Sköpun og verk er sýning sem Ásta Sigurfinnsdóttir kom á þegar hún hóf störf hjá Menningarhúsinu Tjarnarborg árið 2015.

Á morgun, laugardaginn 26. nóvember, sem er fyrsti vetrardagur, verður sýningin Sköpun og verk því í fimmta sinn.

Ásta lýsir þessu sjálf:

Tilgangur Sköpun og verk er að skyggnast inn í hvað íbúar Fjallabyggðar eru að gera í handverki, sköpun og félagsstörfum. Þegar ég fór að spyrjast fyrir og hafa augun opin fyrir hvað íbúar eru að gera kom mér satt best að segja á óvart hvað mikið er gert í félagsstarfi og hvað margt fólk er að hanna og skapa frábæra og fallega hluti.

Ég hef á þessum 5 árum heimsótt marga og fengið að njóta þess að líta augum fagurleg verk, en hef ekki enn náð að heimsækja og vera í sambandi við nema brot af skapandi einstaklingum í Fjallabyggð.

Sköpun og verk er vel sótt og hefur fengið mikla athygli. Þátttakendur eru 3 til 4 hverju sinni og er leitast við að þar af sé eitt félag sem kynnir starf sitt af þátttakendum.

Sköpun og verk 2019 verður fyrsta vetrardag 26. október frá kl. 13:00 til 17:00.
Þátttakendur í ár eru:

Edda Björk Jónsdóttir

Edda Björk Jónsdóttir.
Edda er ættuð úr Fljótunum og ólst upp í Kópavogi, hún flutti til Siglufjarðar sumarið 2015 og vinnur á Síldarminjasafninu. Eddu Björk er margt til lista lagt og í vöggugjöf fékk hún dásamlega fallega söngrödd og leggur stund á tónsmíðar í Listaháskólanum. Auk þess að vera með meðfædda tónlistarhæfileika þá leikur allt í höndum hennar og úr verður listilega fallegt handverk hvort sem er heklað, prjónað eða ofin ull.

Ólafur Stefánsson

Ólafur Stefánsson.
Ólafur flutti frá Reykjavík til Siglufjarðar 2015 og hóf störf sem fjármálastjóri hjá Primex. Ólafur lærði dúkristu í skóla í Belgíu og fikraði sig síðan áfram með leðursaum sem honum finnst heillandi viðfangsefni. Það er alltaf spennandi að sjá ný viðfangsefni hjá íbúum Fjallabyggðar og ýmislegt sem kemur á óvart og vekur forvitni hvað íbúar eru að fást við. Því er þátttaka Ólafs kær viðbót í sýninguna í ár.

Kiwanisklúbburinn Skjöldur í Fjallabyggð

Kiwanisklúbburinn Skjöldur í Fjallabyggð. 
Kiwanisklúbburinn í Fjallabyggð hefur sannarlega lagt sitt af mörkum til að bæta mannlíf og samfélag í Fjallabyggð ásamt því að vinna að góðum málum á heims- og landsvísu innan Kiwanishreyfingarinnar. Í Fjallabyggð, okkar nær samfélagi, má nefna t.d. val á íþróttamanni ársins, árlegar grillveislur í skógræktinni fyrir eldri borgara, þrettándabrenna, komið fyrir hjartastuðtækjum um bæinn, gefið börnum í fyrsta bekk reiðhjólahjálma í áraraðir ásamt mörgu, mörgu öðru til gagns, fróðleiks og gamans.

Kamilla Ragnarsdóttir

Kamilla Ragnarsdóttir.
Kamilla útbýr sápur og baðsölt sem njóta mikilla vinsælda, skreytir kerti og er afskaplega fim og lipur með prjónana. Kamilla er ein af stofnendum Gallerí Uglu í Ólafsfirði og er mikil áhugamanneskja um handverk og listir.

 

Myndir inni í frétt: Menningarhúsið Tjarnarborg