Nú er ljóst að Pæjumótið hefur verið blásið af hér á Siglufirði. Skýring Knattspyrnufélags Fjallabyggðar er sú að ónóg þátttaka var fyrir hendi og var sett tilkynning inn á vef KF í gærkvöldi um að mótinu hefi verið aflýst, en mótið átti að hefjast í dag.
Löng hefð er fyrir Pæjumótinu á Siglufirði, það hófst fyrst árið 1991 og er það eitt elsta knattspyrnumót fyrir stúlkur á landinu.
Það fór að draga út þátttöku mótsins eftir að hætt var að halda íþróttamannvirkjum á Hólsvelli við, sterk gagnrýni foreldra og forráðamann liðanna á aðstæðum voru á árunum 2013 -2015, sérstaklega hvað völlurinn væri erfiður yfirferðar í bleytu. Í framhaldi af því fór liðum fækkandi og er svo komið núna að ekki er næg þátttaka fyrir hendi í ár.
Árið 2014 var uppi sterk umræða um ástand Hólsvallar og gerðar úrbætur rétt fyrir Pæjumót, en það virðist vera sem svo að ekki hefur tekist að vekja upp aðstæður til að halda þessari löngu hefð Siglfirðinga fyrir metnaðarfullum og skemmtilegum viðburði.
Ljóst er að það eru að reytast af Siglfirðingum skrautfjaðrirnar, nú er bæði Síldarævintýri og Pæjumót úti. Þessir tveir viðburðir ásamt Þjóðlagahátíðinni hafa verið mestu uppgrip ferðaþjónustuaðila hér á Siglufirði svo að þetta er mikið tjón fyrir þá sem hafa verið að byggja upp slíka þjónustu.
Ekki tókst að ná í forsvarsmann KF fyrir vinnslu fréttarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Sjá frétt Trölla um Síldarævintýrið: Það er af sem áður var
Sjá frétt af vef Sigló.is um Pæjumótið 2014: Hólsvöllur ónýtur eða ónýttur?
Pæjumót 2008
Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndband: YouTube