Anita Elefsen safnstjóri á Síldarminjasafninu skoðar sýningu á ljósmyndum Leifs Þorsteinssonar  sem verður opnuð á 17. júní, klukkan 13:00 í Ljósmyndasögusafninu Saga-Fotografica á Siglufirði. Leifur, sem fæddist árið 1933 og lést í árslok 2013, var einn af frumkvöðlum í ljósmyndun hér á landi. Hann starfaði við iðnaðar- og auglýsingaljósmyndun auk þess sem hann sinnti listrænni ljósmyndun.

Á þessari sýningu eru svarthvítar ljósmyndir frá Reykjavík sem teknar voru undir lok síðustu aldar á Diönu plastmyndavél sem lekur ljósi og að sjálfsögðu er linsan líka úr plasti. Áferðin á myndunum er því mjúk og draumkennd, allt öðru vísi en við eigum að venjast. 

Auk mynda Leifs eru myndir Ragnars Axelssonar frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi til sýnis á efri hæð safnsins. Á neðri hæðinni eru auk myndavéla gamlar Siglufjarðarmyndir til sýnis að venju.

Mynd og texti: Björn Valdimarsson