Undanfarið hefur starfsfólk HSN á Akureyri sinnt landamæraskimun á Akureyrarflugvelli vegna komu minni einkaflugvéla að utan. Starfsfólk hefur að auki sinnt seinni landamæraskimun fyrir Norðurland frá heilsugæslustöðinni, en fjöldi þeirra sem mæta í seinni skimun hefur farið vaxandi dag frá degi. Nú er staðan orðin sú að vegna umfangs og fjölda skimana, hefur starfsemi seinni skimunar verið flutt í annað húsnæði að Strandgötu 31.

Umfang verkefnisins var töluvert í dag, en hátt í 10 starfsmenn sinntu skimunum og um 220 manns komu í skimun. Vegna fjöldans myndaðist töluverð röð, en til þess að koma í veg fyrir slíkt verður skimuninni dreift yfir lengri tíma. Í þessu ferli hefur starfsfólk HSN á Akureyri sýnt hvað það er öflugt, sveigjanlegt og tilbúið til að láta hlutina ganga upp. Með stuttum fyrirvara þurfti að koma upp nýrri aðstöðu til skimana fyrir hádegi í dag og hefja strax skimun eftir hádegi.

Ef þig grunar að þú sért með smit:

Vinsamlegast dragðu þig í hlé og haltu þig heima. Hafðu samband í síma 1700, þína heilsugæslu eða í gegnum netspjall á heilsuvera.is. Þar verður heilbrigðisstarfsfólk til svara og ráðleggur þér um næstu skref.

Mynd/pixabay