Svar hefur borist frá Fjallabyggð við bréfi sem Eining-Iðja afhenti sveitarstjórum eða staðgenglum þeirra á félagssvæðinu til að koma á framfæri þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem vinna hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu. Einnig fór félagið fram á það að sveitarfélögin greiði starfsfólki sínu sem starfa eftir samningi SGS slíka innágreiðslu þann 1. ágúst að upphæð kr. 105.000 m.v. 100% starf þann 1. júní sl. og hlutfallslega fyrir lægra starfshlutfall.

Bæjarráð samþykkti að óska eftir umsögn deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar um málið.

Eftirfarandi var bókað á 612. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar þann 9. júlí.  

1907003 – Staðan í kjaramálum félagsmanna Einingar-Iðju sem vinna hjá sveitarfélögum í Eyjafirði

Lagt fram erindi Björns Snæbjörnssonar formanns Einingar Iðju, dags. 02.07.2019 varðandi stöðu í kjaramálum félagsmanna Einingar-Iðju sem vinna hjá sveitarfélögum í Eyjafirði. SGS vísaði deilunni til Ríkissáttasemjara þann 28. maí sl. og er næsti fundur áætlaður 21. ágúst nk.
Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu samið við önnur félög og sambönd um frestun viðræðna og friðarskyldu til 15. september nk. og samið hefur verið um innágreiðslu upp á kr. 105.00 fyrir 100% starfshlutfall. Ríkissáttasemjari hafði milligöngu fyrir SGS um hvort slíkt stæði félagsmönnum Einingar-Iðju til boða en fékk neitun þar sem deilunni hafði verið vísað til sáttasemjara.
Í ljósi þess að félagsmenn Einingar-Iðju sem starfa eftir samningi SGS eru einu starfsmenn sveitarfélaga sem ekki fá innágreiðslu 1. ágúst nk. fer Eining-Iðja fram á það að sveitarfélög greiði starfsfólki sínu sem starfar eftir samningi SGS slíka innágreiðslu þann 1. ágúst, kr. 105.000 fyrir 100% starfshlutfall þann 1. júní sl. og hlutfallslega fyrir lægra starfshlutfall.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir umsögn deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar.