Sleppi hér öllu tali um það hvernig skilgreina eigi páskahret og hve nærri þau þurfa hitta á tímasetningu páska segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á vefsíðu sinni Blika.is.  Spálíkönin gera nú flest ráð fyrir svæsnu norðankasti komandi laugardagskvöld eða á páskadag. Það er 3. til 4. apríl.  

Háþrýstisvæðið mikla sem hér er að byggjast upp suðvesturundan beinir til okkar fremur mildu lofti á komandi dögum.  Styrk þess og fyrirferð má rekja til bylgjuvíxlverkunar upp í heiðhvolfinu sem verpir þessu “eggi” niður veðrahvolfið eða í 3ja til 10 km. Við sjáum hæðina á veðurkortum í 500 hPa fletinum í um 5,5 km hæð á skírdag (spá frá mánudagsmorgni).  Á sama tíma er nokkuð eðlilegur kuldahvirfill norðvestan Grænlands.  

Bylgjubrot í vestanvindabeltinu ofarlega í veðrahvolfi verður til þess að hæðin þokast til austurs í stað þess að mjakast í rólegheitum í austur eða suðaustur en það er venjan í þessum efnum. Þegar miðjan er komin vestur undir Grænland tekur kuldahvirfillin á rás austur yfir Grænland.  Verða eins konar fasaskipti í loftstraumunum. Þetta er vel þekkt uppskrift að svæsnum vorhretum. Skilyrði verða til lægðadýpkunar fyrir norðan land og um leið og hún dýpkar á leið sinni til Noregs steypist yfir okkur ískalt loft. 

Líkindaspá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar gerði ráð því í morgun að um 80% líkur væru á slíkri þróun.  Um 20% að áhrif hæðarinnar verði viðvarandi.  Hins vegar er enn talsverð óvissa um það hvort kjarni kalda loftsins hitti okkur beint fyrir (eins og nýjasta aðalkeyrslan – 29. mars kl. 12 – seinna kortið) reiknar með.  Eða þá að mesti kuldinn fari til suðurs skammt fyrir austan land.  Á þeirri línu er frekar GFS (aðal) spá Bandarísku alríkisveðurstofunnar. 

Fylgjumst með á Bliku.is , í dag verður spáin túlkuð fyrir hita, vind, úrkomu o.s.frv.