Mynd/Síldarminjasafn Íslands

Í samkomubanni hefur starfsemi Síldarminjasafns Íslands breyst verulega, en ekki hefur skort verkefni og hefur starfsfólkið sinnt faglegum störfum af krafti. En á sama tíma hefur nýjum hugmyndum sem hafa kviknað í þessum krefjandi aðstæðum verið hrint í framkvæmd.

Ein hugmyndin var að gleðja kæra vini safnsins á Skálarhlíð, dvalarheimili aldraðra, með einhverjum hætti.

Að öllu jöfnu heimsækir starfsfólk safnsins Skálarhlíð vikulega og þá eru skoðaðar ljósmyndir úr safnkosti safnsins með eldri borgurum sem aðstoða við myndgreiningar.

Myndasýningarnar eru safninu afar dýrmætar, en með aðstoð eldri borgara hefur tekist að greina að jafnaði um 3.500 áður óþekktar ljósmyndir á ári hverju. Nú eru liðnar sex vikur frá síðustu myndasýningu og enn ekki ljóst hvenær við getum tekið upp þráðinn að nýju.

Starfsfólk safnsins ákvað því að taka upp tónlistarmyndbönd til að gera heimilisfólkinu dagamun.

Í starfsliði safnsins leynast söngvarar, tónlistarmenn og ljósmyndari svo það voru hæg heimatökin. Edda Björk Jónsdóttir syngur og leikur á þverflautu, Hörður Ingi Kristjánsson leikur á píanó og Inga Þórunn Waage sá um myndatöku.

Hægt er að hlusta á tónlistamyndbandið: HÉR