Sólstöður eða sólhvörf er sú stund þegar sól fer lengst frá miðbaug himins til norðurs eða suðurs. Sólstöður eru tvisvar á ári, sumarsólstöður á tímabilinu 20.-22. júní, þegar sólargangurinn er lengstur og vetrarsólstöður 20.-23. desember, þegar hann er stystur.

Breytileiki dagsetninganna stafar fyrst og fremst af hlaupársdögum. Nafnið sólstöður vísar til þess að sólin stendur kyrr, það er hættir að hækka eða lækka á lofti.

Þórður Arnarsson skrifaði á vef Veðurstofu Íslands eftirfarandi.

“Sumarsólstöður eru þegar sól er hæst á lofti á norðurhveli jarðar og þær ber ýmist upp á 20. eða 21. júní. Tímasetningin hnikast örlítið milli ára, eftir því hvernig stendur á hlaupári. Á sólstöðum stefnir ofanvarp snúningsáss jarðar á braut jarðar beint á miðju sólar. Þessi atburður er því á tilteknu augnabliki innan dagsins.

Við sumarsólstöður sest sólin ekki á stöðum norðan við norðurheimskautsbaug. Norðurheimskautsbaugur er á 66°34’N og sker norðurhluta Grímseyjar og er miðaður við rétta stefnu í miðju sólar og er þá ekki tekið tillit til ljósbrots í andrúmsloftinu. Þegar tekið er tillit til ljósbrotsins og þess að sólarupprás og sólarlag eru miðuð við síðustu geisla sólar, þ.e. efri rönd sólarkringlunnar, þá sest sólin ekki um sumarsólstöður við nær alla norðurströnd Íslands, eða á stöðum norðan við 65°50’N.

Halli snúningsáss jarðar er nokkuð stöðugur um 23,44° frá því að vera hornréttur á braut jarðar um sólina. Þessi halli breytist þó með reglulegri sveiflu um 2° á 40.000 ára fresti. Þessi langtímasveifla kemur fram í veðurfarsbreytingum á jörðinni. Nú um stundir veldur þessi sveifla því að norðurheimskautsbaugurinn færist norður á bóginn um 15 m á ári og mun fara norður fyrir Grímsey eftir nokkra áratugi”.

Skjáskot/wikipedia

Heimild/Wikipedia og Veðurstofa Íslands