Áform eru uppi um eldi á ófrjóum laxi í Fjallabyggð, þar sem framleiðslugetan verður 20 þúsund tonn á ári hverju og áætluð velta 26 milljarðar á ári. Sjö nærliggjandi sveitarfélögum verður boðinn hlutur í félaginu sem stendur að uppbyggingunni.

Félagið Kleifar fiskeldi stendur að baki þessum áformum og er verkefnið leitt af Róberti Guðfinnssyni, stofnanda Genís og eins eiganda Hólshyrnu, Árni Helga­son verktaki í Ólafs­firði að kemur einnig að verk­efn­inu, ásamt öðrum fjár­fest­um.


Erindi sem Vigdís Häsler sendi sveitarfélögunum:

Undirrituð ritar erindi þetta fyrir hönd Kleifa fiskeldis ehf., og forsvarsmanna þess sem standa að fyrirhugaðri uppbyggingu á laxeldi í Ólafsfirði, Siglufirði, Héðinsfirði og Eyjafirði, sem verður kynnt almenningi, ráðamönnum og fjölmiðlum á fundi í Tjarnarborg Ólafsfirði þann 6. september nk., kl. 17.

Áætlanir Kleifa byggja á áformum um uppbyggingu á að minnsta kosti 20.000 tonna framleiðslu af laxi á ári á landi og í fjörðum á Tröllaskaga. Starfsemin verður þrískipt; seiðaeldi, landeldi og kvíaeldi. Uppbyggingin yrði í húsnæði sem áður hýsti starfsemi SR mjöl á Siglufirði og í höfninni í Ólafsfirði, sem nú er að mestu ónotuð. Hér verður því um að ræða umtalsverða umbreytingu á hafnarmannvirkjum á svæðinu. Seiðaeldið og slátrun yrði á Siglufirði. Landeldi yrði í kvíum sem komið yrði fyrir í lokaðri höfninni í Ólafsfirði. Áframeldi í kvíum færi svo fram í fjörðunum á norðanverðum Tröllaskaga. Áætlanir Kleifa eru um að verkefnið muni skapa hátt í 460 bein og afleidd störf á svæðinu og mikil áhersla verður lögð á að gera þetta í sátt við umhverfið og stefnt að ófrjóum laxi í kvíunum.

Eldi á laxi hefur aukist mikið á undanförnum áratugum, með tæplega 49 milljarða útflutningsverðmæti árið 2022, þar sem lax var meginuppistaðan, sem er um 1,5% af allri framleiðslu heimsins. Samhliða hefur störfum í fiskeldi fjölgað verulega, en rúmlega 83% starfa í fiskeldi eru á landsbyggðinni. Samkvæmt skýrslu Boston Consulting, sem unnin var að beiðni matvælaráðherra, verður umfang lagareldis á Íslandi um 245.000 tonn og verðmætasköpun áætluð um 242 milljarðar íslenskra króna árið 2032.

Sóknartækifæri fyrir landshlutann

Norðurland eystra nær yfir 22.735 km2; frá Tröllaskaga í vestri, yfir Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur austur til Sandvíkurheiðar á milli Bakkaflóa og Vopnafjarðar. Á svæðinu eru þrettán sveitarfélög með liðlega 30.000 íbúa. Sveitarfélögin sem um ræðir og munu liggja að fyrirhuguðu framkvæmdasvæði eru; Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Svalbarðsstrandarhreppur, Hörgársveit, Grýtubakkahreppur, Eyjafjarðarsveit og Akureyrarkaupstaður. Á árunum 2019-2024 hefur íbúum fjölgað mest á Akureyri, sem og í Hörgár- og Eyjafjarðarsveit. Á síðustu 20 árum hefur íbúum 50 ára og eldri fjölgað mikið í öllum landshlutanum og einnig hefur ungu fólki, undir þrítugu fjölgað. Hins vegar hefur fólki á aldrinum 30-39 ára fækkað verulega.
Útsvarsstofn og atvinnutekjur á mann í landshlutanum hafa verið nokkru lægri en landsmeðaltal síðustu ár en fer hægt batnandi.

Á Norðurlandi eystra er mikil breidd í atvinnulífi, sem er einn helsti styrkleiki atvinnulífsins í landshlutanum og skapar forsendur fyrir öflugu atvinnuþróunar- og nýsköpunarstarfi en landbúnaður og sjávarútvegur eru undirstöðuatvinnugreinar á svæðinu. Á Akureyri, við Eyjafjörð hefur síðan byggst upp öflug þekkingarstarfsemi við Háskólann á Akureyri, þar sem m.a. er starfrækt mikilvæg kennsla í sjávarútvegsfræðum og fiskeldi, að auki starfrækir Háskólinn á Hólum öfluga fiskeldis- og fiskalíffræðideild.

