Aldrei hafa aflaheimildir og afli strandveiðibáta verið meiri en það sem er af sumri.
Afli í þorski nálgast útgefið aflahámark og í síðustu viku vakti Fiskistofa athygli á að lítið væri eftir af heimildum í þorski, 557 tonn. Fiskistofa skal stöðva strandveiðar þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla verði náð.
Nú hefur sveitarfélagið Skagaströnd skorað á sjávarútvegsráðherra að grípa til aðgerða til þess að tryggja öllum strandveiðibátum, tólf leyfilega veiðidaga í ágúst.
Í bókun sveitafélags Skagastrandar segir að fyrirséð sé að heildarafli sem ætlaður hafi verið til strandveiða muni klárast á næstu dögum með þeim afleiðingum að veiðar fjölda báta um allt land stöðvist.
Slíkt hafi neikvæð áhrif á tekjur fólks, fyrirtækja og sveitarfélaga vítt og breytt um landið. Á sama tíma séu stjórnvöld að keppast við, með beinum og óbeinum aðgerðum, að halda hjólum atvinnulífsins gangandi á tímum heimsfaraldurs COVID-19.