Steingrímur Kristinsson

Hugur margra hefur leitað til Beirut í Libanon að undanförnu vegna þess hörmulega slyss sem varð í sprengingu þar á hafnarsvæðinu síðastliðinn þriðjudag, þann 4. ágúst.

Í kjölfarið rifjaði Siglfirðingurinn Steingrímur Kristinsson upp skrif sín á Heimildasíðu Steingríms, þegar hann fór til Beirut árið 1979 og segir meðal annars.

Hörmulegt atvik í Beirut eftir að þessi risasprenging átti sér stað. Þessi atburður, rifjaði upp fyrir mér þá stuttu heimsókn sem ég átti erindi þangað árið 1979, þá sem timburmaður á skipinu Hvalvík sem var með pappír og timburfarm frá Svíþjóð til Beirut. ( og fleiri hafna og landa ) Hörmulegt ástand var þar einnig þá, en þá á milli trúarhreyfinga sem börðust um völdin og hlífðu engum, hvorki börnum né öðru saklausu fólki. Byggingar í rúst og aðrar stórskemmdar”

Frásögn Steingríms frá för sinni til Beirut í Líbanon árið 1979

Leiðin í gegn um Eyjahafið var skemmtileg sigling, þar var mikið um bæði stórar og litlar eyjar sem þetta hafsvæði, Eyjahaf dregur nafn sitt af.  Þegar komið var á móts við Cypur á leið okkar til Beirut, bárust fregnir af því að allt logaði þar í óeirðum, þar sem trúarofstækishópar voru að drepa hvor aðra, ásamt öðrum saklausum sem þangað flæktust í víglínuna. Skipstjórinn fékk fyrirmæli um að láta reka suður undan Cypur, en verið gæti að við yrðum að losa farm okkar þar, ef stríðsátökum í Beirut linnti ekki.

Djúpt undan ströndum eyjunnar Cypur, létum við reka í rúma þrjá sólarhringa. Sléttur sjór var og logn. Við fengum leyfi skipstjórans til að fá okkur sundsprett í sjónum sem var um 35 °C heitur. Það leyfi notuðu margir sér þrátt fyrir að um 500-600 metrar væru til botns þarna á Miðjarðarhafinu.

Þarna í sjónum komumst ég og annar skipverji í hann krappan

Einnig voru um borð tvær litlar stelpur, sem tóku sundspretti með pabba sínum Steindóri Ólsen 1. og 2. vélstjóra, en þær voru ásamt móður sinni Kristrúnu Birgittu Kristjánsdóttur um borð sem farþegar. Stelpurnar hétu; Árný og Ásrún (Held þetta vera rétt nöfn)

Steindór var fatlaður þannig að hann hafði misst annan fótinn og var með gervifót. Hann gegndi þó starfi sínu án annmarka, og hikaði ekki við að taka sundið þarna með dætrum sínum og okkur hinum.

Þarna í sjónum komumst ég og annar skipverji (man ekki nafn hans) í hann krappan. Við tókum þá ákvörðun að synda umhverfis skipið.

Sumir þeirra sem voru að synda höfðu áður synt umhverfis skipið án vandræða, en  þeir voru allir komnir um borð. 

Við lögðum af stað frá staðnum þar sem leiðarinn var, (kaðalstigi) aftarlega stjórnborðsmegin.

Vakthafandi háseti hafði talið að allir væru komnir um borð og sá okkur ekki er við syntum fram með skipinu stjórnborðsmegin, sem var auðvelt sund. 

En þegar haldið var baka í sömu átt  bakborðsmegin við skipið, urðum við fljótt varir við að það var ekki auðvelt, sennilega hefur straumur haft þau áhrif. 

Skipið rak á hlið að okkur undan smágolu, eða straumi og gerði það að verkum að við vorum alltaf að synda frá því samhliða, aftur með skipinu. Við vorum  orðnir þreyttir eftir busluganginn fyrr, og nú við erfitt sund.

Við vorum við það að gefast upp, loks er við náðum aftur til leiðarans stjórnborðsmegin, eftir sundið umhverfis skipið. 

Við vorum svo hundskammaðir af Magga skipstjóra

Síðar kom í ljós, að það var hrein tilviljun að leiðarinn hafði ekki verið tekinn upp, en hásetinn sem fengið hafði fyrirmæli um að gera það hafði tafist.  Við vorum svo hundskammaðir af Magga skipstjóra, fyrir það að hafa ekki látið vita af þessu “karlrembu” sundi okkar.

Nokkru síðar komu fréttir af því að líklega væri komið á vopnahlé á milli brjálæðinganna í Beirut og okkur var sagt að taka stefnuna þangað.  Ekki var þó alveg komin ró á svæðinu er þangað var komið, því við heyrðum sprengjugný og skothvelli.

Við fengum fyrirmæli frá hafnarstjórninni í Beirut, að leggjast við anker úti á flóanum. Það var gert. Aftur fórum við, sem áhuga höfðu á sundi til þeirrar iðju í lygnum sjónum.

