunnar Hallgrímsson prófessor við HÍ og Brigitte Brugger sérgreinadýralæknir alifugla á MAST. Vilhjálmur fjallaði um fuglaflensuveiruna sjálfa og um þróun og stöðu fuglaflensu í heiminum á síðustu árum, Gunnar sagði frá mögulegum áhrifum fuglaflensu á stofnvistfræði fugla og Brigitte ræddi um vöktun á fuglaflensu hér á landi, tilgangi hennar, viðmiðum, aðstæðum, þróun og stöðu. Fundurinn var tekinn upp og er upptakan opin öllum.
Mynd: mast