Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Hilda Jana Gísladóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE) skrifuðu undir samning í Mývatnssveit um greiningu tækifæra og áhrif friðlýstra svæða á nærsvæði þeirra.

Verkefnið er ein aðgerða á Byggðaáætlun 2018-2024 en er einnig hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar um sérstakt átak í friðlýsingum og að skoðaðir verði möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum en nú er. Verkefnið byggir á greiningu á hagrænum áhrifum friðlýstra svæða. Það er einnig unnið með hliðsjón af greiningum á áhrifum þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða á þróun byggða sem Hagfræðistofnun Háskólans vann fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. SSNE fær 7 milljónir til verkefnisins.

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra leitaði eftir tillögum sveitarfélaga í landshlutanum að svæðum og lagði stjórn SSNE til að unnið yrði með Mývatn og Laxá. Tilgangur verkefnisins er að greina tækifæri og mögulegan ávinning í héraði af þjónustu sem byggist á nýtingu og umsjón friðlýstra svæða, s.s. náttúrutengdri ferðaþjónustu. Þá verða hugmyndir mótaðar í víðtæku samráði við heimafólk, fyrirtæki og stjórnvöld um þróun friðlýstra svæða, auk þess að skoða hvaða áskoranir og tækifæri þau geta skapað byggðarlögum.

Sjá einnig á stjornarradid.is