Einkar erfiðum vetri lauk á vegum landsins strax eftir páska. Síðan þá hefur verið merkilega laust við nokkur hret sem orð er á gerandi. Vissulega frysti stundum, en í þurru veðri og gerði skammvinna föl á fjallvegum, en varla kuldakast að vori eins og slík eru oftast skilgreind.

Við ætlum þó ekki alveg að sleppa þetta árið þó komið sé fram í júní segir á vefsíðunni Blika.is.

Í dag nálgast kaldara loft úr norðri og aðfaranótt föstudags er spáð éljum norðaustanlands og hvítnar á vegum með hálku alveg niður undir 100 m hæð og jafnvel niður undir sjávarmál.

Spákortið sem fylgir sýnir þykktina og hita í 850hPa fletinum á föstudagsmorgun. 5240m gefur til kynna frost og -10°C er spáð í 1.300 m hæð norðaustanlands.

Enn kaldara verður aðfaranótt laugardagsins eftir að léttir til. Þá frystir allvíða frá Skagafirði og austur á land. Blika spáir þannig 3 stiga frosti á Akureyri kl. 3 laugardagnóttina og Veðurstofan er á svipuðu róli í sinni spá.

Sæmilegasta kuldahret ef spáin gengur eftir.

Mynd: Blika.is