Föstudaginn 28. júní komu nokkrir félagar í félagi eldri borgara á Siglufiðri saman í Skarðsdalsskógi til að grisja hann. Þau létu veðrið ekki á sig fá, söguðu og snyrtu til þrátt fyrir rigningu og norðan garra.

Greinar voru sagaðar neðan af trjám til að hleypa meiri birtu niður á skógarbotninn. Lá vel á mannskapnum, en nefndu þó að gott væri ef það fengist meira af ungu fólki til að rétta hjálparhönd við viðhald skógarins.

Skógurinn er einstaklega snyrtilegur og fallegur, greinilegt er að mikil vinna og alúð er lögð í alla vinnu til að viðhalda honum.

Góðvinir Skarðsdalsskógar taka höndum saman og grisja skóginn af miklum myndarbrag

 

Kristrún Halldórsdóttir er formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar og er hún fimmti formaðurinn frá upphafi.

Skógræktin á Siglufirð var stofnað af félögum í Rótary klúbbnum árið 1940 og verður því 80 ára á næsta ári. Skarðsdalsskógur er nyrsti skógur á Íslandi og er mikil útivistaperla, þar leynist hinn stórglæsilegi Leyningsfoss.

Síðan eru greinarnar settar á plastdúk og bornar í safnhaug

 

Árið 1999 skrifaði Hannes Baldvinsson grein í Morgunblaðið þar sem hann segir meðal annars um Skarðsdalsskóg:

“Saga skógræktar í Siglufirði er ekki löng en hún hefur þá sérstöðu að vera að mestu leyti verk eins manns. Skógræktarfélag Siglufjarðar var stofnað fyrir tæpum 60 árum af nokkrum félögum úr Rotary-klúbbnum. Margir, og þeirra á meðal kunnáttumenn á sviði skógræktar, töldu fásinnu að ætla sér að rækta skóg norður við Dumbshaf, í firði sem er opinn fyrir stórviðrum í hafátt og óvíða að finna skjól fyrir særoki og snjóum. Sönnunargögnin blöstu við, kræklóttar og óræktarlegar hríslur í námunda við íbúðarhús og tilraunir átthagafélaga sem mistókust hver af annarri voru talandi dæmi til að draga úr mönnum kjarkinn og staðfesta hrakspárnar. Það þurfti því töluverðan kjark og mikla bjartsýni til að takast á af alvöru við að rækta skóg á þessum stað.

En brautryðjandann, Jóhann Þorvaldsson, skorti hvorki kjark né bjartsýni. Hann hófst handa við að rækta skóg í Siglufirði í landi Skarðdalskots, sem bæjaryfirvöld fengu Skógræktarfélaginu til umráða og fékk til liðs við sig fleiri bjartsýnismenn ásamt skólaæsku bæjarins og þeir munu ekki margir Siglfirðingarnir, sem komnir eru um og yfir miðjan aldur, sem ekki hafa tekið til hendinni í Skógræktinni, undir leiðsögn og stjórn Jóhanns Þorvaldssonar. Þegar starfsemin kallaði á aukið landrými var bætt við afgirtu svæði úr landi Skarðdals og enn síðar spildu úr landi Leynings. Árangurinn er sannarlega kominn í ljós og er Skógræktin í Siglufirði nú stolt flestra bæjarbúa. Þar er að líta afraksturinn af frístundastarfi eins manns, sem ekki lét úrtölur eða erfiðleika ráða ferðinni. Hann valdi ekki auðveldustu leiðina en varð fyrirmynd þeirra sem hafa hugsjón og kjark til að berjast fyrir henni.”

Svo verður auðvitað að fá sér í nefið

 

Kristrún Halldórsdóttir formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar

 

Síðan var öllum boðið í skógarkofann, í kaffi og ástarpunga

 

Spekingar spjalla

 

Duglegir félagar sem láta sér annt um Skarðsdalsskóg, útivistaperlu Siglufjarðar