Þann 7. maí var eitt ár síðan hjörtu margra manna brotnuðu, nánar til tekið fótboltaáhugamanna. Þetta voru stuðningsmenn Man.Utd .. og Arsenal .. og Tottenham .. og eiginlega allra annarra liða en Liverpool. Þeir höfðu vaknað þá um morguninn með gleði og von í hjarta um að Liverpool myndi detta úr meistaradeildinni þennan dag. Það leit líka þannig út þar sem Liverpool hafði tapað fyrri leik sínum gegn Barcelona 3 – 0 og brekkan var mikil fyrir seinni leik liðanna sem fór einmitt fram 7. Maí 2019 á Anfield. Möguleiki Liverpool var því mjög takmarkaður, þetta var jú Barcelona, eitt besta lið heims með Messi í fararbroddi. 

Og von þessara stuðningsmanna um að Liverpool myndi tapa var því mikil, þeim var alveg sama um hvaða lið myndi vinna og það hefði ekki skipt neinu máli hvað hitt liðið var, bara að Liverpool myndi tapa. Hatur þessara manna á Liverpool er vegna þess, að þeirra sögn, að stuðningsmenn Liverpool eru óþolandi með hroka og leiðindi. Hatur þeirra er svo mikið að í raun voru þeir hættir að fylgjast með sínu liði, það skipti ekki máli lengur, bara að Liverpool myndi tapa þá yrðu þeir glaðir. Og þess vegna vöknuðu menn morguninn 7. Maí 2019 með mikla von um að þeir yrðu bænheyrðir.Menn voru búnir að kæla kampavínið og poppa, kaupa flugelda og setja fingur á lyklaborðið því nú skyldu þessir óþolandi stuðningsmenn Liverpool verða jarðaðir á samfélagsmiðlum eftir leik. 

Það voru því margir sem skriðu undir sæng með brostna von eftir að Liverpool vann leikinn 4 – 0 og komst áfram í keppninni. Þessir menn sáust lítið á samfélagsmiðlum eftir þetta eða alveg þangað til að ný von vaknaði í brjóstum þeirra um að eitthvað gæti stöðvað Liverpool þetta árið .. jú einmitt Covid – 19. 

En af hverju hata menn Liverpool svona mikið? Liverpool hefur t.d. ekki unnið ensku mjög lengi. Þrautaganga Liverpool hefur nú spannað í heil 30 ár, vissulega hefur liðið unnið titla á þessum árum en ekki Enska bikarinn þ.e. efstu deild á Englandi. Ég ætla ekkert í einhverjar miklar tölfræði pælingar en Liverpool hefur unnið efstu deild á Englandi 18 sinnum og er eitt af sigursælustu liðum Englands. 

Á þessum 30 árum hafa stuðningsmenn Liverpool fengið allskyns viðurnefni og skítkast frá hógværum,kurteisum og auðmjúkum stuðningsmönnum annarra liða sem hafa sýnt Poolurum mikinn skilning í gegnum þessi erfiðu 30 ár. 

Þeir hata Liverpool svo mikið að þeir glöddust yfir því að heimsfaraldur myndi líklega koma í veg fyrir að Liverpool ynni deildina í ár þar sem ekkert lið var að fara að koma í veg fyrir það. Þeim var sama þó ættingjar og vinir yrðu  veikir af Covid – 19, bráðsmitandi og stórhættulegum veirusjúkdóm, bara ef Liverpool yrði ekki meistari. Ég hef tekið nokkur skjáskot af internetinu máli mínu til stuðnings. 


Aðsent.