Tinna í hópi vaskra manna

Tinna Gunnarsdóttir vöruhönnuður hefur undanfarin ár unnið að doktorsverkefni við Háskóla Íslands þar sem hún skoðar hugtökin landslag og fagurfræði og setur í samhengi við hnattræna hlýnun af mannavöldum. Í verkefninu beitir hún fjölbreyttum aðferðum m.a. notar hún hönnun sem afl til umbreytingar.  

Á dögunum tók fjöldi manns frá Siglufirði og Ólafsfirði þátt í að flytja fimm tilhöggna steina að Möðruvöllum í Héðinsfirði. Þar sem ekki liggur vegur þangað þurfti að flytja steinana á snjó en hver þeirra vegur um 300 kg. Voru þeir hengdir aftan í snjóbíl og dregnir þangað frameftir.

Snjóbíllinn brunar

Í sumar verður steinunum komið fyrir í Stóralæk sem rennur úr Möðruvallaskál í Fjarðará og getur orðið mjög vatnsmikill og munu þeir nýtast gestum og gangandi til að stikla á og komast þurrfóta um austanverðan dalinn.  

Stiklupoki hengdur aftaní

Guðni Sveinsson á Siglufirði, eigandi snjóbílsins, skipulagði flutning steinanna í Héðinsfjörð og fékk til liðs við sig fjölda manns, en Samskip flutti steinana frá Reykjavík til Siglufjarðar. Allir sem komu að þessu verki gáfu vinnu sína.  

Kaffipása

Vonandi munu sem flestir nýta sér stiklurnar til að kanna og njóta dalsins í framtíðinni.  

Tinna vill þakka öllum sem komið hafa að verkefninu með einum eða öðrum hætti. 

Á forsíðumynd eru: Árni Heiðar, Grétar, Sigurður, Gísli, Guðni, Sigurður Þór, Sturlaugur

Aðsend frétt.

Myndir:  TG og ÖK