Þann 18.október síðastliðinn voru 20 ár frá stofnun Skíðafélags Ólafsfjarðar.

Sá er þetta ritar er því miður ekki með þessa 20 ára sögu alveg á hreinu, en óhætt er að segja að félagið hefur alla tíð átt kjarna af fólki sem hefur unnið ómetanlegt starf í sjálfboðavinnu. Félagið hefur dafnað vel og mun vonandi gera það áfram um ókomna tíð.

Formenn félagsins frá stofnun eru eftirfarandi:
K.Haraldur Gunnlaugsson 2001-2002
Sigríður Gunnarsdóttir 2002-2005
Björn Þór Ólafsson 2005-2006
Ólafur Óskarsson 2006-2008
Sigurpáll Gunnarsson 2008-2016
Kristján Hauksson 2016-

Stjórnarmönnum og velunnurum verður seint þakkað allt það starf sem það hefur lagt af hendi fyrir félagið og samfélagið í heild sinni. Í gegnum árin hefur verið rekið metnaðarfullt barna og unglingastarf auk þess sem SÓ hefur átt afreksfólk í bæði alpagreinum og skíðagöngu. 
Svona til að hlaupa rétt yfir það helsta nú undanfarin ár þá hefur aðaláhersla verið lögð á barnastarf. Þessi vinna er í dag búin að skila okkur unglingum sem keppa á landsvísu, en fyrir nokkrum árum átti SÓ t.d. ekki keppendur á Unglingameistaramóti Íslands. Auðvitað er það ekki staða sem við kærum okkur um og er sem betur fer orðin breytt í dag. Afreksfólkinu okkar hefur fækkað en vonandi höldum við unglingunum áfram og náum að styðja þau til afreka í framtíðinni. Snjóbretta æfingar voru í fyrsta skipti skipulagðar veturinn 2021 og vonumst við til að auka þá starfsemi í framtíðinni. Mótahald hefur ávalt verið stór þáttur félagsins, bikarmót í alpagreinum í samstarfi við Skíðafélag Dalvíkur, bikarmót í skíðagöngu og Fjarðargangan eru fastir póstar árlega á mótaskrá félagsins. Skíðamót Íslands og Unglingameistaramót Íslands hefur félagið haldið með Ski Dalvík með óreglulegu millibili og hefur þetta mótahald gengið mjög vel í gegnum tíðina. 

Á komandi vetri eru tveir stórir mótapóstar á dagskrá, Fjarðargangan í febrúar þar sem við munum reyna að fá til okkar um 500 þátttakendur og svo Skíðamót Íslands í mars sem verður haldið með Skíðafélagi Dalvíkinga í bæjarkjörnunum. Við vonumst auðvitað til að geta haldið nú loks okkar dagskrá allan veturinn með æfingum,  félagsmótum og minni viðburðum. Í samstarfi við Sigló Hótel og ferðaskrifstofuna Mundo hefur SÓ tekið á móti hundruðum gesta á skíðagöngunámskeið undanfarin ár. Engin breyting er í vetur og verður að teljast líklegt að hingað komi um 1.000 manns á slík námskeið.

Sjálfboðastarfið verður seint þakkað og er kannski bara yfirleitt ekkert þakkað, en ég vil hér þakka ykkur öllum sem hafið í gegnum tíðina aðstoðað okkur, hvort sem það er við mótahald, æfingar, girðingarvinnu, jarðvinnu eða hvað sem það er TAKK! Einnig eigum við okkar frábæru styrktaraðila sem hafa stutt félagið í gegnum árin sem er ómetanlegt. Gunnar Sigvaldason og Bára Finnsdóttir hafa stutt okkur með Bárubrautina í mörg ár en þau hjónin studdu okkur einnig gríðarlega við kaupin á snjótroðaranum og lýsingu í Bárubrautina. Svavar B Magnússon styrkti okkur frábærlega við kaupin á troðaranum auk fjölmargra einstaklinga sem gerðu svo sannarlega margt “smátt” eitt risa stórt. Fyrirtækin “okkar” eru svo Árni Helgason ehf, Rammi hf, Sigló Hótel, Smári ehf, Arionbanki, Ísfell ehf, Skiltagerð Norðurlands, JVB Pípulagnir og Rótarý klúbbur Ólafsfjarðar hafa öll styrkt okkur myndarlega undanfarin ár. 

Þetta er nú ekki merkileg saga sem formaður ritar hér, en upp úr stendur þakklæti til ykkar allra og kannski mest til ykkar sjálfboðaliðanna sem gera okkur kleift að halda starfinu gangandi eins myndarlega og mér finnst við vera að gera. 

Til hamingju með afmæli SÓ

Kristján Hauksson
Formaður Skíðafélags Ólafsfjarðar

Forsíðumynd: skjáskot úr myndbandi Magnúsar Ólafssonar