Það var síðla dags miðvikudaginn 24. september þegar Þorsteini Þorvaldssyni barst tölvupóstur frá höfuðstöðvum VÍS í Reykjavík. Þar var honum tjáð að það ætti að loka umboðsskrifstofunni eigi síðar en 1. október eða 6 dögum síðar, Þorsteinn skellti strax í lás.

Þar með lauk 40 ára sögu VÍS í Ólafsfirði og síðar Fjallabyggð og yfir 100 ára sögu fjölskyldu Þorsteins í þjónustu tryggingafyrirtækja. Afi Þorsteins, Þorsteinn Þorsteinsson og faðir hans Þorvaldur Þorsteinsson störfuðu áður hjá Brunabótafélaginu, forvera VÍS.

Ásamt því að starfa hjá VÍS  hefur Þorsteinn starfað í Kjörbúðinni í Ólafsfirði. Fyrir 1 1/2 mánuði síðan sagði hann starfi sínu lausu hjá Kjörbúðinni til að snúa sér alfarið að VÍS og er því án atvinnu í dag,  því er þessi uppsögn mikið áfall.

VÍS lokaði um 13 skrifstofum á landsbyggðinni og sameinaði nokkrar. Í dag eru skrifstofur á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilstöðum, Selfoss og Reykjavík. Það var eins og einn íbúi Fjallabyggðar orðaði það ” Þeir slátruðu landsbyggðinni eins og hún lagði sig í þjónustustigi og persónulegum samskiptum”.

VÍS bendir íbúum Fjallabyggðar á að hafa samskipti við höfuðstöðvarnar í Reykjavík í framtíðinni.

Hávær mótmæli hafa borist víða að vegna lokana hjá VÍS á landsbyggðinni en lokun skrifstofunnar í Fjallabyggð hefur farið hljótt.

Sjá frétt: Mótmæla lokun VÍS á Hvammstanga

 

Hjónin Gunnlaug Kristjánsdóttir og Þorsteinn Þorvaldsson Þakka viðskiptavinum sínum fyrir ánægjulegt og gott samstarf í rúm 40 ár sem þau hafa verið með VÍS umboðið.

 

Hjónin Gunnlaug Kristjánsdóttir og Þorsteinn Þorvaldsson hafa starfað í rúmlega 40 ár hjá VÍS

 

Viðskiptavinum er bent á að fara til Reykjavíkur

 

Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir og í einkaeign