Forsíðu myndin sýnir okkur sundkeppni í “SUNDHÖLL SIGLUFJARÐAR,” en svo hét lengi vel þetta glæsilega sundlauga hús og þótti það flott á sínum tíma að hafa 25 m upphitaða innanhúss laug, með áhorfendastúku, hátt til lofts og stóra glugga sem hleypa inn góðri birtu. Sundlaugar bygginga sagan á þessum stað úti í Bakka, virðist eiga sér langa sögu og nær yfir 2 áratugi, húsið eins og við þekkjum það í dag er formlega vígt 1 maí, 1962 og verður að lokum bæði sundlaug hluta ársins og yfir vetrarmánuðina einnig íþrótta hús með gólfi yfir sundlauginni.

ATH. (Smelltu á hvaða mynd sem er og þá birtist hún þér stærri.)

Leikfimissýning ofan á 25 m. sundlaug. Eins og sjá má á þessum myndum er þarna ágætis aðstaða fyrir áhorfendur. Mér er það minnisstætt að það skapaðist mikil hávaði þegar margir hlupu og hoppuðu á þessu sundlaugarleikfimisgólfi. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Sjá fleiri áhugaverðar ljósmyndir hér:

LEIKFIMI- OG FIMLEIKASÝNINGAR! 65 myndir

Það er kannski orðum aukið og of miklu lofað með titlinum “Sund saga Siglufjarðar,” en hér verður stiklað á stóru í máli og myndum, sem hægt er að lesa úr gömlum heimildum, um t.d. sund aðstöðu, sundkennslu o.fl. í firðinum fagra á síðustu öld.

Stutt um sundsögu Íslands!

Í Íslendingasögum er á nokkrum stöðum talað um sund, svo hugsanlega var sundkunnátta algeng á miðöldum. Þessi kunnátta tapaðist svo niður með tímanum og árið 1820 var talið að aðeins sex manns kynnu að synda á Íslandi.[7] Drukknun var algeng dánarorsök og stundum kom fyrir að sjómenn drukknuðu við að lenda bátum í flæðarmálinu. Slysum af því tagi fjölgaði eftir því sem fleiri settust að við sjávarsíðuna á síðari hluta 19. aldar. Á þeim tíma var því tekið að ræða um nauðsyn þess að efla sundkunnáttu sjómanna.

Seint á 19. öld var svo farið að kenna sund sem skipulega íþrótt. Kennslan fór víðast hvar fram í köldum sjó, en sum staðar voru volgir lækir stíflaðir til að búa til sundlaugar. Sundfélag Reykjavíkur var stofnað í kringum sundkennslu í Laugardal árið 1884 og sundskýli var reist í Sundskálavík í Skerjafirði árið eftir...

…Sundlaugarnar voru mikilvægur liður í að bæta hreinlætisaðstöðu, en mörgum þótti óþrifnaður almennur meðal Íslendinga á 19. öld. Baðhúsfélag Reykjavíkur var stofnað af nokkrum framámönnum í Reykjavík 1895 í tengslum við fyrsta baðhúsið þar. Annað baðhús, Baðhús Reykjavíkur, var reist 1905 og starfaði til 1966. Sundlaugarnar gerðu slík baðhús óþörf, auk þess sem baðherbergi urðu almennari á heimilum þegar líða tók á 20. öldina…

Árið 1925 var sveitarfélögum gefin heimild með lögum að koma á skyldunámi í sundi og Vestmannaeyjabær varð fyrstur til að innleiða það. Í Reykjavík varð sundkennsla að skyldu árið 1927…

Árið 1940 var svo kveðið á um skyldunám í sundi á landsvísu.

Heimildir fengnar að láni frá Wikipedia: Sund á Íslandi.

Í Skagfirðingabók – 1. tölublað (01.01.1966 er sagt að sundkennsla inn í Fljótum hafi byrjað snemma á síðustu öld og eru þar nefndir svokallaðir “Sundpollar” með heitu vatni við t.d. Lambanesreykjalaug, Gilslaug og seinna Barðslaug. Í þessum heimildum er nefnt að unglingar frá bæði Siglufirði og Ólafsfirði hafi, til fjölda ára komið á þessa staði og notið þar sundkennslu í heitu vatni.

Sundkennsla í síldarþró á Siglufirði

Í gömlum heimildum varðandi, sund aðstöðu og skipulagða sundkennslu Siglufjarðar, kemur meðal annars fram:

Árið 1911 voru Siglfirðingar farnir að ræða nauðsyn þess að koma upp aðstöðu til sundkennslu. Haldnir voru svokallaðir Miðsvetrarfundir að tilhlutan Hvanneyrarhrepps, opnir öllu hreppsbúum. Á slíkum fundi í ársbyrjun 1912 vakti oddviti sveitarfélagsins máls á að „æskilegt væri að hér yrði byggður sundpollur einhvers staðar og kennt sund“. Síðar sama ár var gerður svonefndur Hvanneyrarpollur í hlíðinni ofan og sunnan við Hvanneyri. Þar var laut eða bolli sem hlaðið var fyrir neðri endann á með torfi og grjóti. Stíflugarðurinn var 8 metra langur og eftir honum gekk sundkennarinn með stöng og gjörð. Þarna hófst sundkennsla á Siglufirði 1912 eða 1913. Kennslan var stopul næstu árin en vorið og sumarið 1920 var þarna þó skipulögð sundkennsla.

Heimild: Íslenskar sundlaugar frá fyrri hluta 20 aldar. Sundlaugar á Norðurlandi. Húsakonnun 2024 og er þar vitnað í grein eftir Braga Magnússon: Sundstaðir og sundfarir í Siglufirði.

Úr handskrifuðum heimildum aftan á gamalli ljósmynd má lesa eftirfarandi:

“í kjallaranum undir húsinu að sunnanverðu, er fyrsta steypta síldarþró landsins, byggð 1906 og var hún notuð af Síldarverksmiðjunni Bakkavik. Hrímnishúsið er seinna byggt yfir þessa gömlu síldarþró. Ljósmyndari ókunnur, sennilega norskur“ Upplýsingar sóttar úr safni Guðbrands Magnússonar.

Á vorin var síldarþróin notuð sem sundlaug til sundkennslu.

“Árið 1921 var sund kennt í síldarþró sem fyllt var með vatni, svokallaðri Bakkevigsþró. Ekki ríkti mikil ánægja með þennan sundstað og Ungmennafélag Siglufjarðar gekkst fyrir því að sundpollur eða sundþró var gerð skammt innan við bæinn, ofan Langeyrar. “
Heimild: Íslenskar sundlaugar frá fyrri hluta 20 aldar. Sundlaugar á Norðurlandi. Húsakonnun 2024 og er þar aftur vitnað í grein eftir Braga Magnússon: Sundstaðir og sundfarir í Siglufirði.

Svo merkilega vill þó til, að þessi fyrsta síldarþróar sundlaug Siglufjarðar, er enn á sínum stað.
Sjá meira hér um Hrímnir H/F:

HRÍMNIR H/F. SÍLDARTUNNUR UPPÁ ÞAKI OG SUNDLAUG Í KJALLARANUM. 35 myndir

Aðrar bæjarblaða heimildir leiða okkur inn í Skútudal, í leit að heitri sundaðstöðu og eru hér á eftir nefndar nokkuð skemmtilegar og áhugaverðar sundlauga hugmyndir.

Heitu laugarnar á Skútudal

Einherji 15. júní 1932

Eigendur jarðarinnar Efri-Skútu hafa samþykkt að gefa bæjarbúum laugastæði og heitt vatn ef í það næst. Nokkrir ungir menn hafa grafið á laugasvæðinu 3 holur c. 1 m. á dýpt og náðist þegar í 65 gr. heitt vatn. Er mjög auðvelt að fá þarna haganlegt laugarstæði og er þangað stutt leiðsla. 50—100 metra frá laugunum.

