Um Svifflugfélag Siglufjarðar 1939-1942
Sverrir Páll Erlendsson tíndi saman
Lengi hefur manninn dreymt um að fljúga eins og fuglinn frjáls um loftin blá. Á okkar tíma er flug afkastamesta flutningaleið fólks milli staða, landa og heimsálfa, en þó er ekki nema um það bil öld síðan slík starfsemi hófst. Það var á fyrstu árum 20. aldar sem Wright-bræður í Bandaríkjunum gerðu hverja tilraunina af annarri með að láta einhvers konar vængjað tæki fljúga með mann. Fyrst var þar um að ræða einhvers konar svifflugur, en brátt tóku þeir bræður að koma fyrir mótorum til að knýja flugförin. Þróunin tók sinn tíma og talsvert var brotlent á leiðinni, en það mun hafa verið 1919 sem mönnum tókst að fljúga yfir Atlantshafið, frá Nýfundnalandi til Galway á Írlandi. Þar voru á ferð tveir breskir flugmenn á herflugvél. Stríðið ýtti nefnilega snarlega við þróun þessarar tækni beggja vegna Altantsála þegar mönnum varð ljóst hernaðarlegt gildi þess að fljúga. Og stríðin urðu fleiri og þróunin kom í stökkum. Það er annað mál. Kunnustu flugmenn í fyrstu Atlantshafsferðunum voru Charles Lindbeg 1927, og fyrsta konan sem flaug þetta var Amelia Erhart, 1932. En löngu áður dreymdi menn drauma um svona ferðalög. Varðveittar minjar á menningarsvæðum forna heimsins, málaðar eða ristar í stein, sýna menn með vængi, goðsagan segir líka frá Íkarusi með vaxborna fjaðrahaminn sem eyðilagðist af hita sólarinnar þegar hann flaug alltof hátt og í norrænni goðafræði eru fjaðurhamir notaðir, til dæmis í Þrymskviðu. Við megum ekki gleyma snillingum sem voru jafnt listamenn og verkfræðingar eins og Leonado da Vinci, sem útfærði hugmynd að vængjum sem maður gæti notað til að láta sig svífa hátt yfir jörð, reyndar eins konar mannknúinni flugvél. Þetta var um 1485. Menn höfðu snemma háleitar hugsjónir.
Íslendingar byrja býsna snemma að reyna fyrir sér í flugi. Árið 1919 er stofnað fyrsta félagið sem bar nafnið Flugfélag Íslands. Það átti breska Avro-vél og stóð fyrir útsýnisflugi í tvö sumur en var lagt niður 1920. Árið 1928 var aftur stofnað Flugfélag Íslands og það stundaði farþegaflug milli Reykjavíkur og Akureyrar og jafnframt síldarleitarflug á árunum 1928-1931. Þá kom hlé í flugsöguna, en árið 1937 var stofnað Flugfélag Akureyrar sem notaði Wacko-vélina Örninn í póst- og farþegaflutningum milli Akureyrar og Reykjavíkur. Í mars 1940 var ákveðið að breyta nafni félagsins í Flugfélag Íslands, sem í raun er enn starfandi enda þótt á síðustu árum hafi hið gamla góða nafn þess verið látið víkja fyrir illskiljanlegum enskum orðum sem einhverjum mönnum þykja heppileg fyrir útlendinga.
Svifflug á Íslandi
Þessi þrjú Flugfélög Íslands hafa einvörðungu snúist um vélflug, notað mótordrifnar flugvélar. Á svipuðum tíma og vélflugið var reynt tóku Íslendingar að melta með sér hugmyndir um svifflug, flug án mótora. Svifflug var talið til íþrótta og ungir menn og einstöku ungar konur, svo og ungmennafélög, eru í fararbroddi þessa flugs hér á landi. Þetta hafði verið stundað erlendis um eitthvert árabil. Í heimildum er sagt frá því að Þjóðverjinn Otto Liliendahl hafi árið 1895 komið sér upp tæki sem hann gat látið sig svífa á í stundarkorn og vestanhafs mun Orwille Wright hafa náð að halda sér svífandi á vængjum í allt að 10 mínútur, það var árið 1911.
