Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg sendi frá sér fréttatilkynningu í gærkvöldi og segir þar.
“Stjórn Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg (SSS) ákvað í dag að fresta alþjóðlega fjallaskíðamótinu Super Troll Ski Race fram á næsta ár vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Ákvörðunina var ekki auðvelt að taka þar sem mótið er ein helsta fjáröflun barna- og unglingastarfs SSS og hafði verið haldin fimm ár í röð. Hins vegar eru aðstæður orðnar slíkar með snjóalög á norðanverðum Tröllaskaga og með öryggi og mögulega ánægjuupplifun þátttakenda í huga, telur stjórn SSS ekki tækt að halda mótið þetta árið. Verndari mótsins og ráðgjafar að mótsnefnd styðja þessa ákvörðun.
Stjórn SSS þakkar styrktaraðilum, öllum þeim sem nú þegar eru skráðir á mótið, þeim sem stefndu að því að skrá sig á mótið og þeim sem að undirbúningi mótsins hafa komið, kærlega fyrir. Við biðjumst velvirðingar á óþægindunum sem þessi ákvörðun kann að hafa og munum hafa samband við þá sem nú þegar hafa greitt mótsgjald.
Árið 2020 heldur SSS uppá aldarafmæli sitt og vonumst við að sjá sem flesta ykkar það ár þegar sjötta alþjóðlega fjallaskíðamótið Super Troll Ski Race verður haldið.
Virðingarfyllst fyrir hönd SSS,
Jón Garðar Steingrímsson.”