Vegna orða Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra um “draugabæinn Ólafsfjörð” og Ingu Sæland félagsmálaráðherra um “dauða bæinn Ólafsfjörð” í nýlegum sjónvarpsþáttum langar mig að segja frá lífinu hér eins og það kemur mér fyrir sjónir eftir að hafa búið hér í fjögur ár.
Hér er vissulega mikið í gangi og margt um að vera. Nú er t.d. verið að opna hér lúxushótel og hér er önnur fjölbreytt gistiþjónusta ásamt kaffihúsi og veitingahúsum. Öflugar vélsmiðjur, tækjaverktakar og mikill hópur góðra iðnaðarmanna sem hafa nóg að gera. Hér eru framleiddar fiskvinnsluvélar, harðfiskur og reyktur silungur og lax,
hér eru skiltagerð, styrjueldi, netavinnsla. Ýmiss þjónustufyrirtæki starfa hér; bílaverkstæði, bílaþvottur, garðaþjónusta, hársnyrtistofa, heilsunudd, bókhaldsþjónusta, þyrluþjónusta, sæþotuleiga, fjórhjólaleiga, heilsurækt, hundahótel, lítil verslun sem er opin allan sólarhringinn og svo mætti lengi telja. Eðli málsins skv. eru sum fyrirtækin smá, en þjónustan er til staðar. Hér hafa verið kynntar hugmyndir um laxeldi og verið er að gera tilraunir með þaravinnslu.
Á Sólbergi ÓF-1 er fjöldi Ólafsfirðinga. Sólbergið er 3ja eða 4ja stærsta vinnsla á landinu, þar hefur verið unnið úr 12-14 þúsund tonnum árlega frá því að skipið kom á árinu 2017. Á skipinu eru veiddar aflaheimildir sem áður voru veiddar á ca. 30 skipum og bátum. Einvala mannskapur er á skipinu enda næðist þessi árangur
ekki án þess. Þetta er skýrt dæmi um breytingar sem hafa orðið í atvinnulífinu hér á landi síðustu áratugina. Skipið landar á Siglufirði (vesturhluta Fjallabyggðar) enda er hafnaraðstaða þar ein sú besta á Norðurlandi og frystiklefar Ísfélagsins á bryggjunni. Iðnaðarmenn úr báðum hlutum Fjallabyggðar þjónusta skipið þegar það er í höfn.
Í bænum er öflugt menningarlíf; mjög kraftmikið leikfélag (Leikfélag Fjallabyggðar), ýmsir góðir listamenn og nú er búið að opna menningarmiðstöð í Brimsölum. Hér er framhaldsskóli, sem hefur rutt brautina í fjarkennslu, og nú eru þar 500 nemendur, hér er góður leikskóli og grunnskóli. Svo ekki sé nú talað um frábæru sundlaugina og marga aðra góða íþróttaaðstöðu, þó margt þurfi að bæta eins og ávallt. Hér er einnig góð öldrunarþjónusta og ágæt heilbrigðisþjónusta. Íþróttalífið er mjög öflugt og foreldrar margir virkir í starfi barna sinna. Stór vetraríþróttamót eins og Fjarðarganga og vélsleðamót eru haldin auk Sápuboltans, Fjarðarhlaupsins og
Fjarðarhjólsins
Ég geri mér hins vegar vel grein fyrir því að margir sakna þess sem áður var, en allt atvinnulíf landsmanna hefur tekið stórstígum breytingum síðustu árin og áratugina; pósthúsum og bankaútibúum lokað, verslun færist á meira á netið (dæmi um það er sendingaþjónusta Krónunnar), landflutningar hingað fara í gegnum Akureyri og strandflutningar hafa lagst af, fiskiskipum og vinnslum fækkað og svo mætti lengi telja. Á móti kemur vöxtur í t.d.
ferðaþjónustu og annarri þjónustustarfssemi. Hér eru nú 765 íbúar og mér skilst að það vanti fólk til starfa víða í bænum.
Þó að ég hafi þekkt vel til á Ólafsfirði þegar ég flutti hingað árið 2021 get ég sagt að fjölskrúðugt mann- og atvinnulíf kom mér þægilega á óvart. Hér er gott að búa og mér finnst ekki boðlegt hvernig Daði Már og Inga Sæland hafa talað þennan góða bæ niður í sjónvarpinu.
Björn Valdimarsson
Mynd/María Petra Björnsdóttir