Norðmenn eru styttuóðir. Það verður bara að segjast eins og er.

Víða í Noregi má finna listaverk á hinum ýmsu stöðum og þar á meðal við vegi.

Í Stor-Elvdal, Innlandet fylki, rétt sunnan við þorpið Atna er að finna þennan risastóra elg. Hann er staðsettur við Ríkisveg 3 sem liggur eftir Austurdalnum, eins og sú leið er kölluð í daglegu tali.

Hér standa Gestaherbergishjónin undir stóra elgnum.

Elgurinn er 10,3 metrar að hæð og er annar hæsti skúlptúr af elg í heiminum. Fjármagnaður úr menningar- og listasjóði Sparebank1 í Hedmark fylki þáverandi og kostaði stykkið um €200.000,- eða á núvirði rétt um 30 milljónir íslenskar krónur. Áningastaðurinn sem elgurinn stendur við, Bjøråa picnic, er metinn á um €2,7 milljónir sem gera um 404 milljónir íslenskar krónur.

Skúlptúrinn er eftir norsku listakonuna Lindu Bakke og var settur upp í samstarfi við norsku vegagerðina. Afhjúpun fór fram 15. október árið 2015 og er elgurinn ætlaður sem tilraun til að draga úr slysum á veginum með því að fá fólk inn á bílastæðið til að teygja úr sér, skoða elginn, setjast svo niður við “vegagerðarborð” og hvíla sig ögn frá umferðinni. Og ekki síst að vekja athygli á dýralífinu við veginn því í Austurdalnum, já og mjög víða í Noregi, eru elgir á stjá og stöngli, og það getur verið mjög erfitt að sjá þá þegar fólk þeysist um norska vegi. Dalur þessi, Stor-Elvdal er í þriðja sæti um fjölda elgsdýra í Noregi.

Dæmigert “vegagerðarborð”. Mynd: atom.hunathing.is
Einnig er hægt kaup mat á staðnum, þegar sjoppan er opin.

Gengið undir elginn.

Byrjað var að vinna að verkinu árið 2009. Undirbúningur, bygging og uppsetning tók um hálft ár. Verkið var boðið út og lokaniðurstaða þess var sú að skúlptúrinn varð framleiddur í Beijing í Kína þar sem að kínverski bjóðandi var með hagstæðasta tilboð bæði hvað varðar verð og gæði. Skúlptúrinn er gerður úr ryðfríu stáli og pússaður vel og lengi til að fá fram gljáann.

Við uppsetningu og enn í dag, er hæðin eins og áður segir 10,3 metrar og var þá hálfum metra hærri en Mac the Moose í Kanada.
Í janúar árið 2019 fóru kanadísku grínistarnir Justin Reves og Greg Moore mikinn um að Stór-Elgurinn í Noregi væri hæsta stytta af elg á jarðkúlunni og gerðu ákall til Kanada um að bæta við hæðina á þeim kanadíska til að ná heiðrinum aftur um hæstu styttuna. Grínistarnir settu upp söfnunarsíðu á GoFundME til að ráða verkfræðing sem gæti hækkað elginn kanadíska. Eftir vangaveltur um hvernig væri besta að hækka hann var niðurstaðan sú að einfaldast væri að saga af honum hornin og setja hærri horn í staðinn. Sem var svo gert í október 2019. Því er stóri elgurinn á myndunum hér að ofan sá næst hæsti á jarðkúlunni.