Það ætti að koma í ljós á næsta löggjafarþingi hvaða jarðgangakostum verður forgangsraðað. Þá mun þingið taka fyrir þingsályktunartillögu um nýja samgönguáætlun fyrir árin 2023-2037 þar sem jarðgangakostum verður forgangsraðað segir á visi.is.
Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn Hildu Jönu Gísladóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar fyrir Norðausturkjördæmi.
Spurði hún innviðaráðherra að því hvort til standi að flýta jarðgangaframkvæmdum í Fjallabyggð og ef svo, hvenær yrði stefnt að því að hefja framkvæmdir.
Þrátt fyrir að Héðinsfjarðargöngin tryggi greiðar innanbæjarsamgöngur í Fjallabyggð, eru einbreiðu göngin Strákagöng og Múlagöng ákveðin flöskuháls, ekki síst á sumrin þar sem kemur fyrir að göngin anni ekki umferð um þau.
Á veturna kemur fyrir að íbúar þurfi að sætta sig við að vera innlyksa vegna ófærðar.
Heimamenn hafa því ítrekað kallað eftir því að ráðist verði í frekari jarðgangaframkvæmdir í sveitarfélaginu.
Hefur þar verið horft til breikkunar Múlaganga, sem liggja frá Ólafsfirði yfir í Eyjafjörð auk nýrra ganga um Siglufjarðarskarð sem kæmi í stað Strákaganga, sem tengja saman Siglufjörð og Fljótin.
Í svari innviðaráðherra er tekið fram að breikkun Múlaganga og ný göng um Siglufjarðarskarð séu á meðal ellefu verkefna sem mælt sé með að tekið verði fyrst til nánari skoðunar.