Þó að spánarsniglum hafi ekki fjölgað sem neinu nemur í sumar þá hafa þeir dafnað vel og fitnað eins og púkinn á fjósbitanum í vætutíð sumarsins,“ skrifaði Erling Ólafsson, skordýrafr
æðingur á Facebook-síðu sína, Heimur smádýranna, í vikunni.
Erling segir að aldeilis hafi viðrað vel á snigla sunnanlands í sumar og því hafi verið búist við að spánarsniglar létu á sér kræla sem aldrei fyrr. „Ekki hefur sú þó orðið raunin,“ skrifar Erling.
„Sennilega hafa flestir fundist í Hveragerði. Þaðan barst mynd af einum sem var sennilega sá alstærsti sem fundist hefur hér á landi. Nokkrir hafa fundist á Akranesi. Einn var sendur mér frá Siglufirði.
Eitthvað hefur spánarsnigla orðið vart í Reykjavík en fáar staðfestingar borist mér. Seint í júlí fékk ég þó í hendur einn sem fannst í Seljahverfi í Reykjavík og var hann einn sá stærsti sem ég hef handleikið.“
Á pödduvef Náttúrufræðistofnunar segir að spánarsniglar verði með stærstu sniglum, allt að 15 sentimetra langir, og séu mikil átvögl sem éti um hálfa þyngd sína á dag. Á matseðlinum sé nánast allt lífrænt sem á vegi snigilsins verði.
Vandræðagripur
„Spánarsnigill á að líkindum eftir að reynast eitt mesta meindýr sem við höfum borið með okkur til landsins. Í Færeyjum er hann þegar orðinn vandræðagripur. Það sem gerir hann að slíkum vágesti er frjósemi hans, stærð og græðgi,“ segir á pödduvefnum.
Þar segir ennfremur að mikilvægt sé að sporna gegn landnámi spánarsnigils eins og frekast er unnt og skuli því tortíma þeim sniglum sem ekki gefist kostur á að skila til Náttúrufræðistofnunar.
Frétt: Heimur smádýranna