Dagana 25. nóvember til 10. desember munu Alþjóðasamtök Soroptimista, ásamt fjölda annarra félagasamtaka, standa fyrir sextán daga átaki á heimsvísu sem nefnist „Orange the world“. Markmiðið er að vekja athygli á ofbeldi gegn konum undir heitinu „Roðagyllum heiminn“. Þessi litur táknar bjartari framtíð án ofbeldis.
Bæði konur og karlar verða fyrir kynbundnu ofbeldi en konur og stúlkur eru samt yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem verða fyrir slíku ofbeldi.
Í ár beinist átakið að áhrifum Covid-19 á kynbundið ofbeldi. Í kjölfar heimsfaraldursins hefur orðið mikil aukning á ofbeldi gegn konum og stúlkum hér á landi og erlendis og þá sérstaklega heimilisofbeldi.
Aðgerðir til að ná tökum á faraldrinum valda félagslegri einangrun og spenna og álag eykst út af áhyggjum af heilsu, öryggi og fjárhagslegri afkomu.
Stöndum saman um að rjúfa þagnarmúrinn um kynbundið ofbeldi og stuðlum að vitundarvakningum að við sem samfélag eigum að hafna því.
Í tilefni þessa átaks mun Soroptimistaklúbbur Tröllaskaga færa Bjarmahlíð á Akureyri, sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, 100.000 kr. að gjöf.
Mynd/Ida Semey