Fyrstu tilraunir til svifflugs voru gerðar í Reykjavík 1931, þegar bræðurnir Geir og Indriði Baldurssynir smíðuðu renniflugu, sem dregin var á loft með bíl, en það gekk í brösum og flugan brotlenti og eyðilagðist. Fyrirmynd þeirra munu hafa verið ljósmyndir. Svipaða sögu er að segja af Halldóri Magnússyni á Ísafirði, sem reyndi að fljúga renniflugu sem hann smíðaði þar vestra 1933, en hann brotlenti líka. Hann mun einnig hafa gert tilraun með að taka sigá loft á skíðastökkpalli með einhvers konar vængjum, en það fór líka í handaskolum.
Bræðurnir Geir og Indriði útveguðu sér nú teikningar af renniflugu vestan frá Kanada og unnu við að koma henni saman á árunum 1931 til 1936. Hún var af gerðinni Northrop Glider (yfirleitt nefnd Zögling) og var þannig drifin á loft að menn héldu í hana aftanverða en aðrir röðuðu sér á teygjur og hlupu fram og til hliðar og strengdu á teygjunum sem þeir máttu uns sleppt var að aftan og flugan skaust (oftast) á loft.
10. ágúst 1936 var stofnað Svifflugfélag Íslands í Reykjavík. Þá var Agnar Kofoed Hansen nýkominn heim frá flugnámi í Danmörku, en hann hafði jafnframt kynnt sér svifflug þar í landi og var einn af flugmönnunum á renniflugu þeirra bræðra Geirs og Indriða þegar henni var fyrst flogið í janúar 1937. Agnar kemur afskaplega víða við sögu flugs á Íslandi, meðal annars hjá Flugfélagi Akureyrar og Flugfélagi Íslands. Og hann á drjúgan þátt í því að 9. apríl 1937 var stofnað Svifflugfélag Akureyrar. Það félag átti Grunau 9 renniflugu, sem enn er varðveitt í Flugsafni Íslands.
Fyrstu svifflugur á Íslandi voru svonefndar renniflugur. Á þeim voru ekki hjól heldur kjölur, einna líkastur stórum sleðameiði. Á þessum kili var komið fyrir sæti fyrir flugmann og þverspýtu fyrir fætur hans. Auk þess voru festar á kjölinn stangir sem tengdu hann við vængi, klædda lökkuðum léreftsdúk og sambærilegu stéli með stýri, sem flugmaðurinn gat stjórnað með skafti. Eitthvað var um að svona renniflugur væru dregnar á loft með bíl, en algengara var að notast við teygjur. Til er teikning Agnars Kofoed Hansen af því hvernig skjóta skuli renniflugu á loft með teygjum:
Þarna sést að flugkennari fylgist með til hliðar, menn halda í stél vélarinnar, flugmaðurinn situr fremst á flugunni en menn raða sér á teygjurnar og hlaupa með þær fram og til hliðar og þegar er fullstrekkt sleppa menn stéltakinu og flugan rennur af stað og tekst á loft.
Þessi Northrop Glider, eða Zögling rennifluga bræðranna var notuð í Vatnsmýrinni árið 1937, en eftir að Geir og Indriði höfðu smíðað renniflugu af Grunau 9 gerð var Zöglinginn seldur til Siglufjarðar, eitthvað laskaður, eins og síðar kemur fram.
Svifflug á Siglufirði
Siglfirðingar hafa greinilega verið með á nótunum og fylgst með því sem var að gerast í heimi flugmálanna. Í blaðinu Brautinni á Siglufirði, sem sem gefið var út af Siglufjarðardeild Kommúnistafélags Íslands og ber á forsíðu einkennisorðin „Öreigar allra landa sameinist!“ birtist 13. febrúar 1937, mánuði eftir fyrsta flug á þessum Zögling í Vatnsmýrinni grein, ómerkt, svohljóðandi:
Síðastliðið vor, var fyrir forgöngu Agnars Kofoed-Hansens flugmanns, stofnað í Reykjavík svifflugfélag. — Nú hafa verið smíðaðar, að tilhlutun félagsins, tvær skólaflugvélar og hefir kennsla þegar verið hafin. Reyndust þær ágætlega og má gera sér góðar vonir um þessar tilraunir. Svifflug er nýtísku íþrótt og hefur rutt sér mjög mikið til rúms upp á síðkastið. Skilyrði til svifflugs eru talin óvenju góð hér á landi, og er þess að vænta að starfsemi svifflugfélagsins sýni brátt mikinn árangur.
