Á dögunum var undirritaður nýr styrktarsamningur Húnaþings vestra og hátíðarinnar Eldur í Húnaþingi sem haldin er í lok júlí ár hvert. Nýi samningurinn er til 5 ára og er sveitarfélagið með honum að auka stuðning við hátíðina verulega, bæði hvað varðar bein fjárframlög ein einnig með gjaldfrjálsum afnotum af Félagsheimilinu Hvammstanga og húsnæði stofnana sveitarfélagsins. 

Árlegt fjárframlag sveitarfélagsins til hátíðarinnar frá árinu 2025 verður ein milljón króna og mun taka breytingum í takt við vísitölu neysluverðs á samningstímanum. 

“Hátíðin Eldur í Húnaþingi er fyrir löngu orðin fastur liður í menningarlífi sveitarfélagsins. Innan sveitarstjórnar er einhugur um mikilvægi hátíðarinnar og sýnir hún það í verki með auknum stuðningi. Mikill fjöldi íbúa í sveitarfélaginu hefur í gegnum árin komið að framkvæmd hátíðarinnar og vil ég þakka þeim öllum ómetanlegt framlag sitt í að efla hátíðina og styrkja ár frá ári” segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.

Forsíðumynd: Jóhanna Helga Sigtryggsdóttir fulltrúi stjórnar Elds í Húnaþingi og Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri við undirritun samningsins.