Einherji vill hvetja bæjarbúa til þess að fylgjast vel með þessu máli og styrkja eigendurna til þess að vinna að rannsókn þessari frekar, en enn er orðið. Verður það bezt gert með því, að leggja til vinnu við að grafa þarna til vatns. Annars væri vel við eigandi að bærinn legði fram einhvern styrk til rækilegra rannsókna um þetta mál, því líklegt er, að þarna sé miklu meira af heitu vatni í jörðu en margan grunar og getur slík rannsókn haft afarmikla þýðingu fyrir bæjarfélagið í heild. Í kvöld ættu þeir, er áhuga hafa fyrir þessu og vilja vinna að því að grafa, að gefa sig fram. Lagt verður á stað frameftir á bíl frá Lyfjabúðinni kl. 7½. En menn verða að hafa með sér skóflur. 

17. júní kvað eiga að halda hátíðlegan með íþróttasýningu. Standa að henni Knattspyrnufjelag Siglufjarðar og íþróttafélag Verkamanna. Merki kvað eiga að selja til ágóða fyrir íþróttavöll. Hamli veður verður mótið sennilega næsta helgan dag.” Sjá meira hér á heimildasíðum Steingríms Kristins: Blaðið Einherji. 1. árgangur, 1. tölublað 1932

Sundlaug og dagheimili fyrir börn í Skútudal?

Einherji 27. júlí 1932

Fyrir skömmu komu nokkrir áhugasamir ungir menn til mín og beiddu mig um að koma með sér inn í Skútudal og líta þar á sundlaugarstæði í sambandi við heita uppsprettu sem þar er. Ég hafði aldrei fyrr komið þarna inneftir, en heyrði þessarar uppsprettu getið, fyrst eftir að eg kom hingað sumarið 1929, voru það mennirnir við grjótmulningsvélina sem töluðu um skilyrði fyrir sundlaug á þessum stað. Nú, eftir að hafa séð staðinn, blandast mér ekki hugur um, að þar eru möguleikar fyrir Siglufjarðarbúa, til þess að útbúa sér ýmsar nytsemdir og þægindi. Skal hér að eins bent á, auk sundlaugarinnar sem íþróttamennirnir ætla að koma þar upp, dagheimili fyrir börn og unglinga. Það þarf ekki að lýsa því ítarlega hvert ágæti það væri fyrir börnin og unglingana að geta leikið sér þarna, bæði á grasinu og í volgu vatninu og þannig notið þess, sem mest er sókzt eftir handa börnum allra landa, sólar og vatns og frjálsræðis til leika í andrúmslofti lausu við uppgufun og óhollustu bæjanna. 

Þessar línur eiga aðeins að vera til þess að vekja athygli bæjarbúa á þessum möguleika þarna, svo hafist verði handa til þess að rannsaka málið, og gerðar séu ítarlegar áætlanir um það, sem gera þarf í þessu skyni, svo framkvæmt verði ef gerlegt þykir. Vegalengdin þarna inneftir er ekki löng og vegstæði fyrir bílfæran sumarveg fremur gott. Vetrarveg þarf ekki til þess, að Iaug og skýli komi að fullum notum. Hér kunna svo margir unglingar og fullorðnir á skíðum, að trú mín er sú, að fjölmennt yrði þarna og á vetrum. Færi þá vel á, ef börnin nytu staðarins á sumrum en fullorðnir sumur og vetur. Bezt tel ég ef hægt væri að koma þessu í framkvæmd með frjálsum samtökum.

Þorkell Þ. Clementz.
Sjá meira hér á heimildasíðum Steingríms Kristins: Blaðið Einherji. 1. árgangur, 1. tölublað 1932

“Sundpollur” / steinsteypt sundlaug við Langeyri?

Margir mér bæði eldri og yngri Siglfirðingar minnst þess eflaust, að hafa farið í sjóbað og buslað við einu baðströnd Siglufjarðar suður á Langeyri. Rétt norðan við Langeyrina var einnig steinsteyptur sundpollur/laug.

Undirbúningsvinna hófst 1921 og er Langeyrar laugin gerð úr steinsteypu. Laugin var fullgerð árið 1923 og kennsla hófst þar árið eftir. Í frétt í Framtíðinni sama ár er þess getið að UMF Siglufjarðar hafi látið gera umrædda laug í samvinnu við fleiri félög og með aðstoð góðra manna. Þarna var kennt sund á sumarmánuðum fram um 1930, en síðast var kennt í henni sumarið 1938. Þessi önnur laug Siglufjarðar hefur ekki orðið langlíf og ekki er vitað til þess að laugarhús hafi verið byggt við hana…

“...Á næstu árum var talsvert deilt um hvort ætti að byggja sundlaug sem næst heitu uppsprettunum á Skútum (þar sem köld sundlaug hafði verið gerð 1923) eða í bænum. Einnig var rætt um hvort hægt væri að nýta uppsprettuna eingöngu, að hluta eða hvort til þyrfti að koma rafhitun eða kolahitun, hvort hún skyldi vera opin eða yfirbyggð o.s.frv. Um þetta var deilt í nokkurn tíma, en árið 1936 voru fjórir verkfræðingar fengnir til að meta það hvar best væri að hafa laugina og hvernig úr garði gerða. Í blaðinu Reginn segir: „Leggja þeir einróma til, að sundlaugin verði byggð í Hvanneyrarkrók, norðan við Hvanneyrará, um 20 m. frá sjó, og fyrst um sinn hituð upp með kælivatni frá rafstöð bæjarins, en síðar með kolum eða rafmagni, eða hvort tveggja...”

Heimild: Íslenskar sundlaugar frá fyrri hluta 20 aldar. Sundlaugar á Norðurlandi. Húsakonnun 2024, vitnað er í meðal annars i Framtíðin 11.08.1923, forsíða. Siglfirðingur 06.01.1934, bls. 3 og Siglfirðingur 01.09.1934, bls. 1-2 og Siglfirðingur 15.06.1937 bls. 3.

Í minningum mínum er laugin við Langeyri um 12 – 16 m löng með bæði djúpum og grunnum endum. Hér hefur mér ekki tekist að finna neinar ljósmyndir og það eina sem ég get beint ykkur lesendum á er sjálf staðsetningin og að það mótar fyrir lauginni á þessari ljósmynd:

Í gamalli grein á sigló.is frá 2017, GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR fann ég þrjár ljósmyndir, þar sem ég held því fram að myndirnar séu teknar við þessa gömlu Langeyrar sundlaug. Við nánari skoðun við skrif á þessari sundsögu samantekt, sé ég að þetta er alls ekki rétt ágiskun hjá mér.

ATH. Myndirnar sem óþekktur ljósmyndari tók, sýna upprunalegu sundlaugina útí Bakka, sem líklega var tekin í notkun kringum 1939.

(Ljósmyndari óþekktur)

Undir myndirnar skrifaði ég eftir farandi minninga texta:

Gamla úti sundlaugin suður við Langeyri, ég hef “baðað” þarna sjálfur í rústunum eftir þessa laug, einhvern tímann þegar við vorum að leika okkur við gömlu nótabátana sem stóðu á hvolfi suður á Langeyri.”

Ég minnist þess einnig að við suðurbæjar krakkarnir reyndum eitt sumarið að búa okkur til einkasundlaug úr þessum illa sprungnu steinsteyptu sundlaugar fornleifum. Eyddum miklum tíma í að hreinsa laugina og þétta með torfi og mosa og síðan hleypa vatni í laugina úr lækjum af túninu þar fyrir ofan. Allt til einskis, laugin hélt ekki vatni.

Úti sundlaug útí Bakka verður smá saman Sundhöll Siglufjarðar!

Sundlaug Siglufjarðar (1939-1958) 

Bárður Ísleifsson/Húsameistaraskrifstofa ríkisins er upphaflegur hönnuður. Hönnuð yfirbygging 1948 f.h.  húsameistara ríkisins. Hönnuð aftur 1958. Byggingarár: 1939  Helstu endurbætur: (1946, 1949, (1958, 1967, 1968)  Yfirbyggð/opin: Fyrst opin, svo yfirbyggð 
Hitun: í upphafi hituð með kælivatni af aflvél, blöndu af kolum, rafmagni og olíu og að lokum hitaveita 

Heimild: Íslenskar sundlaugar frá fyrri hluta 20 aldar. Sundlaugar á Norðurlandi. Húsakonnun 2024.

