Það er svo skrítið hvernig heimþrá getur komist í mína brottfluttu Siglufjarðarsál í árstímabundum gusum. Maður getur allt í einu saknað hins merkilega samspils birtu og myrkurs sem einkennir vetramánuðina heima á Sigló. Þetta samspil sést ekki í stórborgum vegna ljósmengunar.
Hér heima í Gautaborg er veturinn mest blautur, með grámyglulegri þoku sem liggur yfir alla daga, það sést sjaldan til sólar. Rakinn í loftinu, samfara vestanvindinum gerir það að verkum að þrátt fyrir +5 gráður þá upplifir minn íslenski kroppur þetta eins og það sé -15 gráður. Þrátt fyrir næstum 33 ára viðveru hér í Götet er ekki hægt að venjast þessu. Maður getur hreinlega orðið úti við það eitt að bíða eftir sporvagninum. Í skrifandi stund er fallegt gluggaveður með mjúkri snjókomu sem bráðnar jafnóðum og hún lendir á grængrámyglulegri jörðinni.
Sænskir vinir sem heyra mig klaga yfir þessu, segja þá undrandi: En er þetta ekki ennþá verra þarna sem þú ert fæddur, þarna lengst norður í rassgati, tæpa 40 km frá norðurheimsskautsbauginum?
Nafnið á landinu gefur líka í skyn að það sé frekar kalt þarna… allt árið… ELLER ?
Nei, reyndar ekki… segi ég og fer síðan út í fræðimennskulegar útskýringar um áhrif Golfstraumsins og að þrátt fyrir að við Siglfirðingar sjáum ekki sólina frá miðjum nóvember fram til lok janúar, þá er maður ekki beinlínis stanslaust umliktur myrkri allan sólarhringinn. En vissulega verðum við Siglfirðingar svo glaðir, þegar blessuð sólin rétt kíkir loksins yfir fjallstoppana 28 janúar að við höldum pönnukökuveislu og skálum fyrir sólinni. Við vorum öll næstum farin að örvænta og trúa því að hún væri kannski búinn að gleyma okkur, eða bara látið sig hverfa endanlega eins og síldin. Hreinlega týnd og tröllum gefinn þarna á bak við fjöllin á norðurenda Tröllaskaga.
Mér hefur reyndar alltaf fundist að við Siglfirðingar búum í hvítri vetrarskál sem er full að mjúkum þeyttum rjóma. Fjörðurinn er fullur af skjannahvítum snjó, sem gefur okkur mikið og fallegt ljós í sálina, nægilega mikið til að lifa þetta af og við leggjum líka meira en margir aðrir í að lýsa upp tilveruna með jóla og áramótaljósum, flugeldum og tilheyrandi brennum.
Síðan reyni ég líka að lýsa þessu ólýsanlega sem liggur í sterkum minningum um að lifa í bláu vetrarljósi, sem blessað tunglið, gefur okkur á undurfögrum vetrarstillukvöldum.
Máninn er Siglfirskur varamaður sólarinnar.
Ef við bætum síðan dansandi litadýrð norðurljósanna inn í þessa nú þegar undurfögru umgjörð, þá getur hreinlega liðið yfir mann við að reyna að taka við þessari fegurð. Sem sólin, sem ekki sést, sendir okkur í formi heimsins flottustu diskóljósasýningu.
Það er vel við hæfi að hafa t.d. diskólagið „Love is in the air… everywhere I look around”… í huga þegar maður horfi agndofa á þessi dýrlegheit.
Reyndar sendir sólinn okkur þessa Norðurljósa sólstorma allan ársins hring, en það er fáum gefið að fá að sjá þessa merkilegu sólarguðsgjöf, þessari gjöf er mest beint til þeirra sem búa í fallegu alvöru norðurmyrkri.
Það eru reyndar líka til sýnileg “Suðurljós” kringum suðurpól jarðarinnar, en þar á enginn heima.
Sjá meira hér: Northern Lights VS Southern Lights: What is the Difference? Aurora Borealis / Aurora Australis.
Margir stórborgarbúar eru með Norðurljósaferðalög inn í alvöru myrkur norðursins á sínum „Bucket List“ , því borgarbúar, jafnt sem fuglar og önnur dýr líða fyrir alla þá ljósmengun sem nú hefur yfirtekið hálfan heiminn. Fólk veit varla hvað alvöru myrkur er lengur og sér hvorki náttúruna eða hvað þá stjörnuhiminn sem segir okkur að við búum á litlum viðkvæmum fallegum bláum bolta í óendanleika alheimsins.
Þessi alvarlega aftengin við náttúrulögmál lífsins gerir mann hálfruggaðan í hausnum og líklega er mín heimþrá og lögun í þetta sérstaka með Siglfirskt sólarljós líklega einnig tengd löngun eftir alvöru myrkri og þeirri staðreynd að myrkur er ekki bara grár eða svartur massi sem leggst yfir mann eins og mara. Því ef þú opnar augun þá eru margskonar ljós og litir í myrkrinu.
Þetta er sérstaklega áberandi heima á Sigló.
Sem dæmi um þessa aftengingu sem jaðrar við heimsku og lýsir vel ókunnáttu stórborgarbúa um undur alheimsins, get ég nefnt að elskulegur bróðir minn sem leigir stundum út íbúðir til túrista, sagði mér eftirfarandi skrítnu sögu. Amerískur túristi bankar upp hjá gestgjafanum og truflar hann í miðjum kvöldverði á björtu sumarkvöldi um miðjan júlí. Kröfuharður túristinn er ekkert að biðjast afsökunar á að trufla og spyr forviða og pirraðan bróður minn:
HVENÆR BYRJA NORÐURLJÓSIN?
Hmm…🧐
Við kveikjum á þeim klukkan 22.00 og svo skellti hann bara hurðinni á Ameríska stórborgar hálfvitann.
Íslensk vinkona mín spurði mig, Gautaborgar grámygludapran vin sinn, um daginn hvort að ég vildi ekki bara hitta hana á Tenerife og fá smá sólskin á fölan kroppinn.
Ég var fljótur að svara og sagði: Nei takk, þar er ekkert nema táfýla og ekki hægt að þverfóta fyrir fólki sem er upptekið við að taka myndir af tánum á sér og ég þarf sko alls ekki á því að halda að hitta fullt af Íslensku nöldrandi veðurfarsflóttafólki.
Svo reyndi ég að útskýra mína heimþrá og löngun eftir Sigló vetrarsólskini og fallegu litríku myrkri, en tókst það ekki…
… hún er ekki frá Siglufirði.
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðu ljósmynd: Ingvar Erlingsson
Heimildir:
Vitnað er í ýmsar heimildir gegnum slóðir í greininni.
Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON