„Það kalla ég rart“ Sýningaropnun Stefáns Jónssonar í Pálshúsi Ólafsfirði laugardaginn 25. júní kl. 15:00. Sýningin verður opin á opnunartíma Pálshúss til 25. júlí 2022
Stefán Jónsson er íslenskur myndlistarmaður, fæddur á Akureyri 1964. Hann stundaði myndlistarnám í Myndlista og handíðaskóla Íslands og School of Visual Arts í New York þar sem hann útskrifaðist með MFA gráðu árið 1994.
Á myndlistarsýningunni „Það kalla ég rart“ sýnir Stefán u.þ.b. 50 myndir og 15 bómullarboli sem hann hefur búið til á síðastliðnum 15 mánuðum. Öll verkin sýna fugla sem eru algengir í íslenskri náttúru. Verkin eru unnin út frá ljósmyndum sem skornar eru í vínylfilmu og límdar á tréplötur af ýmsu tagi eða pressaðar á pappír eða bómullarboli.
Titill sýnigarinnar er fenginn úr Íslandsklukku Halldórs Laxness og lýsir viðbrögðum Jóns Guðmundssonar Grindvíkings þegar Jón Hreggviðsson tjáir honum að sést hafi fuglar í loftinu á Íslandi.
Sýningin verður opnuð kl. 15:00, í Pálshúsi, Strandgötu 4, Ólafsfirði í dag, 25. júní og stendur til 25. júlí.