Við vorum nokkur í sjónum þegar lóðsbátur kom og flest okkar fóru að týnast um borð. Við tókum eftir því að tveir menn sem komu um borð með lóðsbátnum, horfðu stíft á okkur og hlupu við fót á leið upp í brú.

Og á sama augnblikki og þeir voru þangað komnir kom Maggi skipstjóri fram á brúarvænginn og hrópaði skelfingu lostinn til okkar að koma um borð eins og skot.

Við hlýddum að sjálfsögðu, en furðuðum okkur á þeirri athyglinni sem Maggi og hinir nýkomnu veittu okkur og enn meira er Maggi hafði hrópað aftur til okkar og bað um að við flýttum okkur.

En nokkrum vikum áður hafði einmitt hákarl gripið einn krakka

Skýringin kom fljótt er um borð var komið. Samkvæmt þeirri skipahandbók sem um borð var, voru þær upplýsingar að engir hákarlar væru í Miðjarðarhafinu. En nokkrum vikum áður hafði einmitt hákarl gripið einn krakka sem hafði verið að synda skammt frá landi, þarna við höfnina við Beirut.

Lóðsinn saup hveljur þegar hann frétti af fyrri sundferðum okkar. Lóðsinn sagði einnig þær fréttir, að áðurnefnt vopnahlé væri ekki enn orðið alveg öruggt og við skyldum bíða frekari fyrirmæla þarna úti á legunni.

Ég var á vakt um nóttina. Við sólarupprás var talsverð hafgola, það er vind bar að ströndinni.

Þeir höfðu hent handsprengjum út í sjóinn

Ég var með sjónauka og var að skoða ströndina og skemmdir í landi, sem orðið höfðu vegna sprengjuláta á hinum ýmsu byggingum og skipum í höfn. Ég veitti nokkrum mönnum og ungum drengjum athygli þar sem þeir voru á leið niður í fjöru.

Allt í einu tóku drengirnir sig til og köstuðu einhverju langt út í sjóinn, sennilega eins langt og þeir gátu. Þeir eldri settust niður. Skyndilega komu nokkrar gusur upp úr sjónum þar sem hlutirnir sem kastað hafði verið lentu. Þeir höfðu hent handsprengjum út í sjóinn. Árangurinn kom fljótt í ljós.

Sjórinn í kring um sprengjusvæðið varð þéttur af dauðum fiski sem flaut upp. Fiskur sem smátt og smátt rak til lands undan hafgolunni, og þeir eldri risu upp og tóku til að týna aflann upp og setja í poka jafnóðum og fiskinn bar að.

Eftir smá stund gaus upp heljarmikill strókur aftan við bátinn eftir öfluga sprengegningu.

Nokkuð markviss veiðiaðferð. Nokkru síðar kom lítill mótorbátur frá höfninni og stefndi á svæði nokkurn vegin mitt á milli Hvalvíkur og lands.  Þeir stoppuðu þar vélina og létu á meðan enn var smáskrið á bátnum, eitthvað falla í sjóinn. Eftir smá stund gaus upp heljarmikill strókur aftan við bátinn eftir öfluga sprengegningu.

Síðan tóku bátsverjar sig til með háfa festa stöng og sóttu dauðan fiskinn sem flotið hafði upp.

Sennileg um 300-400 kg.  af allskonar fisktegundum sýndist mér.

Morðtólin sem þessir menn þarna höfðu yfir að ráða, voru greinilega notuð til að drepa fleira en mannskepnuna.

Ekki fengum við að fara í land í Beirut, loks er við komum að bryggju.  Enda hefur að líkindum engan langað til þess, þrátt fyrir að ekki hafði orðið vart við hávaða frá vopna skakinu það sem af var þeim degi, nokkrir þar á meðal ég skruppum þó niður á bryggjuna, svona til að geta sagt frá því að við hefðum stigið á Líbanska jörð.

Skemmdar byggingar, önnur mannvirki og skip sem þarna voru höfðu fengið að kenna á atgangi þessara stríðsmanna, var ömurleg sjón.

Háhýsi, þar á meðal fyrrverandi Holiday In Hótel og fleiri byggingar höfðu fengið að kenna á þessu ástandi sem þarna var og vart nokkur starfsemi þar á þeim tíma. 

Uppskipun á farminum sem eftir var, pappír í miklu magni, gekk vel. Hafnarverkamennirnir unnu af kappi og miklum dugnaði og ljóst var að þeir kunnu til verka.

Ekki var laust við að ákveðinni spennu væri af okkur létt, þegar siglt var úr höfn. Stefnan var tekin á Torrevieja Spáni, stað sem er um 30 mílum sunnan við Alicante, sem margir íslenskir sóldýrkendur þekktu á þeim tíma. Einnig Benidorm, sem er nokkru norðar.


Myndir: Steingrímur Kristinsson
Heimild af heimildasíðu Steingríms