Nýlega sagði Trölli frá nýbyggingum í Djúpavík á Ströndum. Skemmtilegt sumarsamfélag hefur myndast þar og hefur orðið “sumarvinir” gjarnan skotið upp kollinum í því samhengi. Þó eru húseigendur farnir að teygja veru sína út yfir þennan hefðbundna sumartíma.
Innst uppi á holtinu í Djúpavík, næst svokallaðri Skræpu sem er klettur úr lausu flögubergi, stendur myndarlegt steinsteypt hús ýmist kallað Alexandershús eða Sveinsínuhús, seinna Skúlahús og nú síðast Kjós, Vilborg Traustadóttir bankar þar uppá.
Ari Skúlason og konan hans Jana Pind ásamt dóttur þeirra Eddu og hennar manni taka vel á móti henni.
Ég reiddi heyið hingað á klökkum
Þegar ég var lítill bjuggu afi minn og amma, Alexander Árnason og Sveinsína Ágústsdóttir hér. Við komum oft hingað og þegar ég var 12 ára, sem var síðasta árið sem þau bjuggu hérna, þá sló pabbi (Skúli Alexandersson) túnið í Kjós og ég reiddi heyið hingað á klökkum á hesti segir Ari. Fyrir 12 ára strák var þetta algjörlega stórkostlegt.
Svo kom vegurinn og þau fluttu burtu 1969. Við mættum með flutningabíl frá Hellissandi og þau fluttu suður. Afi dó innan árs og þegar ég fór í menntaskóla þá bjó ég hjá ömmu alveg þangað til ég flutti inn á hana segir hann kíminn og vísar til eiginkonunnar Jönu Pind.
Það var mjög gestkvæmt hjá ömmu
Það að búa hjá ömmu var dálítið stór gluggi hingað norður. Það var mjög gestkvæmt hjá ömmu og ég lærði að það var mjög skemmtilegt að sitja og hlusta. Það var alltaf verið að tala um gamla tímann hérna. Tala um Strandirnar o.s.frv. Svo um 1980 fórum við að koma hingað og þá er húsið búið að vera lokað í 10 ár.
Um 1986 byrjuðum við að vera hérna á sumrin. Það gekk ekkert sérstaklega vel til að byrja með vegna þess að húsið var ekki hitað yfir veturinn, það voru hlerar fyrir gluggunum. Við eyddum alltaf löngum tíma í að skafa veggina og mála þá upp á nýtt. En þegar ég fór að koma hingað aftur áttaði ég mig á því að ég þekkti nánast alla í hreppnum.
Bara með því að hafa hlustað á öll samtölin hjá ömmu vissi ég býsna mikið. Þekkti þessa kalla af lýsingunum. Síðan var það þannig að mín fjölskylda byrjaði aðallega með þetta hérna. Pabbi og systur mínar og ég eftir að við fluttum heim frá útlöndum. Okkur fannst mikill sjarmi að þá var lítið símasamband og ekkert internet en með tímanum hefur það komið og óneitanlega er gott í dag að hafa slatta af ipödum fyrir börnin þegar þannig viðrar.
Það eru þrír leggir sem standa að þessu húsi
Pabbi átti þrjú systkini og ákveðið var að stækka hringinn. Það eru þrír leggir sem standa að þessu húsi. Pabbi keyrði mjög fast að þetta yrði fastbundið sem hlutafélag. Það eru tíu hlutir í húsinu sem skipast á milli okkar. Það var töluverð vinna að koma þessu í það horf sem það er í dag.
Árið 2006 tókum við risaskref og klæddum húsið að utan. Þetta er algerlega stórkostlegt svæði, heldur Ari áfram. Hérna áður fyrr þegar afi og svo pabbi voru hérna veiddum við silung í net. Seinna fengum við okkur bát sem við róum á til gamans. Fyrir okkur, börnin og krakkana þeirra er mikill missir að missa Djúpavík úr sumrinu.
Kúrum bara inni, njótum og slökum á
Þau eru sammála um það að Covid tíminn og minni ferðalög til útlanda hafi aukið viðveru í húsinu. Nú erum við hér allan okkar tíma, líka í roki og rigningu. Kúrum bara inni, njótum og slökum á segir Jana sæl á svip. Mín upplifun segir Ari, sem er hagfræðingur hjá Landsbankanum, er sú að þegar ég kem hingað og heyri í fossinum þá byrja ég að slakna.
“Þegar ég heyri í fossinum þá byrja ég að slaka á” segir Ari Ari, Jana, Edda og hennar maður Erlendur Davíðsson við húsið “Kjós” Ari og Jana með dætrunum Dagnýju Ósk, Auði Önnu og Eddu Sif en fjölskyldan náði að vera öll saman í húsinu um tíma á dögunum Ari með tvo afa stráka í Djúpavík, Egil Ara og Friðrik Heiðar Rétt áður var norðaustan fýla en á örskotsstund stytti upp og Ari tók þessa skemmtilegu mynd sem sýnir glöggt að allt veðurvesen er fyrirgefið fljótt og örugglega í Djúpavík
Þetta er nefnilega svo skemmtilega afskekkt og öðruvísi
Nálgunin okkar er svo líka sú að þegar Eva og Ási fluttu hingað 1983-4 þá var Eva leikskólastjóri á leikskólanum sem Edda var á. Við fengum fréttir af áformum þeirra um hótelrekstur hér í Djúpavík gegnum föður minn. Hann var þannig að ef hann vissi af einhverju þá var hann með í öllu og skipti sér af því. Þannig að þá fórum við fljótlega upp úr því að koma hingað á hverju sumri þannig að það er líka gaman að fylgjast með því hve þeim hefur gengið vel og sjá hvernig hótelið hefur dafnað.
Edda er framkvæmdastjóri hjá Carb Fix og stýrði alþjóðlegum nefndarfundi héðan úr húsinu rétt áður en fréttaritara Trölla bar að garði. Carb Fix vann á dögunum alþjóðleg verðlaun sem nefnast Keeling Curve .
Sjá frétt: Carbfix hlýtur alþjóðleg verðlaun
Það er mikið öryggi að Ási og Eva og þeirra fólk sé hér á staðnum yfir veturinn og fylgist með fyrir okkur. Þetta er nefnilega svo skemmtilega afskekkt og öðruvísi segir Ari að lokum.