Sólstöðutónleikar með þeim Balda/Asmundsson/Kappyne trio verður á Kaffi Klöru í kvöld og hefjast kl. 20:30 – 23:00.

Balda/Asmundsson/Kappyne trio, er hljómsveit þriggja vina sem kynntust í tónlistarnámi í Amsterdam. Bandið blandar saman hinum ýmsu tónlistarstefnum í lögum sínum en það mætti helst lýsa lögunum sem kammer jazz.

Lögin eru samin af gítarleikaranum Mikael Mána en tónsmíðarnar eru notaðar sem efniviður fyrir spuna og samleik. Tónlistin er melódísk, aðgengileg og litrík og líkleg til að vekja áhuga tónlistarunnenda.

Svissnenski bassaleikarinn Pierre Balda stundar nú meistaranám við Conservatorium van Amsterdam. Hann hefur spilað með mörgum virtum tónlistarmönnum eins og Madelaine Peyroux, Ohad Talmor, Joris Roelofs, Simon Rigter og Maurice Magoni.

Hollenski píanóleikarinn Floris Kappyne vann til annarra verðlauna í Prinses Christina Jazz Concours 2010 og fyrstu verðlauna tveimur árum síðar. Floris vann einnig verðlaun sem besti sólóisti í jazz keppninni í Mechlen. Hann hefur spilað víða með tríóinu sínu, Floris Kappyne Trio, t.a.m. á North Sea Jazz Festival í Frakklandi, í Sviss og Tansaníu.

Gítarleikarinn Mikael Máni gaf út sína fyrstu sólóplötu, Bobby, í maí 2019 með stórskotaliðinu Skúla Sverrissyni á bassa og Magnúsi Tryggvasyni á trommum. Áður hefur hann gefið út plötur í samstarfsverkefnum t.a.m. Beint heim með dúettnum Marínu & Mikael sem var tilnefnd sem plata ársins 2017 í jazz-og blús flokki á íslensku tónlistarverðlaununum.