Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ýtti í gær úr vör kynningarátaki á stóraukinni þjónustu og ráðgjöf um heilsutengd málefni í símanúmerinu 1700 og á netspjalli Heilsuveru. Markmiðið með eflingu þjónustunnar er að auka þjónustu við almenning með heilbrigðistengdri ráðgjöf og vegvísun í viðeigandi þjónustu.
Hjúkrunarfræðingar og annað sérþjálfað starfsfólk Upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Læknavaktarinnar svara símtölum frá almenningi allan sólarhringinn, leysa úr erindum og benda á hvar viðkomandi getur sótt sér þjónustu ef þörf er á. Reynslan af þessari þjónustu sýnir að hægt er að leysa úr sífellt stærri hluta erinda með fjarlausnum sem er betri þjónusta fyrir einstaklinginn og dregur jafnframt úr álagi á heilbrigðiskerfið.
„Það er mikilvægt að koma á markvissri vegvísun í viðeigandi þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og auka þannig aðgengi að þjónustunni. Með því að efla vegvísun í síma og netspjalli eykst skilvirkni í kerfinu og þörfum einstaklinga betur mætt með réttri þjónustu á réttum stað,“ segir Willum.
Það getur verið flókið fyrir almenning að vita hvert er best að sækja þjónustu þegar upp koma veikindi eða slys. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að fólk leitar til bráðamóttöku, þar sem álag er mikið, með úrlausnarefni sem hægt er að leysa með öðrum hætti. Með einu símtali í síma 1700 eða netspjalli á Heilsuveru er hægt að fá ráðgjöf um hvert sé best að leita, en áfram er mikilvægt að hringja í neyðarnúmerið 112 í neyðartilvikum.
„Við erum að búa til eina gátt inn í heilbrigðisþjónustuna til þess að einfalda verulega allt aðgengi fyrir almenning,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Þetta eru leiðir sem er auðvelt að muna og auðvelt að læra; hringja í 112 í neyð en annars heyra í okkur í síma 1700 allan sólarhringinn eða í netspjalli Heilsuveru milli klukkan 8 og 22.“
Hún segir starfsfólk sem svari símanum og netspjallinu gera allt sem hægt er til að grípa erindi fólks, leysa úr þeim eða koma þeim í réttan farveg. Einnig verði áfram lögð áhersla á að bæta upplýsingar á fræðsluvef Heilsuveru til að veita fólki góðar og áreiðanlegar upplýsingar um einkenni, sjúkdóma og önnur heilbrigðismál.