Svifflugvél er hreyfillaus flugvél, sem kippa þarf á loft með handafli eða hreyfli, en getur síðan svifið í lofti, með hjálp hitauppstreymis og annara lofthreyfinga. Svifflugvélar þessar geta komist i fleiri þúsund metra hæð og hafa farið fleiri hundruð kflómetra vegalengdir.
Það er óhætt að fullyrða að svifflugið sé göfugasta og tilkomumesta íþróttin, sannkölluð íþrótt íþróttanna. Siglfirzkur æskulýður óskar þess af heilum hug að Svifflugfélagi Reykjavíkur takist giftusamlega brautryðjandastarf sitt, svo að þessi íþrótt geti orðið sameign íslenzku æskunnar.
Það er greinilegur eldmóður í þessari grein og enginn vafi á því að höfundur hefur drukkið í sig fróðleik um þessa nýjung og dregur hvergi af lýsingum á hæfni þessara farartækja og telur þetta verða eftirsóknarverða íþrótt.
Í Brautinni 13. október 1938 birtist svo grein Sigtryggs Helgasonar, þar sem hann gerir grein fyrir því að fátt hafi gerst í flugmálum á Íslandi fyrr en með komu Agnars Kofoed Hansen til Reykjavíkur og þar hafi verið stofnuð flugmálafélög og þar séu stundaðar flugæfingar. Þá hafi og verið stofnað svifflugfélag á Akureyri og þar sé ein skólafluga. Sigtryggur heldur áfram og segir:
Hér á Siglufirði hefir þessum málum ekki verið hreyft, þar til í vor, er Ungmennafélag Siglufjarðar setti nefnd til þess að athuga um stofnum flugmálafélags innan félagsins, eða svifflugfélag.
Nú hefir verið ákveðið að hefjast handa um stofnum svifflugflokks hér á Siglufirði og var í því skyni haldinn kynningarfundur um svifflug í Alþýðuhúsinu í gærkvöld. Þar var ákveðið að halda á næstunni stofnfund svifflugfélags og er þess vænst, að þeir sem áhuga hafa á málinu leggi fram krafta sína því til stuðnings í framtíðinni.
Enginn íþrótt er eins til þess fallin og svifflugið, að efla félagsanda og andlega og líkamlega heilbrygði og ekki er óhugsandi, að Siglufjörður sem er þekktur að því að eiga bestu skíðamenn landsins, geti einnig í framtíðinni eignast sína afburða svifflugmenn.
Það er augljóst að hér er blásið til sóknar, og ungmennafélagið beitir sér fyrir því að taka upp þessa nýju íþrótt. Og í október 1938 hefur verið haldinn kynningarfundur (hugsanlega 12. október, hafi blaðið komið út daginn eftir). Í lokaorðum Sigtryggs er augljós sú trú að svifflugið sé göfugast allra íþrótta og Siglfirðingar verði bestu flugmenn landsins eins og þeir séu afburða skíðamenn.
Svifflugfélag Siglufjarðar stofnað
Það gerist svo á Hótel Hvanneyri sunnudaginn 5. febrúar 1939 að haldinn er lokastofnfundur Svifflugfélags Siglufjarðar. Í fundargerð kemur fram að stofnendur hafi verið 11 talsins. Í fyrstu stjórn félagsins voru Sigtryggur Helgason formaður, Gísli Þorsteinsson ritari, og Þórður Guðmundsson gjaldkeri. Varamaður var kosinn Guðmundur Einarsson. Endurskoðendur voru kjörnir Benedikt Einarsson og Óskar Garibaldason, en Magnús Ásmundsson til vara.
