Súrnun sjávar er alvarleg ógn við lífríki hafsins, sem ein og sér kallar á minnkun losunar út í andrúmsloftið, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra á viðburði um súrnun sjávar sem haldinn var á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26). Eina lausnin sem ráðist að rótum vandans sé að draga úr losun koldíoxíðs í samræmi við leiðsögn Parísarsamningsins.
Ráðherra hélt opnunarávarp í gegnum fjarfund á viðburðinum, sem fjallaði um súrnun sjávar í Atlantshafi, Eystrasalti og á Norðurslóðum. Hann sagði hop jökla á Íslandi vera sýnilega birtingarmynd loftslagsvárinnar, en ósýnilegar breytingar séu ekki síður áhyggjuefni. Áhrif loftslagsbreytinga á höfin væru ekki minni en á lofthjúpinn og land. Súrnun sjávar væri lúmsk og hægfara ógn við lífríkið í höfunum, sem geti valdið gífurlegum skaða ef ekkert er að gert.
Nær hvergi sé súrnun sjávar hraðari en í hafinu norður af Íslandi.
Svæði á hafsbotni þar sem skeldýr og aðrar lífverur þrífist fari minnkandi. Vandinn fari versnandi með tímanum og geti haft áhrif á allt vistkerfi sjávar síðar á öldinni. Vísindamenn hafi varað við því að súrnun geti haft neikvæð áhrif á þorsk í N-Atlantshafi og fleiri nytjastofna síðar á öldinni. Sagði ráðherra íslensk stjórnvöld nýlega hafa eflt rannsóknir á afleiðingum súrnunar á lífríki hafsins við Ísland. Brýnt sé að segja frá þeirri ógn sem súrnun sjávar er, því hún bætist við annan vanda sem losun kolefnis veldur.
Mynd: XL Catlin Seaview Survey/Macrae/PA