Starfsemin í þessari úti sundlaug, virðist mér þó hafa verið nokkuð óstöðug um tíma, vegna ýmisa viðgerða og úrbóta, eins og sjá má t.d. í endurminninga frásögn, hins nú 91 ár gamla Steingríms Kristinssonar, en hann er fæddur í febrúar 1934:

…Einhvern tíma, um 12-13 ára aldur, (líklega kringum 1947) voru krakkar sendir til Ólafsfjarðar um tíma til að læra sund, þar á meðal Valbjörn skólabróðir minn. Ekki veit ég hvers vegna ég fylgdi ekki þeim hópi.

Sundlaugin á Siglufirði var lokuð um tíma af einhverjum sökum. Ég lærði því ekki að synda samhliða skóla systkinum mínum. En um vorið, þá lærði ég að synda í sjónum við Hvanneyrarkrók og út með Ströndinni undir leiðsögn Valbjarnar. Sundnámið undir leiðsögn Valbjarnar gekk þó svo vel, að ég hafi meiri ánægju af því að vera undir yfirborðinu frekar, en upp við það.

Það var eftir að við uppgötvuðum að hægt var að elta rauðmagana, stugga við steinbítum og marhnútum, ásamt því að synda innan um þara gróðurinn. Það var gaman, en okkur þótti grábölvað að geta ekki verið nógu lengi í kafi hverju sinni.”  Sjá meira hér á heimildasíðu Steingríms: Sjósund og fleira.

Í langri og ítarlegri nokkuð pólitískri grein í Þjóðviljinn – 213. tölublað (15.09.1939) undir fyrir sögninni :

Unga Fólkið: Æskulýður Siglufjarðar gefur fordæmið birtist þessi ljósmynd:

Skjáskot av mynd fengin að láni úr grein frá 1939, tímarit.is.

Athyglisverðar heimildir varðandi þessa áratuga löngu sundlaugar sögu útí Bakka er að finna í ræðu bæjarstjórans frá 1 maí, 1962 og birtist hér úrdráttur úr þessari ræður og eru orðin sótt úr Neistagrein: Neisti – 3. tölublað (05.05.1962:

Sundhöll Siglufjarðar vígð 1 maí síðastliðinn….1962

… Við fögnum því að nú getum við loksins tekið Sundhöll Siglufjarðar í notkun fullfrágengna að allri innréttingu og búnaði sem sundhöll og afhent hana til afnota fyrir unga sem aldna, og þó það sérstaklega æskulýður þessa bæjar, sem ég vil samfagna á þessum tímamótum…

… Sundíþróttin er sú íþróttagrein sem ekki hefur verið hægt að leggja stund á eins mikið og æskilegt hefði verið. orsök þess er að undanfarin ár hefur Sundhöllin verið í smíðum, og þó að reynt hafi verið að halda uppi sundkennslu og annarri sundstarfrækslu í húsinu hálfbyggðu, þá hefur það ekki verið framkvæmt við eins góð skilyrði og nú mun verða fyrir hendi, eftir að húsið er fullbyggt…

… og bæjarstjórinn heldur áfram og útskýrir betur seinaganginn á þessu mikla verkefni:

Nokkrir erfiðleikar hafa verið að því, að þessi fjögur síðast liðnu ár, sem yfirbyggingin hefur verið í smíðum, hafa greiðslur úr Íþróttasjóði gengið mjög treglega. Var ekki annað sýnt um tíma, en að bæjarsjóður yrði að bera mestan þunga af byggingarkostnaðinum, enda þótt að íþróttasjóður ætti að greiða allt að 40% af kostnaði. En nú hefur úr þessu ræst betur en vonir stóðu til. — Fyrir atbeina núverandi menntamálaráðherra, Gylfa Þ. Gíslasonar o.fl. aðila hefur Sundhöll Siglufjarðar verið viðurkennt sem skólahús, og sem slíkt verið tekið inn á fjárlög ríkissjóðs, sem þar með greiðir helming byggingarkostnaðar…