Lög Svifflugfélags Siglufjarðar voru samþykkt og færð til bókar á stofnfundinum. Auk þess var rætt um margvísleg mál, meðal annars um starfsáætlun félagsins og félagsgjöld. Ekki hafa menn verið á eitt sáttir þar og því ákveðið „að stjórn semji starfskostnaðaráætlanir fyrir næsta árið, ennfr. að koma með tillögur um meðlimagjöld.“
Undir lögin í gjörðabók skrifa:
Samþykkir lögum félagsins:
Sigtryggur Helgason | Gísli Þorsteinsson |
Benedikt Einarsson | Sigurgeir Jóhannesson |
Magnús Ásmundsson | Þórður Guðmundsson |
Ásmundur Þorsteinsson | O. Garibaldason |
Sveinn Ásmundsson | Jóhannes Jósefsson |
Gunnar Elíasson | Evert Þorkelsson |
Aage Johansen | Ásm. Jónsson |
Sigurpáll Aðalsteinsson | Hulda |
Ingvi Brynjar Jakobsson | |
Indriði Pálsson | |
Kurt Sonnenfeld |
19 manns rita undir og samþykkja lög félagsins, þannig að nokkrir félagar til viðbótar þeim sem á stofnfundinum voru hafa undirritað og samþykkt þau síðar. Athygli vekur að nafn Guðmundar Einarssonar, varamanns í stjórn, er ekki skráð undir lögunum. Þar er síðust skráð Hulda án eftirnafns. Það er væntanlega Hulda Sigurhjartardóttir, önnur tveggja kvenna í félaginu sem stunduðu flug á Siglufirði.
Mánudaginn 20. febrúar 1939 er haldinn annar fundur á Hótel Hvanneyri. Þar koma fram tillögur stjórnar um inntökugjald 10 kr. og árstillag 48 kr. Þá var lagt til að til þess að öðlast kennslu hjá félaginu þyrfti hver meðlimur að skila 60 stunda vinnu eða greiða gjald sem því nemi. Þá voru kosnar tvær fjáröflunarnefndir og fyrir þeim fóru Sigtryggur Helgason og Guðmundur Einarsson.
Á fundinum hefur verið rætt um að smíða flugvél því þar var samþykkt tillaga frá stjórn um að fá efni til smíðanna svo mætti byrja verkið 15. október. Þá lagði Benedikt Einarsson til að fengin yrði bankatrygging fyrir efniskaupum.
Fátt er í gjörðabók stjórnar um starfsemina, aðallega eru það lög, reglur og framkvæmdir, sem um er rætt. Þann 9. apríl 1939 er fundur þar sem Hr. Hallgrímur hefur komið norður til að gera grein fyrir starfi Svifflugfélagsins í Reykjavík og gefið góð ráð um aga, nákvæmni og vandlega ígrunduð byrjunarstörf í svona félagi. Hér mun átt við Hallgrím Hallgrímsson, sem 25. júní 1939 skrifaði grein um svif- og renniflug í Morgunblaðið. Hann sagði þar meðal annars:
Íþrótt — eða atvinnumál.
Þjálfun í svifflugi er að vísu góð og gagnleg hverjum flugmanni (jafnvel sumstaðar heimtuð af þeim), en þó ekkert óhjákvæmilegt skilyrði. Fyrir oss er svifflugið íþrótt og ekkert annað, íþrótt, sem vjer stundum oss til ánægju og uppbyggingar, íþrótt, sem er svo heillandi og seiðmögnuð, að oss finst engin leið að hugsa til þess að hætta, og hin mikla vinna og erfiði, sem henni er samfara, er af hendi leyst með glöðu geði, því hver sekúnda í loftinu virðist oft ríkuleg laun fyrir e. t. v. stundar erfiði. Svifflugið þjálfar eftirtekt, nákvæmni og sjálfsstjórn. Ef vel skal fljúga, má fátt út af bera: Engar óþarfa hreyfingar, ekkert fum eða pat, aðeins róleg gát á öllu, sem máli skiftir, og örugg stjórn. öll vinna á flugstað er breytileg hreyfing, mjög ákjósanleg og holl hverjum þeim, sem mikið vinnur innanhúss.
Ýmsir hafa spurt mig, hvort svifflugið sje ekki „yfirstjettarsport“, og er óhætt að svara því hiklaust neitandi. Flestir meðlimir Svifflugfél. Ísl. eru verkamenn eða verslunarmenn. Þeir greiða hið allháa gjald til fjelagsins af takmörkuðum launum sínum og verða þá oft að neita sjer um sitt hvað annað. Makráðir hóglífismenn myndu ekki þýðast hið mikla erfiði, sem svifflugmenn leysa af hendi, og áhugaleysingjar heltast fljótt úr lestinni. Fjelag vort er opið hverjum manni eða konu, sem slást vilja með í hópinn og leggja vilja undir sig loftin blá. Það er að vísu ekki aðeins broshýr sólarlönd, ljómandi æfintýri, frægð og frami. Menn verða margt á sig að leggja, — en „launin færðu á himnum”, eins og karlinn sagði.
H. Hallgrímsson
Sunnudaginn 17. desember 1939 er haldinn fundur þar sem gerð er grein fyrir því að félaginu bjóðist að kaupa renniflugvél. Þá er ljóst að horfið hefur verið frá því að smíða vél frá grunni, eins og til stóð samkvæmt hugmyndum um efniskaup áður. Formanni var falið að hafa samaband við Indriða Baldursson og staðfesta kaupin.
Næsti fundur stjórnar er aðalfundur, haldinn föstudaginn 8. mars 1940, 13 mánuðum eftir stofnun félagsins. Auk skýrslu formanns um starfsárið og greinargerð fyrir reikningum, sem vel var tekið, voru gerðar fáeinar lagabreytingar, meðal annars um flugbann á þá sem ekki greiða gjöld til félagsins og að ráðinn verði æfingastjóri sem stjórni öllu á flugstað og geti vísað óæskilegu fólki brott. Þá er talað um að flugkennari hafi tillögurétt á stjórnarfundum en ekki atkvæðisrétt. Þá var samykkt tillaga Sveins Ásmundssonar og Þórðar Guðmundssonar um hámarksfjölda virkra notenda þeirrar flugu sem félagið átti, 25 manns.
Í stjórnarkjöri voru formaður, Sigtryggur Helgason, og gjaldkeri, Gísli Þorsteinsson endurkosnir en Hulda Sigurhjartardóttir nýr gjaldkeri og Sveinn Ásmundsson meðstjórnandi.
Loks segir í fundargerð:
Tillaga kom fram frá Vigfúsi Friðjóns og Magga Ásmunds og fleirum þess efnis hvort menn væru því ekki samþykkir að fundarmenn fengju sér kaffisopa, var þeirri tillögu vel tekið og settust menn að kaffidrykkju allir auðsjáanlega með þeim ásetningi að nota sér það sem fram yrði reitt. Kaffidrykkjan fór hið besta fram og skemmtu menn sér eftir föngum.
Miðvikudaginn 16. september er stjórarfundur á Hótel Hvanneyri og rætt um vetrarstarfið. Greinilegt er að flogið hefur verið um sumarið en talið er aðkallandi að byggja yfir fluguna til að verja hana veðrum. Þó hefur hún verið notuð í snjó, eins og sjá má á myndum, og reyndar aðallega á vetrum, eins og síðar kemur fram. Á þessum fundi var rætt um að byggja flugskýli í Leyningi, við rætur Skarðsdals. Óljóst var með efnisöflun. Á fundinum var líka samþykkt 10 króna inntökugjald í félagið.
Skömmu síðar, 15. nóvember 1940, er fundur stjórnar og gerð grein fyrir því að búið sé að hlaða veggi skýlisins en ekki verði unnt að ljúka því að þekja það fyrir veturinn og því þurfi að finna geymslustað fyrir vélina í bænum yfir veturinn.
Óljóst er hvað nú tekur við hjá félaginu. Næsta færsla í gjörðabók, og reyndar sú síðasta, er skráð 8. mars 1942, þá er aðalfundur. Lítið virðist hafa gerst í félagsstarfinu í rúmt ár. Formaður gerir í ársskýrslu grein fyrir því að búið sé að hlaða veggi skýlisins (það kom reyndar líka fram á nóvemberfundinum 1940) og kaupa efni fyrir 2/3 af þaki. Sagt er frá hlutaveltu, þar sem söfnuðust rúmar 130 krónur og á árinu hafi verið aðeins þrjár æfingar, aðallega vegna vandræða með geymslupláss fyrir vélina.
Eitthvað er óljóst með reikninga félagsins, gjaldkeri er ekki á fundinum en upplýst um góða stöðu félagsins og nýjum gjaldkera falið að ganga frá reikningum. Ef til vill hefur fyrri gjaldkeri verið fluttur úr bænum. Teknir eru inn fjórir nýir félagar, meðal annarra Kurt Sonnenfeld tannlæknir.
Kosin var ný stjórn. Gísli Þorsteinsson var kjörinn formaður, Evert Þorkelsson ritari og Sveinn Ásmundsson gjaldkeri. Nýr formaður þakkaði traustið og hvatti nýjan gjaldkera til að taka á við innheimtu gjalda og að ganga frá reikningum félagsins.
Kurt Sonnenfeld og Daníel Daníelsson læknir hvöttu til þess að lækka félagsgjöld því margir treystu sér ekki til að greiða há gjöld en vildu gjarnan vera í félaginu. Samþykktar voru breytingar þannig að í stað 48 króna var meðlimagjald 35 krónur fyrir 17 ára og eldri en 15 krónur fyrir þá sem yngri eru en inntökugjald lækkar úr 10 í 5 krónur.
Kurt Sonnenfeld lagði til að athugað væri hvort mætti fá leigðar notaðar svifflugur frá Englandi, því þar væri orðið bannað að fljúga vegna stríðsins. Sigtryggur Helgason lagði til að haft yrði samband við Örn Jóhannsson (svo ritað í gjörðabók en trúlega átt við Örn Johnsson) flugmann sem sé kunnugur öllum flugvélakaupum og hafi trúlega útvegað Akureyringum þá vél sem þeir séu að fá. (Samkvæmt upplýsingum Braga Snædal hjá Svifflugfélagi Akureyrar kom allt efni í Grunau 9 svifflugu félagsins frá Þýskalandi fyrir milligöngu Agnars Kofoed Hansen, en Örn kom ekki þar við sögu.)
Fleira er ekki fyrir tekið á þessum aðalfundi Svifflugfélags Siglufjarðar og ekki til neinar frekari skráningar um starfsemi eftir þetta eða starfslok, og lýkur fundargerðum.
Hér hefur verið gripið á helstu færslum í fundagerðabók Svifflugfélags Siglufjarðar. Henning Bjarnason flugstjóri fór fyrir fáeinum árum að grafast fyrir um sögu þessa félags, sem hann mundi eftir frá því í bernsku, en hann var á aldrinum 7-10 ára þegar starfsemin var á Siglufirði. Hann hafði þá séð eitthvað af þessum flugtilraunum og hver veit nema það hafi átt einhvern þátt í því að hann gerði flug að ævistarfi sínu. Í leit sinni að upplýsingum um þetta gamla svifflugfélag hafði hann uppi á gjörðabók stjórnar félagsins hjá ekkju Sveins Ásmundssonar, eins af stofnendum fæélagsins. Hann kom bókinni til varðveislu á Skjalasafni Siglufjarðar hjá Óla J. Blöndal, sem var safnstjóri. Löngu síðar, þegar finna átti heimildir um félagið, fannst ekki þessi góða bók. Það brá svo við haustið 2018 að bókin barst Skjalasafninu á Siglufirði með öðrum gögnum úr dánarbúi Gísla Þorsteinssonar, sem var fyrsti ritari og síðar formaður félagsins. Má ætla að Gísli hafi fengið bókina lánaða á safninu en ekki náð að skila henni. En bókin er fundin og varðveitt á safninu.
Meira um svifflug á Siglufirði
Frekari heimildir um svifflug á Siglufirði eða sarfsemina sjálfa, flugið og allt það, er ekki að finna í bréfum, blöðum eða skráðum heimildum. Samkvæmt gjörðabók eru stofnfélagar ellefu talsins en félögum hefur fljótlega fjölgað þannig að settar eru reglur um hámarksfjölda þátttakenda. Félagatal er ekki til utan nafnalista undir lögum félagsins, sem áður er getið og víðbótum síðar í fundargerðum. Keypt er notuð rennifluga frá Reykjavík og henni flogið eftir atvikum í 2-3 ár en saga félagsins endar án þess vitað sé hvers vegna. Þó er vitað að renniflugan skemmdist því sjónarvottar vissu af henni brotinni í geymslu á Siglufirði. Flogið var nálægt fjarðarbotni og félagar voru þegar síðast var langt komnir að byggja flugskýli svo ekki þyrfti að drösla vélinni í geymslu í bænum ef illa viðraði.
Aðrar upplýsingar um starfsemi Svifflugfélags Siglurfjarðar er helst að hafa i 4. bindi Annála íslenskra flugmála eftir Arngrím Sigurðsson, en þar styðst hann við frásögn Sigryggs Helgasonar gullsmiðs á Akureyri sem var fyrsti formaður Svifflugfélags Siglufjarðar. Einnig er hér höfð hliðsjón af samantekt Sævars Þ. Jóhannessonar, en hann átti ásamt Henning Bjarnasyni flugstjóra frá Siglufirði fund með þremur fyrrum félögum í Svifflugfélaginu.
Samkvæmt frásögn Sigtryggs hófst starfsemi félagsins haustið 1939 þegar keypt var Zögling vél Indriða og Geirs Baldurssona frá Reykjavík á 700 krónur. Indriði kom norður með vélinni og aðstðaði við að lagfæra hana, en hún var nokkuð löskuð eftir flugævintýrin í Vatnsmýrinni. Viðgerð fór fram í Alþýðuhúsinu, margir sjálboðaliðar lögðu hönd á plóginn, en nokkrir félagsmanna voru trésmiðir svo verkið hefur gengið vel. Talið er að upphaflega hafi sunnanmenn notað rangt lím við að setja fluguna saman, svo samskeytin héldu ekki. Siglfirðingar tóku það ráð og bolta samkeytin, en við það þyngdist vélin talsvert og flughæfni hennar minnkaði. Greinilegt er þó að eitt mesta vandamál við flugið á Siglufirði var að flugaðstaðan var við botn fjarðarins og flugskýli vantaði þar, svo ekki þyrfti að flytja vélina til geymslu í bænum þegar hún var ekki í notkun.
Fyrstu æfingar í flugi fóru fram í byrjun ársins 1940. Indriði Baldursson var þá enn á Siglufirði og leiðbeindi við flugið, Síðar tók Gísli Þorsteinsson við leiðbeinandastarfinu, hann var trésmiður og í upphafi ritari félgsins og síðar formaður. Flugferðir urðu aldrei langar né flogið hátt. Í bréfi til Hennings Bjarnasonar, fyrrverandi flugstjóra (11.01.1981) sgir Kurt Sonnenfeld tannlæknir um fluguna: „Hún var of þung vegna þess að öll samskeyti voru límd og negld.“
Notaðar voru teygjur við að koma Zöglingnum á loft. Þórður Guðmundsson vélsmiður bjó til tæki sem var kallað „íhaldsmaður“ og var haft til að halda vélinni fastri að aftan, til að spara mannskap og allir viðstaddir gætu raðað sér á teygjurnar. Flugmaðurinn gat svo aftengt „íhaldsmanninn“ og flugan rann af stað. Notast var við brekkur og hóla inni í firðinum, fyrst brekku sunnan við skíðastökkpallana skammt frá Steinaflötum og svifið til vesturs út á Leirurnar, og síðar hjá Hóli, en þá var hægt að svífa dálítinn spöl til norðurs, þar sem nú er flugvöllur. Þarna var bæði þröngt og landlítið og Sigtryggur sagði að ætlunin hafi verið að færa starfsemina út á Siglunes, en félagið lognast út af áður en það kæmist í verk og flugan brotnað illa, áhuginn minnkað og frumherjarnir margir fluttir brott. Sigtryggur taldi að félagið hefði starfað í um það bil 3 ár.
Sú saga hefur komist á kreik að Siglfirðingar hafi svifið á Zögling fram af skíðastökkpöllunum, sem eru í grennd við flugstaðina. Það mun vera alrangt og engar heimildir fyrir því. Slíkt hafði reyndar verið prófað á Ísafirði með afar slæmum árangri. Undirlendi er mjög lítið þar sem flugæfingarnar fóru fram svo þetta hefur trúlega verið lágt svif og lending, aldrei farið upp í neina umtalsverða hæð, eins og sagt var frá í draumkenndum hvatningargreinum í aðdraganda stofnunar félagsins.
Samkvæmt frásögnum flugfólks var nánast eingöngu flogið á sunnudögum á vetrum, enda var 6 daga vinnuvika, og þær myndir sem til eru af renniflugunni á Siglufirði eru teknar í snjó. Á sumrin hafði enginn tíma til að fljúga því þá voru allir á bólakafi í síld.
Sævar Þ. Jóhannesson og Henning Bjarnason hittu að máli Önnu Samúelsdóttur og Huldu Sigurhjartardóttur, sem báðar tóku þátt í fluginu og Vigfús Friðjónsson eiginmann Huldu, sem einnig var í félaginu. Hulda hafði félagsskírteini númer 10 og fyrstu þrjár flugferðir sínar fór hún 17. mars 1940. Alls eru skráðar í bók hennar 10 flugferðir. Þessi „logbók“ er væntanlega ásamt fleiri gögnum frá Huldu og Vigfúsi í dánarbúi Orra Vigfússonar, sem nýverið féll frá. Má vera að fleira komi í ljós um starfsemi félagsins ef þau gögn koma fram..
Ekki er vitað um fleiri flugdagbækur félaga í Svifflugfélagi Siglufjarðar. Hins vegar flaug Anna Samúelsdóttir líka nokkrar ferðir og það var minnisstætt að einhverju sinni lenti hún harkalega og „tortubrotnaði“. Vera má að þetta rófubeinsbrot Önnu hafi verið fyrsta flugslysið á Íslandi og ekki ótrúlegt að Hulda og Anna séu fyrstu, að minnsta kosti með fyrstu flugkonum landsins.
Í frásögnum þeirra og Vigfúsar kemur fram að flugferðirnar hafi ekki verið langar né flogið hátt, hver ferð hafi varað í fáeinar mínútur. Aðstæður voru ekki ákjósanlegar, ýmist lognpollur í fjarðarbotninum eða misvindasamt, og undirlendi er þarna lítið. Auk þess hefði iðulega þurft að bíða af sér él, svo eitthvað sæist hvað verið var að gera. Þrátt fyrir það allt hefði verið afar skemmtilegt og spennandi að taka þátt í þessu ævintýri.
Þótt fátt sé um heimildir má ljóst vera að Siglfirðingar tóku í fullri alvöru þátt í starfseminni á fyrstu árum flugs á Íslandi, þótt aðstæður væru víða betri en í þröngum firði nyrst á landsbyggðinni. Ungmennafélagsandinn hrindir starfseminni af stað og þátttakendur eru síðan aðallega iðnaðarmenn og menntamenn og þær tvær flugkonur frá árunum 1940-1942 sem hér er sagt frá. Svo lognast starfsemin út af, einhverjir forsvarsmannanna og annarra félagsmanna flytja burtu, hinn þungi, samanboltaði Zögling skemmist, flugskýlið kemst aldrei alla leið upp og svo kom stríðið.
Nokkrum árum síðar áttu unglingar leið um skemmu norður undir Flóðgarði og Öldubrjót á Siglufirði, norðan við hina miklu mjölskemmu Síldarverksmiðja ríkisins, sem um hríð var stærsta bygging á Íslandi, allt þar til bandaríski herinn byggði flugskýli í Keflavik, nokkru stærra. Þessa skemmu hafði Ásgeir Bjarnason, faðir Hennings Bjarnasonar, notað við síldarsöltun. Henning og félagar tóku þá eftir því að renniflugan, eða það sem heillegt var af henni, hékk þar uppi undir rjáfri. Þeir félagar föluðust eftir vélinni og létu sér detta í hug að gera hana upp, en fengu hreint og klárt afsvar. Síðan veit enginn hvað um þetta fyrsta flugtæki Siglfirðinga varð. Hvort það lenti á haugunum í tiltekt eða endaði ævidaga sína á áramótabrennu ásamt gömlum húsgögnum og snurpunótabátum í Síldarparadísinni.
Heimildir:
Arngrímur Sigurðsson, Annálar íslenskra flugmála 4. bindi
Fundargerðabók Svifflugfélags Siglufjarðar
Greinar og fréttir í blöðum á tímarit.is
Viðtöl við Henning Bjarnason flugstjóra
Viðtöl við félaga í Svifflugfélagi Akureyrar