Bára Grímsdóttir og Chris Foster koma fram á fyrstu sumartónleikum Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar í Siglufjarðarkirkju laugardaginn 4. júlí kl. 17.00.

Þau ætla að flytja íslensk og ensk þjóðlög í eigin útsetningum, sungin og leikin á langspil, gítar, kantele og íslenska fiðlu. 

Bára Grímsdóttir ólst upp við söng og kveðskap, heyrði og lærði allt frá barnæsku kveðskap foreldra sinna, afa og ömmu á bænum Grímstungu í Vatnsdal. Bára er af mörgum talin vera einn allra besti túlkandi þjóðlegrar tónlistar hér á landi, en hún hefur sérstakan áhuga á rímnastemmum og kvæðalögum. Hún hefur fengist við flutning á margs konar þjóðlagatónlist bæði hér heima og erlendis. Sem tónskáld og útsetjari, hefur Bára nýtt sér uppsprettulindir íslenskra þjóðlaga til skapandi starfs en hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar sem tónskáld.

Chris Foster kynntist þjóðlögum í uppvexti sínum í Somerset í Suðvestur-Englandi. Flutningur hans einkennist af mikilli og persónulegri innlifun í tónlistina, sem oft leiðir til þess að áheyrendur verða beinir þátttakendur í því sem fram fer og flutt er. Chris hefur sett þjóðlagahefðina í nútímalegan búning með sérstæðum, frumlegum gítarundirleik og sannfærandi söngtúlkun. Hann er talinn einn besti listamaður síðari tíma á sínu sviði og í frestu röð merkra brautryðjenda í endurvakningu á breskri þjóðlagatónlist.

Fréttatilkynning