Tólistarskólinn á Tröllaskaga var með tvenna tónleika á Siglufirði þriðjudaginn 17. desember. Fyrst kom hópur ungmenna á Sjúkrahúsið á Siglufirði og skemmti þar eldri borgurum við góðar undirtektir. Síðan voru haldnir tónleikar í Siglufjarðarkirkju.
Þarna var hópur ungra tónlistarnema sem spilaði á allskonar hljóðfæri og söng falleg jólalög og eitt lagið var með frumsömdum texta. Ljóst er að Tólistarskólinn á Tröllaskaga nær að draga fram mikið af ungu efnilegu tónlistarfólki, framtíðin er björt með þessa flottu listamenn í skólanum.
Um 200 nemendur eru við nám í skólanum og er biðlisti til að komast í nám eins og staðan er núna. Vinsælustu námsgreinarnar eru gítar og söngur.
Skólinn starfar á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði. Tvennir tónleikar verða í dag í Víkurröst á Dalvík kl. 16:30 og 17:30 og eru það síðustu tónleikarnir fyrir jól. Alls verða tónleikarnir níu fyrir jólin á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði.
Hér að neðan eru nokkrar myndir af ungu listamönnunum sem teknar voru á Sjúkrahúsi Siglufjarðar.










