Í dag, föstudaginn 1. júní tekur nýr stjóri við útibúi Arion banka í Fjallabyggð.
Hún heitir Elsa Guðrún Jónsdóttir. Elsa ólst upp á Ólafsfirði, kemur frá mikilli skíðafjölskyldu og hefur lagt stund á skíðamennsku frá 5 ára aldri, verið sigursæl og gengið vel á því sviði. Elsa Guðrún fór utan, í skíðamenntaskóla og æfði skíði á fullu til ársins 2007. Tók þá pásu vegna barneigna en hélt svo áfram næstu 2 árin á Íslandi. Þegar annað barnið kom ákvað Elsa Guðrún að fara í háskólanám, nam viðskiptalögfræði og lögfræði við háskólann á Bifröst. Að loknu námi flutti hún aftur heim til Ólafsfjarðar og fékk fljótlega vinnu hjá Arionbanka, var boðin ný staða, fjármálaráðgjafi einstaklinga. Elsa Guðrún byrjaði svo aftur á skíðunum sem tóku stóran sess í hennar lífi, fór á heimsmeistaramótið í Finnlandi 2017 og svo á Ólympíuleikana í Suður Kóreu á þessu ári. Elsa Guðrún er fyrst kvenna til að komast á báða þessa keppnisviðburði.
Eiginmaður Elsu Guðrúnar er Kristófer Beck Elisson og eiga þau 2 börn saman sem heita Svava Rós 10 ára og Elis Beck 8 ára.
Lífið hefur leikið við Elsu Guðrúnu að eigin sögn, allt gengið vel hjá henni og hennar fjölskyldu. Hún telur sig virkilega heppna, en segir að auðvitað hafi þetta kostað mikla vinnu, bæði skíðin og námið, en gott að eiga markmið til að stefna að og reyna að láta drauma sína rætast.
Það að fá stöðu útibússtjóra var sannarlega eitt af langtíma markmiðunum, en að fá hana núna kom virkilega á óvart, – skemmtilega á óvart. Elsa tekur við stöðunni með miklum spenningi og gleði, en vegna þess hve skyndilega það gerðist segist hún þurfa smá tíma til að komast vel inn í alla hluti. Hún er bjartsýn á að þetta muni allt ganga vel, “enda ekki annað hægt í þessum flotta hópi sem við erum með hér í útibúinu í Fjallabyggð” segir Elsa Guðrún.
Helstu áhugamál: Samverustundir með fjölskyldunni, skíðaganga, fjallgöngur í miklu uppáhaldi, hlaup og bara öll hreyfing. Mikil útivistarmanneskja, finnst rosa gott að eiga kósýkvöld yfir góðum þætti eða kvikmynd, best eru þó fjölskyldu-kósýkvöldin.
Frétt: Gunnar Smári Helgason
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir