Ég á það til að grufla talsvert í fortíðinni þegar ég fæ tækifæri til slíks, og við þá iðju mína fyrir einhverjum áratugum síðan, rakst ég á mikinn fjársjóð úr fórum Leós afa míns og Sóleyjar ömmu minnar á Siglufirði.
Þegar afi kom fyrst til Siglufjarðar frá Hnífsdal upp úr 1930, var hann eins og flestir aðrir sem þangað lögðu leið sína í atvinnuleit. Hann var lengi skipverji á bátunum Villa og Snarfara sem gerðir voru út á síld og sáu Gránu að miklu leyti fyrir hráefni til bræðslu.
Ég veit ekki betur en að hann hafi tekið myndirnar sem hér má sjá og tel að hann hafi þá tekið þær á fyrsta áratug veru sinnar á Siglufirði, en hann settist þar að og varð meiri og meiri Siglfirðingur eftir því sem árin liðu án þess þó að gleyma hinum Verstfirska uppruna sínum.
Þetta var löngu fyrir daga asdictækja, kraftblakka og radars. Menn notuðust við handaflið öðru fremur og víst er að sjómennskan hefur verið með talsvert öðrum brag en nútímamaðurinn þekkir.
Þrátt fyrir vosbúð og volk, vinnuhörku og langar vökur, vantaði ekkert upp á að síldveiðarnar, vinnsla hennar, verbúðalífið í brökkunum og bryggjuböllin væru sveipuð draumkenndum dýrðarljóma.
Rómantíkin lá í loftinu og bærinn var langstærsti hjónabandsmarkaður sem nokkru sinni hafði verið til staðar á landinu. Þarna voru á sumrin samankomin þúsundir af kraftmiklu, ungu og lífsglöðu fólki sem framtíðin beið eftir.
Ég var svo heppinn að upplifa allra síðustu ár Síldarævintýrisins og er afar þakklátur fyrir það, því þess vegna tel ég mig geta leyft mér með réttu að upplifa svolitla fortíðarþrá þegar svo ber undir.
Árið 1965 gaf skemmtikrafturinn, fréttamaðurinn, flugmaðurinn, rithöfundurinn, laga og textasmiðurinn og síðast pólitíkusinn Ómar Ragnarsson út fjögurra laga 45 snúninga plötu. Þar mátti m.a. finna sönginn “Svona er á síld” sem hann gerði við “King of the road”, hið frábæra og allt að því tímalausa og töffaralega lag Roger Miller.
Þar má segja að ranghverfan á rómantíkinni komi betur fram en í mörgum öðrum síldarsöngvum.
Veltingur, slor og salt,
sjóveiki og alltaf kalt.
Eldavélin apparat,
ó, ekki tala um mat.
Mér er flökurt og kitlar í kok
og nú er komin súld og norðan rok.
Best er koju að bæla í brælu.
Svon´er á síld.
Í blíðu brjálað at
barningur og handapat.
Síld spriklar, springur nót,
spáin er aftur ljót.
Ég er í fyrsta sinn á sjó,
svefn er enginn, aldrei ró.
Best er koju að bæla í brælu.
Svon´er á síld.
Með viku gamalt skegg ég síðan vind mér í land,
í villtri landlegu ég bregð mér á rand.
Ég hafði næstum gleymt því hvernig kvenfólk leit út
nú kemst ég að raun um það og gleymi allri sút…
Haukur Mortens sem sótti sér konuefnið til Siglufjarðar söng á sjöunda áratugnum lag Núma Þorbergssonar sem byrjaði á textabroti sem allflestir þekkja.
Forðum var verandi á vertíð í Eyjunum…
En síðan lá leið ljóðsins til Siglufjarðar.
Sjómönnum þótti á Siglufjörð farandi
síldinni landað var.
Ekki er spurningum öllum svarandi
um það, sem skeði þar.
Þar voru indælar andvökunæturnar
upp í Hvanneyrarskál.
Þar Adamssynirnir og Evudæturnar
áttu sín leyndarmál.
Ég fann mjög skemmtilegt viðtal sem Hjörtur Gíslason átti við Gunnar Flóvenz í Morgunblaðinu frá 2001 þar sem sá síðarnefndi kom víða við, þar á meðal um upphaf síldveiða, þróun og stofnun Síldarútvegsnefndar. Þar segir m.a.
Síldveiðar við Ísland hófust árið 1868 en það ár veiddi norskur leiðangur frá Mandal rúmlega 2.000 tunnur sem saltaðar voru á Seyðisfirði og fluttar út til Stokkhólms þá um haustið.
Óverulegt magn hafði þó áður verið saltað og flutt út í tilraunaskyni.
Söltunin og útflutningurinn á síldinni var næstu áratugina að mestu í höndum Norðmanna og sömuleiðis eftir að hið eiginlega síldarævintýri hófst skömmu eftir aldamótin með tilkomu herpinóta- og reknetaveiðanna en Svíar og Danir bættust síðar í hópinn og urðu Svíar langstærstu kaupendurnir.Greinina er að finna í heild sinni á…
http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2001/04/12/silfur_hafsins_og_samskiptin_vid_austur_evropu/
Ég rakst líka á greinarkorn eftir Ingibjörgu Jónsdóttur, en hún var nemi í PhD (hvað sem það þýðir) fiskifræði við Háskóla Íslands.
Hún segir m.a:
„Hringnót er einnig nefnd herpinót eða snurpunót. Hún er netgirðing sem lögð er hringinn í kringum fiskitorfu. Hringnætur eru notaðar við loðnu- og síldarveiðar við Ísland. Hringnót samanstendur úr aflöngum netstykkjum úr næloni sem eru saumaðar saman lóðrétt og mynda mjög stórt net. Meðalsíldarnót er 550m löng og 180m djúp. Á efri brún netsins eru flot sem halda netinu á floti og við neðri brún netsins er teinn sem á eru festar blýsökkur til að þyngja netið. Einnig eru snurpuhringir festir á neðri brún netsins og í gegnum þá þræddur snurpuvír. Netið er lagt utan um torfuna og neðri teinninn látinn síga til að komast niður fyrir torfuna. Nótinni er lokað að neðan með því að hífa snurpuvírinn inn. Því næst er annar endi nótarinnar dreginn inn í skipið og minnkar þá nethringurinn þar til aðeins lítill netpoki er við hliðina á skipinu og í honum liggur fiskurinn. Fisknum er svo dælt upp í skipið. Hringnót er stærsta veiðarfærið sem notað er við Ísland og vegur meðalsíldarnót um 40 tonn. Hringnótin er einnig afkastamesta veiðarfærið við Ísland, þ.e.a.s. tekur mestan afla“.
Eitt af því sem var fylgifiskur alls þess sem var að gerast í norðrinu rétt innan við Grímseyjarsundið, var að tónlistarmenn streymdu norður í upphafi hverrar vertíðar því þarna var einnig atvinnu að hafa fyrir þá.
Það þótti ekkert tiltökumál þó að dansað væri á fjórum eða sex stöðum í einu og alls staðar fullt út úr dyrum. Dragspilið þanið til hins ýtrasta og valsar, rælar, skottísar, polkar, vínarkrusar og marsúrkar dunuðu þar til nýr dagur reis.
Vikan var líka sjö dagar rétt eins og nú, en þá fór aðsóknin ekki síst eftir því hvort var landlega og strákarnir í landi, eða kannski saltað á hverju plani og stelpurnar uppteknar við annað en dans og dufl.
Þetta mikla ævintýri sem stóð í meira en hálfa öld veitti líka “poppskáldum” þess tíma allt að því óendanlegan og ótæmandi innblástur. Það var sungið um síldina ef ekki var verið að vinna við hana og dansað við síldarslagarana ef ekki var verið að kasta á torfu úti fyrir landi eða staðið yfir tunnunni á planinu.
Árni Björnsson átti einn af lífseigari textum þar sem síldarmenningunni voru gerð skil.
Ég sá hann í dag og ég sá hann í gær,
hann söng er hann hélt frá landi.
Og við honum brosti hinn víðfeðmi sær
er vindurinn seglin þandi.
Hæ, hæ, hó, hó, allt er í ani
Hæ, hæ, hó, hó, allir á spani.
Þeir síldina veiða og sigla svo inn,
hún skal söltuð uppi á plani.
Þeir slógu upp balli á bryggjunni eitt sinn
meðan báturinn lá í aðgerð.
Og Nikulás kokkur og nótabassinn
þöndu nikkuna með sinni aðferð.
Hæ, hæ, hó hó, allt var í ani
Hæ, hæ, hó, hó, allir á spani.
Við söltum á daginn en syngjum í kvöld
og svífum í dans á plani.
Svo sigldi hann bátnum víst suður um land
í Sandgerði og Vestmannaeyjar.
Og haustbáran fellur við fjörunnar sand
meðan faðmar hann sunnlenskar meyjar.
Æ, æ, ó, ó allt er í ani.
Æ, æ, ó, ó, enginn á spani.
Og nú reikar einmana og eirðarlaus sál
í örvinglan niðri á plani.
–
Í landlegum þyrptust sjómenn gjarnan upp á Póst & Síma til að hringja heim og var þá fullt út úr dyrum þar á bæ.
Á þessum árum var aðeins ein lína milli Siglufjarðar og Reykjavíkur og mínar heimildir segja að þannig hafi það verið allt fram yfir 1960.
Þá var ekki óalgengt að bið eftir símtali væri löng og ef menn náðu að panta fyrir hádegi gátu þeir vænst þess að komast að fyrir miðnætti.
Sumir sem þarna voru höfðu þó meiri áhuga á póstinum en símanum, því oft var beðið eftir að báturinn kæmi frá Akureyri og brennivínssendingarnar sem pantaðar höfðu verið í hús.
En algengt var að Ríkinu á Siglufirði væri lokað snarlega þegar sást til margra skipa í fjarðarkjaftinum, veðurútlit var slæmt og stefndi í fjölmenna landlegu.
Þó sáu margir útsjónarsamir sjóarar við þessu og áttu oftar en ekki a.m.k. eina póstkröfu sem beið þeirra á pósthúsinu.
Söguseríuna “Poppað á Sigló” og margar fleiri skemmtilegar greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.