Síðustu ár hafa ýmsir aðilar sýnt því áhuga að hefja sjókvíaeldi í Eyjafirði, enda er fjörðurinn afar heppilegur til slíkrar atvinnustarfsemi sé horft til ýmissa þátta, s.s. veðurfars, öldufars og hafstrauma en mælingar hafa staðfest hringstreymi í firðinum. Þannig var Brim fiskeldi hf., Kleifar fiskeldi ehf. með starfsleyfi til framleiðslu á þorski og ýsu út af Skjaldarvík, innarlega í Eyjafirði, Íslandslax hf. var með starfsleyfi og áætlanir um framleiðslu á 1.000 tonnum af laxi á tveimur
staðsetningum við Ystuvík og Stapa í Eyjafirði og Skelfélagið ehf. var með starfsleyfi til kræklingaræktar á fjórum stöðum í Eyjafirði. Hugmyndir um uppbyggingu eldis í sjókvíum hafa því verið viðvarandi og til umræðu í allnokkurn tíma.
Áskoranirnar eru þó margvíslegar en tækifærin einnig, því þó umhverfisáhrif sjókvíaeldis, sem er það eldi sem er komið hvað lengst í þroskaferlinu í samanburði við annað eldi, séu dregin upp sem áskorun þá liggja tækifærin einnig í framleiðslu matvæla sem grundvallast á sjálfbærri orkunotkun, lágri losun gróðurhúsalofttegunda og nýtingu hliðarafurða. Tækifærin felast enn fremur í efnahagslegum verðmætum í gegnum útflutning, störf og tekjur af sköttum og gjöldum. Á svæðinu eru því sóknartækifæri til þess að byggja upp stöndug strandsamfélög og nýjan þekkingariðnað.

Afgjald nýtt til innviðauppbyggingar

Forsvarsmenn Kleifa eru meðvitaðir um að forsenda þess að atvinnugreinin fái að blómstra og að nærumhverfið njóti góðs af, þá þurfi þau sveitarfélög þar sem fiskeldi fer fram og áform eru um að byggja upp atvinnugreinina, að fá sanngjarnt afgjald af auðlindinni sem sveitarfélögin og samfélög þeirra geti nýtt til innviðauppbyggingar. Núverandi kerfi með umsóknarferli í Fiskeldissjóð, sem er samkeppnissjóður, hefur ekki reynst vel og komið í veg fyrir að sveitarfélögin geti gert fjárhagsáætlanir um innviðauppbyggingu til lengri tíma þar sem ekki er hægt að treysta á stöðugt fjármagn úr sjóðnum.

Það er afstaða forsvarsmanna Kleifa að strax í upphafi fyrirhugaðra áforma félagsins, sé tryggt að sveitarfélögin á svæðinu fái hlutdeild í þeim arði sem skapast og styrki þar með uppbyggingu innviða nærsamfélaganna frá fyrsta degi, með því að styrkja stoðir atvinnulífs sveitarfélaganna og aðstoða við uppbyggingu samfélagsins. Því er lagt til í samþykktum félagsins að sveitarfélögin Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Svalbarðsstrandarhreppur, Hörgársveit, Grýtubakkahreppur, Eyjafjarðarsveit og Akureyrarkaupstaður eiga ávallt rétt á greiðslu sem nemur samtals 10,1% af þeim fjármunum, eignum eða verðmætum sem ráðstafað er til hluthafa við útgreiðslu arðs, í réttu hlutfalli við hlutafjáreign.

Mörg mikilvæg mál hvíla á sveitarfélögum þegar um er að ræða uppbyggingu atvinnugreinar eins og laxeldi. Í þessu felst mikil áskorun fyrir samfélagið í heild þegar við stöndum frammi fyrir því að þurfa að framleiða meira af matvælum í náinni framtíð með þekktan uppruna. Hlutverk sveitarfélaga snýst um að finna málamiðlun milli nýtingar og verndar. Í þessum málum sem og öðrum hafa sveitarfélögin heilmikið um það að segja hvaða atvinnuuppbygging fær framgang innan sveitarfélags og sveitarfélögin eru í samkeppni um fólk og lífsgæði. Áform Kleifa munu strax skapa mikinn ábata fyrir samfélögin á svæðinu, með nýja tekjuöflun fyrir sveitarfélögin og opna þar með tækifæri íbúa á svæðinu til þess að byggja lífsviðurværi sitt á ábyrgu og sjálfbæru laxeldi. Þannig megi stuðla að framtíðarmöguleikum sveitarfélaga til verðmætasköpunar í landshlutanum, sem styður við öfluga innviðauppbyggingu innan þessara samfélaga.

Virðingarfyllst,
Vigdís Häsler
Lögfr., LL.M.og verkefnisstjóri Kleifa fiskeldis ehf.