Auk þess er svo fyrirhugað á næstunni að leggja gólf yfir sundlaugarþróna og nota húsið á veturna sem íþróttahús. Kostar sá útbúnaður allur um 1 milljón króna og ætti ekki að vera neitt sérstakt vandamál að framkvæma það, þar sem fj´ármagn fyrir því er tiltækt á næstunni. Yrði þá hús þetta starfrækt sem sundhöll á sumrum og íþróttahús á vetrum, en fyrir hvort tveggja er brýn þörf….

Innskot frá pisthöfundi: Þetta með gólf yfir sundlaugarþrónna, dregst þó mikið á langinn og er það staðfest í öðrum heimildum að fyrsta skiptið sem þetta var gert var í kringum áramótin 1967/68.

Löng byggingarsaga!

Hér koma ýmsar sund sögulegar heimildir úr hátíðarræðu bæjarstjórans 1 maí, 1962:

… Byggingarsaga þessarar sundhallar er orðin nokkuð löng. — Fyrst var byggt hér á Þessum stað opin sundlaug, sem hitum var með kælivatni frá dísilvélum rafstöðvarinnar við Hvanneyrará. Var laugin rekin á þann hátt í nokkur ár.
Eftir að Skeiðsfossvirkjunin tók til starfa og dísilstöðin var lögð niður að nokkru leyti, var sundlaugarvatnið hitað upp með rafmagni og að nokkru leyti með olíu, og er svo enn...

Árin 1947-49 var hin opna sundlaug endurbyggð og lagður grundvöllur að fyrirkomulagi Sundhallarinnar, eins og hún er í dag..

Hér má sjá nokkrar athyglisverðar ljósmyndir, sem líklega eru teknar við endurvígslu úti sundlaugarinnar út í Bakka, sjá má að ýmsir útveggir á framtíðar Sundhöll eru í smíðum. Ártal kemur ekki fram í myndatextum, einungis eru nefnd orðin, vígsla á sundlaug.

Var sundlaugin rekin þannig sem opin sundlaug til ársins 1957, en þá sýndi sig að opin sundlaug gat ekki staðist ásókn vetrarveðurs og frosta og ekki nema um það tvennt að velja, að leggja sundlaugina niður eða byggja yfir hana, eins og fyrirhugað hafði verið. Bæjarstjórn Siglufjarðar var einhuga um að velja síðari kostinn og nú stöndum við hér í dag, eftir fjögurra ára starf við yfirbyggingu þessar sundlaugar, í glæsilegum salarkynnum, sem er Siglufirði til stórsóma og sem verða munu miðstöð líkamsræktar í framtíðinni…

Pistlahöfundur sem og eflaust margir aðrir Siglfirðingar eiga sér margar góðar íþrótta minningar úr Sundhöll Siglufjarðar. Ég á mér sterkar minningar frá vorinu 1967, en þá kenndi mamma mér að synda í Sundhöllinni.
Ég var þá nýorðin 5 ára og ekki langt í að fjölskyldan flytti úr kjallaraíbúð afa og ömmu á Hverfisgötunni í nýbyggt hús í suðurbænum. Amma Nunna, (Unnur Helga Möller) sá fyrir sér að hún myndi ekki mikið lengur geta haft auga á prakkarastráknum sínum alla daga, hann var vís til að fara sér að voða og detta í sjóinn ef hann kæmist nú óséður niður á bryggju… Þar af, var mömmu skipað að kenna mér að synda, það gekk bara vel og fljótt fyrir sig og eftir þetta varð ég mikið vatnadýr. Elskaði að synda í vötnum og sjó og æfði sund í Sundhöll Siglufjarðar í um 10 ár.

P.s. Amma Nunna hafði rétt fyrir sér, ég datt oft í sjóinn, en gat alltaf bjargað mér í land sjálfur.

Höfundur samantektar
og stafræn endurvinnsla á ljósmynda gæðum:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Margrét Steingrímsdóttir.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í greininni.