Skíðagönguhópur Skíðafélags Siglufjarðar Skíðaborgar og Skíðafélags Ólafsfjarðar er þessa dagana í sameiginlegri æfingaferð í Nordseter í Noregi. Ferðin hófst 2. janúar og stendur yfir til 11. janúar 2026, þar sem hópurinn nýtur æfingaaðstöðu sem vart verða betri á þessum árstíma.

Tengt efni

Skíðagönguhópar Siglufjarðar og Ólafsfjarðar í sameiginlegri æfingaferð til Noregs – Myndir

Í færslu Skíðafélags Siglufjarðar á Facebook er ferðinni lýst með léttum og skemmtilegum hætti og þar segir að aðstæður hópsins minni helst á ævintýrabók. Skíðafólkið hefur aðgang að frábærum göngusporum og dagskráin er bæði fjölbreytt og metnaðarfull, þar sem æfingar og samvera fara hönd í hönd.

Meðal þess sem gert hefur verið er keppni í boðgöngu þar sem foreldrar og iðkendur kepptu saman og einnig gerði hópurinn sér lítið fyrir og skíðaði milli bæja til að fara á veitingastað, sem undirstrikar hversu fjölskylduvænt og skemmtilegt skíðagangan getur verið. Í færslunni er einmitt bent á að skíði sé eitt besta fjölskyldusport sem völ er á.

Að lokum hvetur Skíðafélag Siglufjarðar foreldra barna sem hafa áhuga á að æfa skíði til að hafa samband og senda póst á netfangið sigloskiteam@gmail.com.

Myndirnar með færslunni tók Björk Óladóttir.